Atvinnuleysi dróst lítillega saman í síðasta mánuði og mældist 4,9 prósent, en var slétt fimm prósent mánuðinn á undan. Þetta er minnsti samdráttur í atvinnuleysi sem mælst hefur milli mánaða frá því að það tók að hjaðna í upphafi árs.
Fjöldi þeirra sem er að öllu leyti án atvinnu hefur rúmlega helmingast frá því mars þegar alls 21.019 voru í þeim hópi. Þeir voru 10.083 í lok nýliðins október.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi í lok síðasta mánaðar.
Hlutfallslega er atvinnuleysið nú á nánast sama stað og það var fyrir kórónuveirufaraldurinn en það mældist fimm prósent í lok febrúar 2020. Það var hæsta atvinnuleysi sem mælst hafði hérlendis í næstum átta ár, eða frá því í apríl 2012. Helsta orsakir þess voru gjaldþrot flugfélagsins WOW air og áhrif þess á ferðaþjónustu og loðnubrestur, sem saman leiddu til mikils samdráttar í hagvexti.
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni annað hvort lítið breytast eða aukast lítils háttar í nóvember vegna árstíðasveiflu og verði á bilinu fimm til 5,3 prósent.
Langtímaatvinnulausir mun fleiri en þeir voru fyrir faraldur
Langtímaatvinnulausir, þeir sem hafa verið án atvinnu í meira en eitt ár, voru 4.252 í lok síðasta mánaðar. Þeim fækkaði frá því í september en eru mun fleiri en þeir voru áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Hlutfall atvinnulausra sem hafði verið án starfs í ár eða lengur í lok október var 42 prósent og fjöldi langtímaatvinnulausra er 124 prósent meiri en hann var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.
Þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex til tólf mánuði fækkaði á milli mánaða en þeir voru 2.053. Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að þeir hafi verið 5.49i fyrir ári síðan og því hefur fækkað verulega í þessum hópi frá því að atvinnuleysið var sem mest vegna faraldursins.
Pólverjar helmingur atvinnulausra erlendra borgara
Atvinnuleysið er mun meira hjá erlendum ríkisborgurum sem hér búa en öðrum, en í lok september bjuggu 54.410 erlendir ríkisborgarar hérlendis sem þýðir að þeir voru þá 14,4 prósent allra íbúa.
Þeim hefur fjölgað á Íslandi frá því að efnahagssamdráttur vegna kórónuveirufaraldursins hófst.
Í janúar síðastliðnum var atvinnuleysi á meðal þeirra 24 prósent og í lok október mældist það enn 11 prósent, eða langt umfram almennt atvinnuleysi. Um 40 prósent allra atvinnulausra tilheyra hópi erlendra atvinnuleitenda.
Flestir þeirra, alls 48 prósent allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá, koma frá Póllandi. Því næst koma Litháar, Lettar, Rúmenar og Spánverjar en færri af öðrum þjóðernum.
Ríkið greiðir hluta launa hjá sjö þúsund manns
Sem stendur eru enn í gildi svokallaðir ráðningastyrkir, sem greiddir eru út í tengslum við atvinnuátakið Hefjum störf. Það snýst um að ríkissjóður greiði þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum. Í síðasta mánuði voru 79 prósent auglýstra starfa átaksverkefni eða reynsluráðningar og mörg þúsund manns eru ráðin á þessum ráðningarstyrkjum.
Samkvæmt mælaborði Vinnumálastofnunar hafa 7.063 ráðningar átt sér stað á grundvelli átaksins frá 1. mars, en tæplega 300 ráðningar voru gerðar undir hatti þess í október. Því má rekja um 70 prósent af þeirri fækkun sem varð á atvinnuleysisskrá í síðasta mánuði til átaksins.
Um 75 prósent þeirra ráðninga hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Langflest störfin sem ráðið hefur verið í á grundvelli ráðningastyrks tengjast ferðaþjónustu eða tengdum greinum.
Í ljósi þess að störfum í og í kringum ferðaþjónustu fjölgar iðulega mikið yfir sumartímann, þegar háannatími er í geiranum, má gera ráð fyrir því að störfum í geiranum fækki með vetrinum þegar ferðamenn verða færri. Vöxtur kórónuveirufaraldursins og hertar takmarkanir vegna vegna hans, sem tóku að fullu gildi í vikunni, gætu líka haft neikvæð áhrif á geirann þar sem dregið getur úr ferðavilja.