Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir upplýsingum um allar utanlandsferðir ráðherra það sem af er kjörtímabilinu. Þetta gerði hún með skriflegum fyrirspurnum til hvers og eins ráðherra á Alþingi í gær.
Katrín vill fá upplýsingar um það hversu margar utanlandsferðir hver og einn ráðherra hefur farið í það sem af er kjörtímabilinu. Þá vill hún fá upplýsingar um tilefni ferða, lengd þeirra og kostnað, ásamt upplýsinga um fjölda í fylgdarliði ráðherra.
Katrín Júlíusdóttir
Katrín óskar eftir því að ráðuneytin taki þetta saman og svari skriflega.
Meirihlutinn farið utan í þessum mánuði
Opinberar utanlandsferðir ráðherra eru oft tilkynntar á vefsíðum ráðuneyta. Samkvæmt lauslegri yfirferð Kjarnans á þessum síðum hefur meirihluti ráðherra farið utan í þessum mánuði. Gunnar Bragi Sveinsson er staddur í Washington þar sem hann fundaði með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í gær. Þeir ræddu um samskipti Íslands og Bandaríkjanna, varnar- og öryggismál og málefni norðurslóða. Í þessum mánuði hefur hann einnig tekið þátt í ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra orku, stýrt fundi EES-ráðsins fyrir hönd EFTA-ríkjanna í Brussel, sótt fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkjanna í Tyrklandi og tekið þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Danmörku.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tók þátt í fundi jafnréttisráðherra Norðurlandaþjóðanna í Kaupmannahöfn í byrjun maí.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tekur þátt í þingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Sviss, en það stendur yfir fram yfir helgi. Hann fundaði með framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu stofnunarinnar.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tók þátt í reglulegum fundi í norrænu ráðherranefndinni um menningarmál í Færeyjum um miðjan mánuðinn. Hann tók líka þátt í ráðherrafundi evrópska háskólasvæðisins, Bologna-ferlisins, í Armeníu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fór í heimsókn til Sviss og Liechtenstein í byrjun maí þar sem hann tók þátt í ráðstefnunni „Proudly Small“ þar sem hann hélt ræðu um málefni norðurslóða.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók þátt í IMEX ferðakaupstefnunni í Frankfurt, sem lauk í gær. Hún tók þátt í fundi stjórnmálamanna og forystumanna í ferðaþjónustu og sérstökum hringborðsumræðum. Á undan kaupstefnunni var Ragnheiður Elín í Cannes þar sem hún var viðstödd frumsýningu á íslensku kvikmyndinni Hrútar. Hún kynnti sér einnig vinnusmiðjur ungra kvikmyndaframleiðenda á Norðurlöndum og sat ráðstefnu um framtíð höfundarréttar.