Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt frambreytingartillögu við bandorm vegna fjárlagafrumvarpsins sem felur í sér að bankaskattur verði hækkaður í það sem hann var í byrjun árs í fyrra. Þetta telur hún að muni skila ríkissjóði sex milljörðum króna í viðbótartekjur á ári.
Í greinargerð með tillögunni segir Ásthildur Lóa að lækkun bankaskattsins í fyrra hafi ekki skilað þeim árangri sem stjórnvöld gerðu ráð fyrir.
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, var lækkaður í fyrra úr 0,376 í 0,145 prósent á heildarskuldir þeirra banka sem skulda yfir 50 milljarða króna. Alls borga fimm fjármálafyrirtæki skattinn en þorra hans greiða stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Fyrir vikið lækkaði álagður bankaskattur sem ríkissjóður lagði á bankana um 6,1 milljarð króna vegna ársins 2020 og var 4,8 milljarðar króna. Það er lækkun upp á 56,2 prósent.
Áætlað er að hann verði 4,8 milljarðar króna í ár og tæplega 5,3 milljarðar króna á næsta ári.
Skörp lækkun bankaskattsins, hefur ekki skilað því að vaxtamunur banka hafi lækkað sem neinu nemur en spilað inn í miklar hækkanir á virði hlutabréfa í þeim bönkum sem skráðir eru á markað.
Ætlaði að lækka skattinn í skrefum
Síðasta ríkisstjórn, sem nú hefur endurnýjað samstarf sitt, hafði lengi stefnt að því að lækka skattinn, sem hafði skilað ríkissjóði miklum tekjum í kjölfar bankahrunsins, fyrst með að leggjast af krafti á þrotabú föllnu bankanna og síðan með því að leggjast á starfandi íslenska viðskiptabanka.
Frumvarp um að lækka bankaskattinn í skrefum var lagt fram 2018 og samkvæmt því átti það ferli að eiga sér stað milli 2020 og 2023. Í lok þess tímabils átti skatturinn að verða 0,145 prósent.
Í júní 2019 var ákveðið að fresta þessum áformum um eitt ár og að lækkun skattsins myndi hefjast 2021 en yrði komin að öllu leyti til framkvæmda á árinu 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Gríðarlegur hagnaður í heimsfaraldri
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins var lækkuninni svo flýtt og gjaldhlutfallið var fært niður í 0,145 prósent vegna skulda í árslok 2020. Hún kom því öll til framkvæmda í fyrra í stað þess að verða í skrefum á fjórum árum.
Auk þessa var sveiflujöfnunarauki á eigið fé banka afnumin tímabundið og stýrivextir lækkaðir niður í 0,75 prósent, sem hratt af stað mikilli aukningu á virði eigna sem bankar sýsla með og fjármagna, sérstaklega hlutabréfa og íbúða. Breytinguna má glöggt sjá í uppgjörum bankanna síðan að þetta var ákveðið.
Eftir að hafa tapað samtals 7,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 enduðu stóru bankarnir þrír með sameiginlegan hagnað upp á 29,8 milljarða króna á öllu síðasta ári.
Í ár hefur hagnaðurinn verið enn meiri. Sameiginlegur hagnaður þeirra var rúmlega 60 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs. Það er meiri hagnaður en stóru bankarnir þrír hafa hagnast innan árs frá árinu 2015.
Þegar markaðsvirði þeirra þriggja banka sem skráðir eru á markaði er skoðað er ljóst að ákvarðanir stjórnvalda og seðlabanka, meðal annars skörp lækkun bankaskatts, hefur leitt af sér miklar hækkanir á virði hlutabréfa. Á einu ári hafa hlutabréf í Arion banka hækkað um 104 prósent, hlutabréf í Kviku banka um 73 prósent og bréf í Íslandsbanka hafa hækkað um 55 prósent frá því í sumar, þegar hann var skráður á markað.
Vill framlengja „Allir vinna“ í eitt ár
Ásthildur Lóa lagði einnig til að átakið „Allir vinna“ verði framlengt um eitt ár.
Kjarninn greindi frá því í gær að meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefði ákveðið að leggja til að haldið verði tímabundið áfram að fella niður virðisaukaskatt á starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis í gegnum „Allir vinna“-átakið að hluta fram eftir næsta ári, þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi lagst hart gegn því. Í minnisblaði ráðuneytisins sem skilað var inn til nefndarinnar var framlengingin sögð óþörf og varað við að hún gæti valdið ofþenslu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans afgreiddi meirihlutinn álit sitt á fundi nefndarinnar í gær. Þar var lagt til að úrræðið fyrir starfsemi tengdri byggingarframkvæmdum og viðhaldi húsnæðis verði framlengt að fullu út ágúst á næsta ári og frá 1. september muni endurgreiðslan miðast við 60 prósent af því sem ætti annars að fara til ríkissjóðs sem virðisaukaskattur.
Þá verða endurgreiðslur vegna heimilishjálpar og reglulegrar umhirðu og vegna frístundahúsnæðis framlengdar til 30. júní. Endurgreiðsla vegna bílaviðgerða ýmiskonar mun hins vegar falla niður um áramót líkt og stefnt var að.
Engin greining á kostnaði vegna framlengingarinnar var lögð fram samhliða nefndarálitinu en í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins kom fram að auknar og útvíkkaðar endurgreiðslur á virðisaukaskatti frá byrjun faraldursins til ársloka 2021 muni nema 16,5 milljörðum króna. Þar sagði einnig að ef úrræðin yrðu framlengd í óbreyttri mynd út næsta ár gæti ríkissjóður orðið af 12 milljörðum króna á næsta ári.
Í ljósi þess að endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis hafa verið næstum 80 prósent allra endurgreiðslna vegna átaksins „Allir vinna“ er ljóst að viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna framlengingarinnar mun hlaupa á milljörðum króna.