Íbúar í fátækrahverfum Danmerkur sem eru ekki með „vestrænan bakgrunn“ mættu ekki vera fleiri en 30 prósent af heildarfjölda íbúa hverfanna innan tíu ára, samkvæmt nýrri áætlun dönsku ríkisstjórnarinnar. Aðgerðin var tilkynnt á miðvikudaginn í þessari viku, en einnig var fjallað um það á vef DR.
Samkvæmt innanríkisráðuneyti Danmerkur er tilgangur útspilsins að sporna gegn uppgangi svokallaðra hliðstæðra samfélaga (d. parallelsamfund) í dönsku samfélagi.
„Í allt of mörg ár höfum við lokað augunum fyrir þróuninni sem hefur verið í gangi og fyrst brugðist við þegar aðlögunarvandinn var orðinn of stór,“ segir innanríkisráðherrann, Kaare Dybvad Bek, í fréttatilkynningu. „Nú viljum við sjá til þess að við stingum ekki höfðinu í sandinn enn einu sinni á meðan ný hliðstæð samfélög verða til,“ bætti hann við.
Hvað er „ekki vestrænt“?
Hagstofa Danmerkur hefur í nokkurn tíma haldið utan um tölfræði um fjölda „vestrænna“ og „ekki-vestrænna“ íbúa landsins. Samkvæmt henni teljast íbúar „vestrænir“ ef upprunaland þeirra er úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES), Andorra, Ástralíu, Kanada, Mónakó, Nýja-Sjálandi, San Marínó, Bandaríkjunum og Vatíkaninu. Því er fjöldi evrópskra landa, líkt og Albanía, Bosnía, Serbía og Úkraína, ekki talinn „vestrænn“.
Ef innflytjendur eru af fyrstu kynslóð miðar hagstofan við fæðingarland þeirra sem upprunaland. Ef þeir eru fæddir í Danmörku er hins vegar miðað við upprunaland móður þeirra.
Innanríkisráðuneyti Danmerkur hefur tilgreint alls 58 hverfi í Danmerku með yfir þúsund íbúum þar sem hlutfall „ekki-vestrænna“ er yfir 30 prósent. Þeirra á meðal er Finlandsparken í Vejle, þar sem umrætt hlutfall nær tæpum 74 prósentum. Samkvæmt minnisblaði sem ráðherra hefur gefið út samhliða tilkynningunni eru félagsleg vandamál algeng í þessum hverfum, en atvinnuleysi er víða yfir 30 prósentum og meirihluti íbúa hafa einungis grunnskólamenntun.
Bek, sem er þingmaður Sósíaldemókrataflokks Danmerkur, hefur haldið því fram að enginn muni verða fluttur úr hverfunum gegn sínum vilja með útspilinu. Hins vegar muni yfirvöld hafa auga með því hverjir flytja þangað inn „til að tryggja blandaða samsetningu íbúa í öllum hverfum.“
Uppfært kl. 13:50: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var talað um aðgerð ríkisstjórnarinnar sem frumvarp.