Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd, sendi í síðustu viku fyrirspurn á nefndina og spurði hvort mat hefði verið gert á því hvort „einhversstaðar séu tengdir aðilar við nefndarmenn eða aðra þingmenn - af því að það er sérstaklega bannað að taka þátt í atkvæðagreiðslu um slíka fjárheimild." Hann hefur ekki fengið svar.
Fyrirspurnin skiptir meðal annars màli vegna breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar þess efnis að veita 100 milljón króna framlag úr ríkissjóði „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ eftir að beiðni þar um kom frá Maríu Björk Ingvadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækisins N4 á Akureyri. Í beiðninni fór María fram á alla fjárhæðina fyrir N4. Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni samþykktu fjárheimildina.
Á meðal nefndarmanna í fjárlaganefnd sem stóðu að breytingartillögu til að veita 100 milljón króna nýtt framlag á grundvelli beiðni N4 er Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann er bróðir eiginmanns Maríu, Ómars Braga Stefánssonar.
í siðareglum fyrir alþingismenn segir í 5. grein að þingmenn skuli „ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra“. Í 11. grein segir svo að þingmenn skuli við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. „Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“
Kjarninn hefur reynt að ná tali af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, formanni fjárlaganefndar, í dag en án árangurs.
Báðu um fjármagn byggt á röngum upplýsingum
Kjarninn greindi frá því í gær að María hefði sent beiðni til fjárlaganefndar þann 1. desember. Í beiðninni óskar María eftir að ríkissjóður veiti N4 100 milljón króna styrk „til að halda úti fjölmiðlun, þáttagerð og fréttamiðlun, af landsbyggðunum árið 2023.“
N4 er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar, sem á hlut í gegnum Fjárfestingarfélagið Vör. Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er með höfuðstöðvar á Akureyri.
Í öðru lagi tiltekur María að mörg sveitarfélög hafi verið tilbúin að styrkja þáttagerð af sínum svæðum, ýmist með beinum styrkjum til þáttagerðar eða kaupum á þjónustu. „Nú bregður svo við að aðalbaklandið, Norðurland allt, hvarf frá þessu 2022 en hélt okkur volgum fram eftir ári. Það komu að lokum rúmar 4 milljónir samtals í þjónustukaup frá 12 sveitarfélögum á Norðurlandi eystra nú í lok árs. ( ca 26.000.- að meðaltali á mánuði frá hverju þeirra ). Þetta hefur sett rekstur stöðvarinnar í algjört uppnám.“
Þá segir hún auglýsingatekjur hafa stórminnkað á þessu ári. Þar komi tvennt til, annars vegar stóraukið hlutfall auglýsinga sem fari til erlendra samfélagsmiðla, sem María segir í beiðninni að taki til sín 55 prósent auglýsingafjár. Hið rétta er að 43,2 prósent, eða 9,5 af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa í fyrra, fór til erlendra aðila. Hitt sé að stærstur hluti þess sem eftir verði í landinu fari til RÚV „ þar sem meðallaun sölumanna eru 1,2 milljónir á mánuði“. Auglýsingatekjur RÚV í fyrra voru rúmlega tveir milljarðar króna, sem er undir 20 prósent þeirra auglýsingatekna sem fóru til innlendra aðila í fyrra.
Fjórða og síðasta atriðið sem María nefnir til stuðnings þess að N4 eigi að fá sérstakan rekstrarstuðning er að fyrirtæki séu ekki lengur jafn áfjáð í að kosta þætti eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk og þau voru áður. Það’ hafi orsakað mikinn tekjusamdrátt.
Þingmenn utan af landi mynda uppistöðu meirihlutans
Á grundvelli þessa rökstuðnings ákvað meirihluti fjárlaganefndar að veita N4 100 milljónum króna úr ríkissjóði. Meirihlutann skipa Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, Haraldur Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki og Þórarinn Ingi Pétursson og Stefán Vagn Stefánsson úr Framsóknarflokki.
Allir þessir þingmenn utan Bryndísar, sem kemur úr Suðvesturkjördæmi, eru þingmenn landsbyggðarkjördæma. Þeir Stefán Vagn og Haraldur eru úr Norðvesturkjördæmi, en framkvæmdastjóri N4 er búsett á Sauðárkróki sem er í því kjördæmi auk þess se Stefán Vagn er mágur hennar. Þau Bjarkey og Þórarinn Ingi eru úr Norðausturkjördæmi, þar sem höfuðstöðvar N4 eru.