DV hefur þurft að greiða tugi milljóna króna í skaðabætur og/eða til lögmanna á undanförnum árum og það hefur leikið fjárhag blaðsins grátt, samkvæmt úttekt Franca ehf-almannatengslafyrirtækis á stöðu DV sem blaðs og netmiðils. Höfundar úttektarinnar, fyrrum fréttamaðurinn Eggert Skúlason og Eygló Jónsdóttir almannatengill, benda á möguleika þess að blaðamenn DV taki sjálfir þátt í kostnaði af málsóknum. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um úttektina.
Í umfjöllun blaðsins segir að DV og dv.is fái falleinkun í úttektinni og höfundar hennar leggi til að ritstjórnarstefna DV verði endurskoðuð. Nauðsynlegt sé að orðið sanngirni sé að finna í ritstjórnarstefnu miðilsins og nauðsynlegt þykir að færa hana „nær því hlutverki sem fjölmiðlar geta og eiga að sinna, sem er miðlun upplýsinga á sanngjarnan og hlutlausan hátt til almennings“. Áberandi hafi verið hjá álitsgjöfum að þeir telji DV hafa dregið fólk í dilka á undanförnum árum. Sumum hafi verið hampað en aðrir fengið fyrir ferðina.
Orðspor og ímynd miðilsins meðal almennings er samkvæmt úttektinni mjög slæm. Fortíðardraugar fylgi miðlinum bæði hjá almenningi og starfsfólki.