Ríkisskattstjóri vill að frumvarp um aukinn gjaldfrjáls aðgang að gögnum sem safnað er saman í hlutafélagaskrá verði tkið til endurskoðunar. Að mati hans hefur ekki verið lagt fram fullnægjandi kostnaðarmat vegna breytinganna né lagt mat á þá hækkun fjárveitinga til Skattsins sem lækkun þjónustugjalda muni óhjákvæmilega hafa í för með sér. „Námu þjónustugjöld vegna hlutafélaga um það bil 79 milljónum kr. á árinu 2020 en óformlegt mat á kostnaði vegna einskiptis tæknibreytinga bendir til þess að hann myndi nema um 8 milljónum kr. Samkvæmt framansögðu verður að telja æskilegt að frumvarpstextinn verði tekinn til endurskoðunar, og hugað verði frekar að afmörkun þeirra upplýsinga sem birta skal með rafrænum hætti.“
Þetta kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið sem skilað var inn fyrir rúmri viku síðan.
Hægt er að kaupa umræddar upplýsingar frá einkaaðilum á borð við Creditinfo og Kelduna í dag.
Ársreikningar loks aðgengilegir án greiðslu
Frumvarpið var lagt fram af þingmönnum þriggja stjórnarandstöðuflokka: Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins, í janúar. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður þess. Með frumvarpinu er lagt til að upplýsingar hlutafélagaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning, að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í skránni og að sömu upplýsingar séu þar aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr henni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.
Embætti ríkisskattstjóra, sem nú tilheyrir Skattinum, lagðist gegn frumvarpinu og sagði það kippa fótunum undan rekstri þess. Enn fremur líkti embættið afnámi gjaldtökunnar við það að gera aðgang að söfnum landsins ókeypis. Ekki var tekið mark á þessum aðfinnslum þá.
Segja um grundvallarbreytingu að ræða
Upplýsingar um fyrirtæki eru aðgengilegar almenningi í nágrannalöndum Íslands, að uppistöðu án endurgjalds. Þar eru starfræktar sérstakar vefsíður þar sem hægt er að nálgast grunnupplýsingar um fyrirtæki á borð við eigendur, stjórnendur og lykiltölur úr rekstri fyrirtækjanna.
Vefsíðan Allabolag í Svíþjóð þjónar til að mynda þessum tilgangi, en þar er að finna helstu upplýsingar um fyrirtæki þar í landi. Hægt er að nálgast grunnupplýsingar án kostnaðar en ef þörf er á þá er hægt að greiða fyrir frekari upplýsingar. Samkvæmt síðunni er hún uppfærð daglega með upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.
Sambærilegar síður eru í Danmörku og Noregi, þar sem hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um dönsk og norsk fyrirtæki.
Ríkisskattstjóri telur að sú framkvæmd sem verið er að reyna að koma á fót hérlendis sé mun yfirgripsmeiri en tíðkist annars staðar. Í því sambandi bendir embættið á á að upplýsingar um hlutafélög í Danmörku sem eru birtar og aðgengilegar séu, að því er virðist, að mestu sambærilegar við þær sem nú þegar er hægt að nálgast í fyrirtækjaskrá án endurgjalds. Væntanlega eigi almenningur á Íslandi þó þegar tiltekinn rétt til aðgangs að þeim gögnum sem hér um ræðir á grundvelli upplýsingalaga. „Um grundvallarbreytingu er hins vegar að ræða eigi stjórnvaldið að birta öll þessi gögn að eigin frumkvæði á opinberu vefsvæði. Almennt mun það viðhaft við lagasetningu að gætt sé meðalhófs þegar skyldur eru lagðar á. Hvað varðar öflun stjórnvalda á upplýsingum, þá er ekki gengið lengra en að hún miðist við nauðsynlegar upplýsingar sem hæfa tilefni upplýsingaöflunar hverju sinni. Hvað snertir aðgengi almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum er miðað t.d. við fyrirliggjandi upplýsingar með nauðsynlegum og málefnalegum takmörkunum, þar sem m.a. er tekið tillit til almannahagsmuna, friðhelgi einkalífs eða virkra viðskiptahagsmuna fyrirtækja.“