Virði bréfa í Eimskip hefur aukist um rúmlega 33 prósent á innan við tveimur vikum, eða frá 16. júní. Þann dag var greint frá því að Eimskip hefði gert sátt við Samkeppniseftirlitið um greiðslu 1,5 milljarða króna stjórnvaldssektar vegna alvarlegra brota gegn samkeppnislögum og EES-samningum sem framin voru í samráði við Samskip, aðallega á árunum 2008 til 2013.
Sama dag og tilkynnt var um sáttina uppfærði Eimskip afkomuspá sína. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands á þeim tíma sagði að samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí, ásamt áætlun fyrir júní, liti út fyrir að „EBITDA af rekstri á öðrum ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en afkoma sama ársfjórðungs síðasta árs og jafnframt betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar hefur nýgerð sátt við Samkeppniseftirlitið sem tilkynnt var um fyrr í dag neikvæð áhrif á afkomuna.“
Markaðsvirði Eimskips er nú um 67 milljarðar króna en var um 50 milljarðar króna um miðjan þennan mánuð. Markaðsvirðið hefur því aukist um 17 milljarða króna á tólf dögum.
Ætla að vinna gegn frekari brotum
Með sáttinni sem gerð var við Samkeppniseftirlitið viðurkenndi Eimskip einnig að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip áður en stórtækara samráð á milli fyrirtækjanna tveggja hófst sumarið 2008.
Að auki viðurkenndi Eimskip að hafa brotið gegn samkeppnislögum með því að hafa ekki veitt nauðsynlegar eða réttar upplýsingar eða afhent gögn í þágu rannsóknar málsins, en félagið hefur á fyrri stigum rannsóknar málsins neitað því að hafa gerst brotlegt við lög.
Í sáttinni fólst að Eimskip skuldbatt sig til að grípa til aðgerða til að vinna gegn frekari brotum og efla samkeppni.
Brot félaganna tveggja gegn samkeppnislögum hafa verið til rannsóknar árum saman, en Samkeppniseftirlitið sagði fyrr í þessum mánuði frá því að Eimskip hefði leitað eftir sáttum í málinu. Tekið var fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að Samskip sé enn til rannsóknar vegna þessara mála.
Langstærsti eigandinn á hlut upp á 20 milljarða
Langstærsti einstaki eigandi Eimskips er Samherji Holding ehf., sem heldur á 29,39 prósent eignarhlut. Sá hlutur er nú metinn á 19,7 milljarða króna og hefur hækkað um fimm milljarða króna í virði frá 16. júní. Félagið keypti upphaflega 25,3 prósent hlut í Eimskip á ellefu milljarða króna fyrir tæpum þremur árum síðan.
Baldvin Þorsteinsson, sem stýrir erlendri starfsemi Samherja, er stjórnarformaður Eimskips. Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi stjórnarformannsins og tveggja helstu eigenda Samherja Holding, er forstjóri félagsins.
Samherji Holding er sá hluti samstæðu Samherja sem heldur utan um erlendan hluta hennar. Félagið er á meðal þeirra sem eru til rannsóknar hjá embættum héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra um þessar mundir vegna gruns um mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti. Þær rannsóknir hófust í kjölfar þess að Samherjamálið svokallaða var opinberað í nóvember 2019.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona hans, og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, eru að uppistöðu stærstu eigendur Samherja Holding.
Félagið hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árin 2019 né 2020. Það skilaði síðast ársreikningi fyrir árið 2018 í lok ágústmánaðar 2019 og því hefur Samherji Holding ekki skilað inn ársreikningi líkt og lög gera ráð fyrir síðan að Samherjamálið kom upp.