Hvert lið í atvinnumannadeildinni í fótbolta í Bandaríkjunum, MLS, hefur aukið virði sitt um meira en 50 prósent milli ára. Hækkunin er beintengd virði sjónvarpssamninga, aukna sölu á varningi og almennt meiri áhuga en áður. Að meðaltali er virði hvers liðs nú 157 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um tuttugu milljörðum króna. Þetta kemur fram á vef Forbes.
Mun meiri áhugi er á leikjum í MLS nú en fyrir ári síðan og er hann meðal annars rakinn til komu stórstjarna í deildina. Á síðustu tveimur árum hafa David Villa, Kaká og Frank Lampard samið við lið í MLS, og á þessu ári bættust síðan Steven Gerrard, Didier Drogba og Andrea Pirlo í hópinn. Villa, Lampard og Pirlo leika allir með New York City, Gerrard með LA Galaxy, Kaká með Orlando City og Drogba með Montreal í Kanada.
Í grein Forbes kemur fram að Gerrard, Villa, Kaká og Lampard fái allir yfir fimm milljónir Bandaríkjadala í árslaun, eða sem nemur 650 milljónum króna. Það gerir um 54 milljónir króna á mánuði.
Verðmætasta lið deildarinnar er talið vera Seattle Sounders en verðmiðinn á því er 245 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 32 milljörðum króna. Að meðaltali mæta um 40 þúsund áhorfendur á heimaleiki Sounders, þar sem heimamaðurinn Clint Dempsey, fyrrverandi leikmaður Tottenham og Fulham, ber fyrirliðabandið. Liðið hefur gert stærsta auglýsingasamning allra félaga í deildinni við Microsoft, en liðið ber merki dótturfélagsins XBOX framan á búningum sínum.