Skipulagsstofnun hefur ákveðið að laxeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm, þurfi að láta meta umhverfisáhrif áforma sinna um að nota kopar í svokölluðum ásætuvörnum á eldissvæðum í Arnarfirði.
Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær og Vesturbyggð töldu ekki þörf á slíku mati en Hafrannsóknarstofnun mælti eindregið með því enda kopar eitraður málmur sem safnast upp í umhverfinu og getur haft skaðleg áhrif á lífríki. Stofnunin benti m.a. á umsögn sinni um málið að erlendis hefur notkun ásætuvarna með koparoxíði víða verið hætt. Í umsögninni er ennfremur rifjað upp að Arctic Sea Farm hafi um tíma notað slíkar varnir hér á landi í leyfisleysi.
Ásætur eru þær lífverur kallaðar sem safnast upp á hlutum í hafinu, s.s. á eldiskvíum. Um er m.a. að ræða ýmsa þörunga og hryggleysingja. Kopar drepur dýr og þörunga og virkar þess vegna sem ásætuvörn. Hafró segir að allt bendi til þess að kopar sé skaðlegur umhverfinu og segir að um það hafi verið fjallað í mörgum rannsóknum. Ásætuvarnir hafa ekki aðeins áhrif á þær lífverur sem stefnt er að því að verjast. Þannig hafi rannsóknir sýnt að á svæðum í kringum koparkvíar hafa lífverur, til dæmis humrar og ígulker, safnað þungmálminum í vefi sína.
Leyfi Arctic Sea Farm eru bundin við þrjú svæði; Lækjarbót, Hvestudal og Trostansfjörð. Í eldinu hafa ásætur hingað til verið fjarlægðar með reglulegum háþrýstiþvotti á eldisnótum með tilheyrandi álagi á netin sem slitna fljótar og eykur það að mati fyrirtækisins líkur á slysasleppingum. Markmiðið með því að nota ásætuvarnir sem innihalda koparoxíð sé að minnka þörf á þvotti á eldisnótum og draga þannig úr álagi á nætur.
Í greinargerð sem fyrirtækið skilaði til Skipulagsstofnunar vegna málsins segir að með notkun koparásætuvarna sé einungis þörf á þvotti nóta í sjó með lágþrýstingi á 8-12 mánaða fresti en nætur án koparoxíðhúðunar þurfi að þvo á 6 vikna fresti. Þegar slátrað hefur verið úr kvíunum verði nætur þrifnar í landi og litaðar aftur með koparoxíð fyrir næstu notkun. Allt vatn sem falli til muni fara í gegnum vatnshreinsikerfi þar sem grófur úrgangur verði síaður frá og síðan í annað ferli þar sem málmar og önnur efni verði felld út og vatnið fari svo í gegnum ósonkerfi þar sem það verður dauðhreinsað. Ásætuvörnin sem stefnt er að því að nota heitir Netwax E5 Greenline.
Vonlaus ályktun
Hafró sagði í umsögn sinni um málið að í greinargerð ASF væri ekki fjallað um hvaða áhrif kopar geti haft á botndýralíf. Hins vegar sé fjallað almennt um eitrunaráhrif kopars sem fyrirtækið skýri „réttilega frá“ að séu til staðar. „Þó dregur framkvæmdaraðili þá ályktun að notkun koparoxíðs fylgi ekki veruleg neikvæð umhverfisáhrif,“ skrifa sérfræðingar Hafró. „Þetta er vonlaust að styðja nema vita umfang koparlosunarinnar.“
Fram kemur að ef í ljós komi að kopar safnist upp í botnseti fer yfir viðmiðunarmörk sem er lýst í vöktunaráætlun og rekja megi til notkunar á eldisnótum með ásætuvörn sem innihalda kopar muni ASF grípa til mótvægisaðgerða. Mótvægisaðgerðir fælust þá í að lengja hvíldartíma, færa kvíar innan eldissvæðis, að fækka seiðum eða að hætt verði að nota svæðið. „Ekki er ljóst hvernig lengdur hvíldartími eða fækkun á útsettum seiðum getur verið mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun kopars úr ásætuvörnum í botnseti,“ bendir Hafró á. „Séu kvíastæði færð til innan eldissvæðis er verið að dreifa úr eitrunaráhrifum af hálfu koparsins. Koparinn eyðist ekki upp heldur safnast saman og því er ólíklegt að þessar mótvægisaðgerðir geri mikið fyrir umhverfið. Besta mótvægisaðgerðin er að hætta notkun kopars.“
Að mati Hafrannsóknastofnunar er það áhyggjuefni og afturför miðað við stefnu annarra landa að verið sé að hefja notkun á ásætuvörnum sem innihalda kopar hér á landi.
Að mati Arctic Sea Farm fylgja notkun koparásætuvarna ekki veruleg neikvæð umhverfisáhrif og því eigi breyting á þann veg að nota slíkt ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Þessu er Hafrannsóknarstofnun algjörlega ósammála og segir þessa ályktun fyrirtækisins „í algerri mótsögn við stöðu þekkingar um áhrif kopars á umhverfið“. Þá kemur einnig fram í samantekt tilkynningar ASF að „til að lágmarka enn fremur umhverfisáhrif ásamt því að bæta dýravelferð óskar Arctic Sea Farm því eftir heimild í starfsleyfi til að nota ásætuvarnir sem innihalda koparoxíð á eldissvæðum sínum.“ Hafrannsóknastofnun segist draga stórlega í efa að eitraður þungmálmur eins og kopar geti dregið úr eða lágmarkað umhverfisáhrif á nokkurn hátt. „Ef framkvæmdaraðili telur að koparoxíð geti dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum þarf hann að skýra það frekar og vitna í rannsóknir sem styðja mál hans.“
Hafrannsóknarstofnun segir mikla óvissu um áhrif kopars, lyfjameðhöndlunar gegn lúsum og styttingu hvíldartíma milli eldislota á annað lífríki en eldislax sem og samvirkandi áhrif þessara þátta. „Ferli leyfisveitinga í sjókvíaeldi hér á Íslandi er orðið þannig að upphaflega framkvæmdin sem sótt er um fer í mat á umhverfisáhrifum en tekur svo breytingum eftir á í smærri skrefum,“ segja sérfræðingar Hafró. „Þannig hafa verið að koma upp beiðnir um styttingu hvíldartíma milli eldislota og nú notkun koparoxíðs sem ásætuvörn. Einnig hafa komið upp all nokkur tilfelli á Vestfjörðum þar sem notkun á lyfjum gegn laxa- og fiskilús hefur verið heimiluð. Þessar breytingar, stytting hvíldartíma, notkunar ásætuvarna og lyfjameðhöndlun í sjókvíaeldi hafa ekki farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum þó þær séu, að mati Hafrannsóknastofnunar, þær breytingar sem líklega hafa hvað mest umhverfisáhrif í för með sér m.t.t. þeirra þátta sem tengjast starfssviði stofnunarinnar.“
Að þessu öllu sögðu telur Hafrannsóknarstofnun að notkun koparásætuvarna á eldissvæðum Arctic Sea Farm í Arnarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
Nægileg grein gerð fyrir framkvæmd
Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar telur hins vegar að í tilkynningu fyrirtækisins sé gerð fullnægjandi grein fyrir fyrirhuguðum áformum og umhverfisáhrifum og að framkvæmdin eigi ekki að vera háð mati á umhverfisáhrifum.
Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur sömuleiðis að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.
Umhverfisstofnun telur áhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar liggja ljós fyrir í tilkynningu Arctic Sea Farm til Skipulagsstofnunar og að ferli umhverfismats myndi í þessu tilfelli ekki varpa skýrari mynd á áhrif starfseminnar á umhverfið. „Með tilliti til umfangs, eðlis og staðsetningar framkvæmdar, að því gefnu að starfsemin uppfylli þau skilyrði sem sett verða í breyttu starfsleyfi og verði byggð á bestu aðgengilegu tækni telur Umhverfisstofnun ekki líklegt að hún hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og sé því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“
Það var sömuleiðis niðurstaða Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.
Krefjast aðstæður í Arnarfirði
Skipulagsstofnun tekur hins vegar undir með Hafrannsóknarstofnun í ákvörðun sinni og segir það niðurstöðu sína að fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.
„Lífríki á botni Arnarfjarðar lifir við krefjandi aðstæður vegna þröskuldar í mynni fjarðarins auk þess sem það er undir álagi vegna losunar lífræns úrgangs frá fiskeldi og ítrekaðrar notkunar lúsalyfja,“ segir í ákvörðun stofnunarinnar. „Notkun kopars í sjókvíum bætir við nýjum álagsþætti á botndýralíf fjarðarins en kopar getur haft langvarandi eitrunaráhrif á lífverur og er mjög eitraður þörungum og hryggleysingjum. Með tilliti til eitrunaráhrifa kopars er langvarandi notkun ásætuvarna sem innihalda kopar líkleg til að stuðla að því að ástand vatnshlotsins Arnarfjarðar versni og að umhverfismarkmiðum verði ekki náð. Ekki er víst að vöktun komi í veg fyrir uppsöfnun kopars í firðinum og óafturkræf skaðleg áhrif á lífríki fjarðarins.“