Þær íbúðir sem Félagsbústaðir, félag utan um félagslegar leiguíbúðir í eigu Reykjavíkurborgar, á voru metnar á 126,5 milljarða króna samkvæmt nýbirtum ársreikningi borgarinnar. Eigið fé félagsins er nú um 67,3 milljarðar króna.
Virði íbúðanna, sem eru rúmlega þrjú þúsund talsins, hækkaði um 20,5 milljarða króna á síðasta ári, sem er í takti við þær gríðarlegu hækkanir sem hafa orðið á íbúðarverði á höfuðborgarsvæðinu síðustu mánuði. Samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá hækkaði vísitala íbúðarverðs á svæðinu um 22,2 prósent frá mars 2021 og fram í mars 2022.
Hækkunin á eignum Félagsbústaða endurspeglar hækkun á fasteignamati á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021 umfram vísitöluhækkun febrúar 2020 til áramóta 2020 og hækkun vísitölu frá febrúar 2021 og til áramóta 2021.
Halda á 3.012 íbúðum
Í Reykjavík er 78 prósent af öllu félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þótt íbúar höfuðborgarinnar séu 56 prósent íbúa á svæðinu. Íbúðir Félagsbústaða eru 5,1 prósent af öllum íbúðum í Reykjavík.
Alls halda Félagsbústaðir á 3.012 íbúðum. Almennar íbúðir eru 2.182, 447 eru svo útbúnar fyrir fatlaða og 383 eru fyrir aldraða. Að öllu meðtöldu er 22 félagsleg íbúð á hverja 1.000 íbúa Reykjavíkur – en þeir voru 135.590 talsins um síðust áramót. Heildarfjöldi félagslegra íbúða í Reykjavík við árslok 2017 var sagður 2.513 og hefur þeim því fjölgað um 499 síðan þá.
Í könnun sem var gerð í fyrra kom fram að 84 prósent leigjenda óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Félagsbústaði eru ánægðir með að leigja þar. Ánægjan hjá þeim sem leigja hjá einkareknu leigufélögunum á Íslandi er hins vegar mun minni, en á meðal leigjenda þeirra segjast 64 prósent vera ánægð með núverandi húsnæði.
Töluverður munur er á því að leigja af einkaaðila og því að leigja af hinu opinbera. Í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem birt var í október 2021 kom fram að það kosti að meðaltali 168 þúsund krónur á mánuði að leigja af einkaaðila en 126 þúsund krónur á mánuði að leigja íbúð í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
Því er þriðjungi dýrara að leigja af einkaaðila en af opinberum aðila.