Fregnir bárust af því í gær að ÁTVR leitaði eftir nýju verslunarplássi undir nýja verslun í miðborg Reykjavíkur og sæi fyrir sér að hætta mögulega rekstri Vínbúðarinnar í Austurstræti. Fyrirætlanir fyrirtækisins, og skilyrði þess um næg bílastæði fyrir viðskiptavini, hafa fengið blendin viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Í útboðslýsingu Ríkiskaupa fyrir hönd ÁTVR, sem birt var þann 21. október, segir að óskað sé eftir að taka á leigu 400-600 fermetra húsnæði undir Vínbúð, á svæði sem afmarkast af Snorrabraut, Hverfisgötu, Tryggvagötu, Geirsgötu „og til sjávar í norður.“
Viðskiptablaðið sagði fyrst frá málinu og hafði eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra ÁTVR að endanleg ákvörðun hefði ekki verið tekin um tilfærslu.
„Austurstrætisbúðin er óhentug. Hún er á tveimur hæðum, við erum með lagerinn niðri, og svo er bara mjög erfitt um flutninga til og frá búðinni,“ hafði blaðið eftir Sigrúnu.
Næg bílastæði á meðal skilyrða
Samkvæmt útboðslýsingunni, sem fjallað er um í frétt Viðskiptablaðsins, segir að skilyrði ÁTVR séu þau að húsnæðið sé á vel skilgreindu verslunarsvæði, liggi vel við almenningssamgöngum, umferð að og frá því sé greið, það sé á jarðhæð, bjóði upp á að vöruhurð opnist beint á bak- eða hliðarsvæði, hafi góða aðkomu og næg bílastæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, helst um tuttugu slík sem megi sérmerkja Vínbúðinni, gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða og góða aðkomu fyrir flutningabíla, auk annars.
Þessi skilyrði hafa sem áður segir fallið í grýttan jarðveg hjá sumum, en ríkisfyrirtækið hefur áður hlotið gagnrýni fyrir að staðsetja verslanir sínar á stöðum þar sem langflestir viðskiptavinir koma á sínum einkabíl.
Umræða um hið sama átti sér sömuleiðis stað þegar Vínbúðinni í Borgartúni var lokað fyrr á árinu og þá hafa fleiri ákvarðanir ÁTVR um opnun og lokun verslana sætt gagnrýni á umliðnum árum, til dæmis staðsetning nýrrar verslunar fyrirtækisins í Kauptúni í Garðabæ, en áður var ÁTVR með útibú á Garðatorgi. Bæjaryfirvöld í Garðabæ furðuðu sig á því að ÁTVR vildi ekki opna verslun miðsvæðis í bænum.
Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, segir að ÁTVR sé með „hrikalega fjandsamlega stefnu“ gagnvart fólki sem ekki sé á bíl. „Algjörlega óþolandi og gamaldags,“ skrifar Gísli Marteinn í umræðum sem spunnist hafa um málið á Twitter.
ÁTVR er með alveg hrikalega fjandsamlega stefnu öllu því fólki sem ekki er á bíl. Algjörlega óþolandi og gamaldags. https://t.co/IjDLZqo3AC
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) October 26, 2021
Nokkuð margir láta sig málið varða – og í umræðunum hefur því verið velt upp hvort einhver staðsetning í grennd við núverandi Vínbúð í Austurstræti geti mætt þeim þeim kröfum sem nefndar eru í útboðslýsingunni.
Hafnartorg hefur borið á góma, en þar er reyndar ólíklegt að tuttugu bílastæði fáist sérmerkt ÁTVR þrátt fyrir að bílastæðin undir verslunarkjarnanum skipti hundruðum. Tilfærsla Vínbúðarinnar út í bílmiðaðann stórverslanakjarnann á Granda virðist sumum sennilegasta niðurstaðan.
„Ef ÁTVR færir sig af Austurstræti út á Granda þá fer ég að halda að fyrirtækinu sé í nöp við okkur sem hjólum og göngum í búðir. Sorglegt að fyrirtæki í opinberri eigu skuli haga sér svona,“ skrifar Snæbjörn Brynjarsson um málið, en hann gagnrýnir einnig núverandi staðsetningu verslunar ÁTVR í Hafnarfirði. Vínbúðin í Hafnarfirði flutti úr Firði í Hafnarfirði og yfir í Helluhraun, sem kalla má ansi bílmiðaðan kjarna í Hafnarfirðinum, árið 2014.
„Ef ÁTVR væri inni í firðinum í Hafnarfirði þá myndi það hafa keðjuverkandi áhrif á annan rekstur þar í kring og auka flæði fólks um gamla bæinn og ýta undir fjölbreyttari samgöngumáta,“ skrifar Snæbjörn.
Friðjón Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn þeirra sem sér Grandann helst fyrir sér út frá útboðsskilyrðunum sem fjallað hefur verið um og hann segist vona, sem talsmaður þess að sala á áfengi færist á hendur annarra en ríkisins, að „ÁTVR standi fast á kröfunni um 20 sérmerkt stæði sem er ómögulegt að uppfylla.“
„Það eru meiri líkur á því að við fáum frelsi ef þingheimur og Stjórnarráðsstaff getur ekki rölt og kippt einni vínflösku með áður en heim er haldið,“ skrifar Friðjón.