Ríkissjóður mun tryggja árlega fjármagn til að afla, þjálfa og flytja inn leiðsöguhunda fyrir sjónskerta, verði nýtt frumvarp Ingu Sælands, þingmanns Flokks fólksins, að lögum. Frumvarpi Ingu var útbýtt í vikunni og er frumvarp um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Lagt er til að nýr kafli um leiðsöguhunda bætist við núgildandi lög. Í frumvarpinu er lagt til að notendur sem þurfa á leiðsöguhundum að halda skuli ekki bera kostnað af öflun, þjálfun eða innflutningi slíkra hunda. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð skuli sjá um öflun hundanna í samstarfi við Blindrafélagið. Frumvarpið byggir að hluta til á fylgiskjali með reglugerð um úthlutun á hjálpartækjum á vegum þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar. Fram kemur í greinargerð að lagt sé til að sá texti fylgiskjalsins verði að mestu leyti felldur inn í lögin með tilteknum breytingum. Ólíkt fylgiskjalinu er lagt til að miðstöðin ákveði ekki fjölda hunda til úthlutunar á ári heldur eigi eftirspurn alfarið að ráða för.
50 þúsund krónur á mánuði til fólks á biðlistum
Í lagatexta frumvarpsins er fjallað um úthlutunarferli leiðsöguhunda en samkvæmt því skal þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda taka á móti og afgreiða umsóknir um slíka hunda. Einstaklingar sem taldir eru geta nýtt sér þá sem hjálpartæki til aukins öryggis og sjálfstæðis til daglegs lífs skulu fá leiðsöguhund að undangengnu mati.
Þá er lagt til að þeir einstaklingar sem beðið hafa eftir úthlutun leiðsöguhunds lengur en 12 mánuði eigi rétt á auknum fjárhagslegum stuðningi, 50 þúsund krónum á mánuði, þar til úthlutun fer fram. Með þeim stuðningi sé þeim sem ekki njóta aðstoðar leiðsöguhunds tryggt fjármagn til að standa straum af auknum kostnaði sem fylgir því að hafa ekki slíkan hund, segir í greinargerð frumvarpsins. Þá skapi ákvæðið aukinn þrýsting á stjórnvöld að tryggja nægt framboð leiðsöguhunda.
Hver hundur kostar fjórar til fimm milljónir
Í greinargerð með frumvarpinu eru leiðsöguhundar sagðir vera ómetanlegur stuðningur fyrir blint og sjónskert fólk og að þeir veiti fólki aukið öryggi og sjálfstæði. Þar kemur fram að nú séu 18 á biðlista eftir leiðsöguhundi og að óbreyttu muni það fólk þurfa að bíða árum saman eftir úthlutun. Þá sé framboðið takmarkað því engin þjálfunarstöð er fyrir slíka hunda á Íslandi en Þeir eru ræktaðir og þjálfaðir í Noregi og síðan fluttir til Íslands.
Samkvæmt greinargerðinni kostar hver leiðsöguhundur að jafnaði fjórar til fimm milljónir króna en fram að þessu hafa frjáls félagasamtök þurft að greiða fyrir kostnaðinn að einhverju marki: „Ríkisvaldið hefur aldrei tryggt nægilegt fjármagn til að afla leiðsöguhunda og gjarnan er það svo að frjáls félagasamtök greiða fyrir hundana með sjálfsaflafé. Það er með öllu ótækt að fólk þurfi að bíða árum saman eftir nauðsynlegum hjálpartækjum og að biðin lengist vegna þess að ríkissjóður tekur ekki fullan þátt í fjármögnun,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir enn fremur að ekki sé nóg að tryggja fjármagn heldur þurfi einnig að tryggja framboð. „Verði frumvarp þetta að lögum þurfa stjórnvöld að sýna frumkvæði og tryggja reglulegt framboð leiðsöguhunda. Vonandi verður þetta fyrsta skrefið í átt að því að stofna leiðsöguhundaskóla á Íslandi.“