Utanríkismálanefnd, þar sem Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, gegnir formennsku, samþykkti á fundi sínum í gær nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafsasamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans í byrjun maí að ekki væri um að ræða stefnubreytingu hjá flokknum með stuðningi íslenskra stjórnvalda við aðildarumsókn Svía og Finna í NATO. Hún sagðist sjálf ætla að styðja við þær ákvarðanir sem Finnland og Svíþjóð myndu taka varðandi aðildarumsókn að NATO.
Þetta er samt sem áður í fyrsta sinn sem formaður Vinstri grænna styður við stækkun NATO.
Í stefnu Vinstri grænna að Ísland segi sig úr NATO
Fyrrum formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, og þingmenn flokksins hafa ítrekað greint frá þeirri afstöðu sinni að Ísland eigi ekki að vera í NATO og þau styddu ekki stækkun bandalagsins. Afstaða flokksins hefur hingað til verið skýr hvað NATO varðar en í stefnu hans segir að flokkurinn leggi áherslu á að Ísland segi sig úr bandalaginu.
Steingrímur taldi að þvert á móti bæri að vinna að því að leggja hernaðarbandalög niður og gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum með lýðræðislega uppbyggðum svæðis- og alheimsstofnunum, eins og stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu (ÖSE) og endurskipulögðu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
„Metnaðarmál norrænu NATO-ríkjanna“ að vera í hópi fyrstu ríkjanna sem staðfesta aðild Finnlands og Svíþjóðar
Finnar og Svíar sóttu formlega um aðild að Atlantshafsbandalaginu 18. maí. Innrás Rússa í Úkraínu hefur haft í för með sér gríðarlega viðhorfsbreytingu gagnvart bandalaginu þar sem áhuginn á aðild hefur aukist til muna.
Á fundi sínum í gær lagði utanríkismálanefnd til að tillaga um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO yrði samþykkt. Í nefndarálitinu er vísað í greinargerð þingsályktunartillögunnar þar sem fram kemur að mikilvægt er að mögulegt verði að fullgilda viðbótarsamninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar eins fljótt og kostur er að lokinni formlegri undirritun þeirra. Utanríkismálanefnd leggur fer því fram á að Alþingi álykti um heimild ríkisstjórnar til fullgildingar áður en undirritun viðbótarsamninga fer fram.
Svo var ekki gert við staðfestingu viðbótarsamninga við fyrri stækkanir NATO, síðast vegna aðildar Norður-Makedóníu árið 2020 og Svartfjallalands árið 2017 en þá var þingsályktunartillaga til staðfestingar samninga lögð fram eftir að þeir höfðu verið undirritaðir.
„Það er metnaðarmál norrænu NATO-ríkjanna þriggja að vera í hópi fyrstu ríkja til að staðfesta væntanlega viðbótarsamninga Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu. MEð því er nánum vinaþjóðum og frændum sýnd samstaða og um leið þrýst á önnur bandalagsríki að staðfesta samningana hratt og vel,“ segir í nefndaráliti utanríkismálanefndar.