Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi bæjarstjóri, ráðherra og sendiherra, hefur lýst því yfir að hann vilji leiða Samfylkinguna í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum. Prófkjör flokksins fer fram 12. febrúar næstkomandi. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hann vera viss um að Samfylkingin geti orðið stærsti flokkur bæjarins. „Fái ég stuðning flokksfélaga minna í prófkjörinu, þá stefni ég óhikað að því að Samfylking vinni góðan sigur í bæjarstjórnarkosningum í maí og tvöfaldi bæjarfulltrúatölu sína, þ.e. úr tveimur í fjóra. Og að afloknum kosningum geti Samfylkingin í góðu samstarfi við aðra flokka tekið við forystu um stjórn bæjarins.“
Góðu vinir. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til framboðs vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í Hafnarfirði fyrir...
Posted by Guðmundur Árni Stefánsson on Wednesday, January 12, 2022
Guðmundur Árni, sem verður 67 ára í haust, hefur áður verið leiðandi afl í bæjarstjórnarpólitík í Hafnarfirði. Hann sat í bæjarstjórn í tólf ár á síðustu öld, þar af sem bæjarstjóri í sjö. Guðmundur Árni steig upp úr þeim stóli 1993, fyrir 29 árum síðan, og settist á þing í kjölfarið fyrir Alþýðuflokkinn.
„Nú kannast ég við þig. Ekki af baki dottinn“
Í áðurnefndri stöðuuppfærslu segir hann að það sé sannarlega verk að vinna í Hafnarfirði, en sem stendur er sveitarfélaginu stýrt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra og Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, er bæjarstjóri. „Átta ára þreytuleg valdatíð Sjálfstæðisflokksins í bænum kallar á ný vinnubrögð þar sem verkin þurfa að tala í samráði við ólíka hópa og einstaklinga. Ég veit að Samfylkingin er tilbúin í þau verk. Málaflokkarnir þar sem þarf að taka á eru um allt; má nefna mál sem varða skipulag, félagsmál, atvinnumál, leikskóla, grunnskóla, íþróttir, loftlag, jafnrétti, húsnæði fyrir alla, svo fátt eitt sé talið.
Á meðal þeirra sem skrifa ummæli við færsluna er Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. Hún skrifar: „Nú kannast ég við þig. Ekki af baki dottinn.“
Sagði af sér ráðherraembætti 1994
Guðmundur Andri starfaði við blaðamennsku áður en hann hóf þátttöku í pólitík. Á níunda áratugnum var hann kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og varð bæjarstjóri. Hann settist á þing árið 1993 og varð síðar sama ár heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
Ári síðar varð Guðmundur Árni félagsmálaráðherra en gegndi embættinu aðeins í nokkra mánuði. Hann baðst lausnar úr starfinu í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisverk hans. Skýrslan fjallaði ítarlega um aðdraganda starfsloka Björns Önundarsonar tryggingayfirlæknis í nóvember 1993, en hann fékk greiddar þrjár milljónir króna vegna uppgjörs á áunnu námsleyfi gegn því að hann segði upp störfum. Á blaðamannafundi sagði Guðmundur Árni að umfjöllun fjölmiðla og annarra um sig og sín störf, sem hefði sjaldnast byggst á málavöxtum heldur fyrst og síðast á endurtekningum, hefði augljóslega skaðað sig og haft skaðvænleg áhrif á störf sín í félagsmálaráðuneytinu. Í frétt í Morgunblaðinu af blaðamannafundinum segir að Guðmundur Árni hafi sagt að ákvörðunin hafi verið tekin til að láta minni hagsmuni víkja fyrir meiri.
Sendiherra í 16 ár
Hann sat samt sem áður áfram á þingi til 2005 þegar hann var skipaður sendiherra Íslands í Svíþjóð. Síðan þá, í alls 16 ár, hefur Guðmundur Árni starfað sem slíkur. m.a. í Stokkhólmi, Washington, Nýju Delí og nú síðast í Winnipeg í Kanada.
Í stöðuuppfærslu sinni á Facebook segir Guðmundur Árni að hann hafi notið þessara starfa. „Í desember síðastliðnum óskaði ég eftir heimflutningi vegna fjölskylduaðstæðna og einnig verð ég í leyfi næstu mánuði frá störfum í utanríkisráðuneytinu.“
Margir jafnaðarmenn í Hafnarfirði hafi sett sig í samband við hann á síðustu vikum og óskað eftir því að hann legði lið við að styrkja stöðu jafnaðarmanna í bænum, þar sem Samfylkingin hefur verið í minnihluta, en sveitarfélagið var áður fyrr oftast undir stjórn jafnaðarmanna. „Ég hef ákveðið að verða við þessu kalli og er þess fullviss, að með góðri liðsheild, skýrri stefnu og markvissum vinnubrögðum geti Samfylkingin orðið stærsti flokkur bæjarins.“