Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík segir að mörg svæði í Reykjavík hafi verið tilbúin til uppbyggingar í mörg ár án þess að nokkuð hafi verið aðhafst með þau. Hún vill að Reykjavíkurborg geti tekið lóðir sem standa auðar til baka sem ekki hefur tekist að byggja á eftir einhvern tiltekinn tíma.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í máli Lífar í nýjum kosningaþætti Kjarnans, Með orðum oddvitanna, þar sem Eyrún Magnúsdóttir ræðir við alla oddvita þeirra ellefu framboða sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 14. maí næstkomandi.
Vilja að Reykjavíkurborg byggi sjálf
Líf segir í þættinum að ótalmargt hafi gerst í Reykjavík á undanförnum árum varðandi húsnæðismálin. „Við stöndum okkur best allra sveitarfélaga hérna á höfuðborgarsvæðinu í uppbyggingu,“ segir hún og nefnir í þessu sambandi félagslegt húsnæði fyrir eldri borgara, samstarf við verkalýðshreyfinguna, óhagnaðardrifin leigufélög og svo framvegis.
„Það er gott en við þurfum að gera meira og við viljum ganga lengra. Það er það sem við í Vinstri grænum erum að setja á borðið að Reykjavíkurborg byggi sjálf. Það er ekki þannig að við séum að fara að stofna eitthvað byggingafélag, alls ekki. Við erum hins vegar að fara að stíga inn á markaðinn, taka þær lóðir sem við sannarlega eigum og byggja á þeim þannig að allir Reykvíkingar geti komist í öruggt húsnæði.“
Reykjavíkurborg geti haft áhrif á „mjög óstöðugan markað“
Líf segir að þetta þekkist til að mynda í Vínarborg og Helsinki – og ótal mörgum öðrum borgum. „Þá stíga borgir inn og byggja. Þetta viljum við gera. Við köllum þetta Reykjavíkurbústaði. Kannski ef hugmyndinni er hrint í framkvæmd fær þetta eitthvað annað nafn en þetta er bara venjulegt fólk. Fólk með alls konar tekjur. Við erum ekki að tala um efnaminnsta fólkið okkar, það er grunnþjónusta sveitarfélaganna þar sem öllum sveitarfélögum ber skylda til þess að veita okkar efnaminnsta fólki húsnæði og tryggja það – og það gerum við í gegnum Félagsbústaði. Þetta yrði öðruvísi og þá myndum við ná alls konar fólki, þetta er bara fyrir alla Reykvíkinga sem hafa lögheimili hérna, inn á markaðinn.
Þannig getur Reykjavíkurborg líka haft áhrif á mjög óstöðugan markað. Hinn frjálsi markaður hefur fengið að prófa að redda þessu en samt er húsnæðisverð allt of hátt. Margir hafa ekki einu sinni efni á því að leggja fyrir til þess að geta einn daginn eignast húsnæði, alveg þrátt fyrir öll lán og vaxtakjör og hvað eina. Þannig að þetta er það sem við viljum gera og ég held að þetta sé mjög gerlegt og raunhæft.“
Hún útskýrir hugmyndina betur og segir að í henni felist tvenns konar aðgerð. Í fyrsta lagi eru það þessir Reykjavíkurbústaðir og í öðru lagi þurfi að hafa meira eftirlit með uppbyggingu á lóðum sem sannarlega hefur verið úthlutað. „Við verðum að átta okkur á því að það eru eignarlóðir hérna í borginni sem standa auðar og ekki hefur tekist að byggja á og þá finnst mér líka að Reykjavík geti tekið til sín lóðir og keypt þær. Keypt fleiri uppbyggingastaði í borginni sem eru í eigu einhvers eða annarra.“
Þannig verði að fá góða yfirsýn yfir þessi mál og skipuleggja vel.
Vilja ganga lengra
Slagorð Vinstri grænna fyrir kosningarnar er „Göngum lengra í Reykjavík“ og segir Líf að ástæða sé fyrir því. „Við höfum bara verið með einn borgarfulltrúa í Reykjavík og höfum þurft að gera málamiðlanir. Auðvitað ef við fáum fleiri þá höfum við meiri áhrif, það liggur í augum uppi. Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við þessa þrjá flokka sem við mynduðum meirihluta með í borginni en við fengum auðvitað ekki allt.“
Hún greinir frá því að í meirihlutaviðræðunum árið 2018 hafi bitbeinið milli VG, Pírata og Viðreisnar verið lækkun gjalda á barnafólk. „Við þurftum alveg heila tvo daga til að ræða það upp og niður. En allt í lagi, við fengum ekki allt en okkur tókst hins vegar að lækka gjöldin umtalsvert á barnmargar fjölskyldur í borginni.“
Hún segir að þau í VG myndu ganga lengra ef þau fengju hreinan meirihluta.
„Við erum ekki að vinna fyrir kerfið“
Þegar Líf er spurð hvað lífsgæði séu fyrir henni þá segir hún að þau séu að geta ferðast óhindrað um almannarými í borginni, dregið andann í ómenguðu lofti, að hægt sé að reiða sig á grunnþjónustuna, að það séu leik- og grunnskólar og frístundaheimili sem ná utan um börnin, að hægt sé að fara í sund, að fólk geti eignast heimili, að hægt sé að vera úti í náttúrunni og sinna hugðarefnum, tómstundum og eiga gott líf. „Að við séum að jafna tækifæri fólks, jafna kjörin og að við þurfum ekki að hafa óþarfa áhyggjur af hversdagsleikanum. Það eru lífsgæði sannarlega.“
Hún segir að Vinstri græn vilji grípa fólk sem missir fótanna. „Við viljum virkja fólk og ná til innflytjenda. Við viljum að fólk taki þátt í samfélaginu og þá þurfum við að hrinda af stað alls konar lýðræðisverkefnum og gera tilraunir með lýðræðið,“ segir hún. Þannig verði allir þátttakendur í því að skapa Reykjavíkurborg.
Líf nefnir að oft hafi verið litið á VG sem íhalds- og kerfisflokk en hún samþykkir ekki þá skilgreiningu. „Við erum ekki að vinna fyrir kerfið, við erum í pólitík þannig að við þurfum að hafa sýn á það hvernig hlutirnir ganga best upp.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: