Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga sem snýr að því að upprunamerkingar verði settar á kjötvörur með skýrari hætti en nú er. Lagt er til að á merkingunum komi fram upplýsingar um kolefnisspor vegna flutnings, bæði á kjötvörum sem og á garðyrkjuafurðum sem ætlaðar eru til manneldis.
Fram kemur í greinargerð með tillögunni að hún hafi tvívegis verið lögð fram en ekki náð fram að ganga. Hún er nú lögð fram óbreytt en flutningsmenn tillögunnar eru þeir Þorgrímur Sigmundsson og Sigurður Páll Jónsson, sitjandi varaþingmenn úr Miðflokki, og Ásmundur Friðriksson úr Sjálfstæðisflokki.
„Betur má ef duga skal“
Í greinargerð með tillögunni er vísað í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem varpar ljósi á þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. „Þar kemur fram að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum strax og vinna markvisst að því að afstýra því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5 gráður með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríkið,“ segir í greinargerðinni.
Umhverfisráðherra hefur lagt fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnisbindingu svo Ísland geti staðið við markmið Parísarsamkomulagsins til 2030. Að mati flutningsmanna þarf engu að síður að velta við hverjum steini í baráttunni. „Stefnan er metnaðarfull en betur má ef duga skal og nauðsynlegt að skoða alla kosti við að minnka kolefnissporið.“
Sérstök áhersla er lögð á að neytendur geti fengið upplýsingar um kolefnisspor innfluttra matvæla. „Kjötvörur eru fluttar hingað hvaðanæva úr heiminum með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Ljóst er að kolefnisspor kjöts sem flutt er t.d. frá Nýja Sjálandi er mun stærra en kjöts sem er flutt í búðir frá framleiðendum innan lands. Á síðari árum hafa kröfur neytenda um upplýsingar um vöru stóraukist, t.d. um innihald vöru og uppruna hennar. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að neytendur fái upplýsingar um kolefnisspor vörunnar, þ.e. hve mikil loftslagsáhrif framleiðsla og flutningur á viðkomandi vöru hefur haft.“
Nýsjálenskt kjöt mengar minna hingað komið en íslenskt
Mikið hefur verið rætt og ritað um áhrif flutnings á kolefnisspor matvæla. Hagfræðiprófessorinn Þórólfur Matthíasson greindi sérstaklega kolefnisspor íslensks lambakjöts og bar það saman við kolefnisspor nýsjálensks lambakjöts með flutningi árið 2019, sem er einmitt dæmið sem nefnt er í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Með því að styðjast fyrir fyrirliggjandi gögn komst Þórólfur að því að kolefnisspor lambakjöts frá Nýja-Sjálandi hingað komið sé á bilinu 21,5 til 23 kíló koldíoxíðs á hvert beinlaust kjötkíló, þar af losar flutningur hvers kílós frá Eyjaálfu um fjórum kílóum af koldíoxíði. Til samanburðar var kolefnisspor íslensks lambakjöts 28,6 á hvert kíló, og það með beini.
Í grein sem Þórólfur ritar í Bændablaðið í október árið 2019 þar sem hann gerir grein fyrir útreikningum sínum segir hann að reynt hafi verið að gera samanburðinn sem hagstæðastan íslenska kjötinu. „Þegar tekið er tillit til afréttarbeitar og leiðrétt fyrir beinamálið þá kemur í ljós að sótspor íslenskrar lambakjötsframleiðslu er nálægt 50 kílóum af CO2-ígildum á kíló af beinlausu lambakjöti. Sótspor nýsjálensks lambakjöts, komið til Íslands, er undir 25 kílóum af CO2-ígildum á hvert kíló beinlauss bita,“ ritar Þórólfur.
Lítil losun frá sjóflutningum en flugið vandar málið
Matarspor Eflu er tól sem hefur rutt sér til rúms í mötuneytum landsins þar sem reikna má út og bera saman kolefnisspor ólíkra máltíða. Í Matarspori er til dæmis hægt að reikna hlut flutninga í kolefnissporinu með því að færa inn upplýsingar um frá hvaða heimsálfu matvælin koma og hvort þau voru flutt með skipi eða flugvél. Á sérstakri síðu sem geymir algengir spurningar og svör um útreikninga í Matarspori má finna einhverja umfjöllun um áhrif flutninga á kolefnissporið þó sú umfjöllun sé samtvinnuð umfjöllun um mun kolefnisspors kjöts og grænmetis.
„Hvernig getur innflutt grænmeti verið umhverfisvænna en innlent kjöt?“ er til að mynda spurt í einni algengri spurningu á vef Eflu. Í svarinu sem er birt með spurningunni segir að munurinn á kolefnisspori kjöts og grænmetis sé yfirleitt það mikill að hann er meiri en kolefnisspor vegna innflutnings með sjóflutningum. Það eigi aftur á móti við um meðaltal gilda í Matarspori en sé ekki algilt fyrir alla framleiðendur kjöts og grænmetis.
Málið vandast aftur á móti þegar grænmeti og ávextir eru fluttir inn með flugi, en þá hækkar losunin umtalsvert.
Svipað merkingarkerfi sett á fót í Skandinavíu
Þessar línur vilja flutningsmenn þingsályktunartillögunnar skýra fyrir neytendum því tillagan nær einnig til grænmetis, eða garðyrkjuafurða til manneldis eins og það er orðað í tillögunni. „Á síðari árum hafa kröfur neytenda um upplýsingar um vöru stóraukist, t.d. um innihald vöru og uppruna hennar. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að neytendur fái upplýsingar um kolefnisspor vörunnar, þ.e. hve mikil loftslagsáhrif framleiðsla og flutningur á viðkomandi vöru hefur haft. Þar með getur neytandi tekið upplýsta ákvörðun og valið umhverfisvænni kost kjósi hann svo.“
Athygli er vakin á sambærilegri upplýsingagjöf í Skandinavíu en ein af aðgerðum í aðgerðaáætlun dönsku ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er að hefja vitundarvakningu meðal almennings um áhrif matvælaframleiðslu á loftslag. Það verður gert með því að merkja matvæli með límmiða þar sem fram koma áhrif vörunnar á loftslagið. Í Svíþjóð hafa sænsku bændasamtökin látið útbúa merkingarkerfi fyrir matvörur sem sýnir hvaða áhrif framleiðslan hefur á loftslag.