Sú vinnumenning sem ríkir á Íslandi og aukin fjölbreytni í störfum eru á meðal þeirra þátta sem skýrt geta hversu löng starfsævin er hér á landi að sögn Róberts Farestveit sviðsstjóra á sviði stefnumótunar og greininga hjá Alþýðusambandi Íslands. Starfsævi Íslendinga er sú lengsta í Evrópu en Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, birti á dögunum nýjar tölur þar sem lengd starfsævinnar í Evrópu er borin saman.
Tölfræði Eurostat greinir frá væntri lengd starfsævi 15 ára ungmenna, þeirra sem eru ef til vill að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Samkvæmt Eurostat geta íslensk ungmenni vænst þess að verja 44,6 árum á vinnumarkaði. Að meðaltali er starfsævi karla lengri en kvenna, hér á landi er meðaltal karla 46,4 ár en 42,6 ár hjá konum. Í Evrópu er meðaltalið á heildina litið um 36 ár, hjá körlum í Evrópu er meðaltalið 38,2 ár en 33,7 ár meðal evrópskra kvenna.
Mikil atvinnuþátttaka á „báðum endum“
„Þetta er marglaga og ég held að það sé ekki nein einföld skýring á þessu,“ segir Róbert í samtali við Kjarnann, spurður að því hvers vegna Íslendingar vinni svona mikið. „Í flestum mælikvörðum eru yfirleitt notaðar tvær skilgreiningar varðandi aldur, það er frá 16 til 64 ára og frá 16 til 74 ára. Þegar við skoðum Ísland í breiða aldursbilinu, 16 til 74 ára, þá erum við með mjög mikla atvinnuþátttöku borið saman við flest önnur lönd. Það skýrist af atvinnuþátttöku á báðum endum.“
Atvinnuþátttaka er sem sagt mikil hjá ungmennum og hjá þeim sem eldri eru. Þegar horft er til þrengra aldursbils breytist þessi samanburður. „Ef við myndum skoða hópinn 25 til 64 ára þá erum við á svipuðu bili og önnur lönd, mig minnir að Svíþjóð og fleiri lönd séu hærri þar,“ bendir Róbert á.
Spurður að því hvers vegna Íslendingar vinni svona mikið segir Róbert að ekki sé hægt að skýra það með einföldum hætti, þetta megi að hluta til skýra með vinnukúlturnum hér á landi. Þar að auki tíðkist það meðal ungmenna að vinna talsvert með námi en atvinnuþátttaka ungmenna hefur aukist síðastliðinn áratug.
Þá geti starfasamsetningin haft einhver áhrif, til að mynda segir Róbert að samhliða vexti ferðaþjónustunnar hafi framboð ef til vill aukist á fjölbreyttari störfum sem hægt sé að vinna í hlutastarfi.
Vinnuþátttaka eldra fólks geti verið bæði jákvæð og neikvæð
Spurður út í það hvort löng starfsævi og mikil atvinnuþátttaka hafi einhver áhrif á félagslega þætti segir Róbert áhrifin vera sýnilegri hjá eldri aldurshópum og að þau geti verið blanda af jákvæðum og neikvæðum áhrifum. „Það geta verið jákvæðir hvatar sem ýta undir atvinnu hjá fólki sem vill vinna lengur því það gefur þeim einhvern tilgang. Svo erum við kannski að sjá fólk vinna lengur því þarf pening vegna einhverja tekjuáhrifa. Það væru þá kannski óheilbrigðari hvatar þar, því fólk í þeim hópi hefur kannski ekki nægileg réttindi úr lífeyrissjóðum.“
Áhrif langrar starfsævi á heilsu fer að mestu eftir eðli starfa að sögn Róberts. „Það fer algjörlega eftir því við hvað þú starfar,“ segir hann og bendir á að neikvæð áhrif á heilsu séu mun algengari hjá fólki sem vinnur slítandi vinnu. „Þetta getur verið mjög bundið við hvaða atvinnugrein og hvaða starf þú starfar við. Við sjáum það auðvitað í örorkubyrði og fleira hjá fólki í slítandi vinnu og í lífeyrissjóðum þar sem hátt hlutfall er af slíkri vinnu. Það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni.“