Nú þegar ár er liðið frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar hófst eru margir vísindamenn farnir að finna fyrir viðvarandi örmögnun sem í daglegu tali er kölluð kulnun. Kulnun getur átt sér stað hjá fólki hvar sem það vinnur en ákveðnir þættir, svo sem langvarandi álag og streita, geta orðið til þess að framkalla kulnun. Einkennin, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin bendir m.a. á, geta verið bæði líkamleg og andleg. Fólk upplifir þreytu, einbeitingarskort og almenna orkuþurrð sem allt getur valdið því að erfitt getur reynst að sinna starfi sem áður þurfti ekki stórkostlegt átak til.
Allir áhættuþættirnir eru til staðar hjá vísindamönnum sem unnið hafa að kappi í faraldrinum. Vinnudagarnir geta verið langir, kröfur um framfarir og árangur miklar og langvarandi þörf á skilyrðislausri einbeitingu tekur sinn toll.
Á síðustu tólf mánuðum hafa vísbendingar um þessi einkenni hjá starfsmönnum vísindastofnana í Evrópu og Bandaríkjunum vaxið hratt. Í könnun sem gerð var meðal 1.122 vísindamanna í Bandaríkjunum, sem allir hafa sinnt störfum viðkomandi faraldrinum, sögðust um 70 prósent hafa verið streittir á síðasta ári sem er helmingi meiri fjöldi en svaraði því játandi árið 2019 (32 prósent).
Könnunin var gerð í október á síðasta ári af vísindatímaritinu The Chronicle of Higher Education og bandaríska þjónustufyrirtækinu Fidelity Investment. Niðurstaða þeirra var sú að meira en tveir þriðju aðspurðra vísindamanna voru uppgefnir en aðeins þriðjungur hafði upplifað slíkt árið á undan. Þá sagðist rúmur þriðjungur finna fyrir reiði árið 2020 samanborið við aðeins 12 prósent árið 2019.
Meira en helmingur vísindamannanna sem tók þátt í könnuninni sagðist hafa íhugað það alvarlega að skipta um starfsvettvang eða að setjast fyrr en ætlað var í helgan stein. Konur í hópnum voru líklegri til að finna einkenni kulnunar og um 75 prósent þeirra sagðist hafa fundið fyrir streitu samanborið við 59 prósent karlanna sem tóku þátt. Átta af hverjum tíu konum sögðu að vinnuálagið hefði aukist í faraldrinum en sjö af hverjum tíu karlmönnum sögðu álagið hafa aukist. Mun fleiri konur en karlar upplifðu ójafnvægi milli vinnu og einkalífs á síðasta ári.
Sambærileg könnun sem gerð var meðal vísindamanna í Evrópu gaf svipaða niðurstöðu. Samkvæmt henni jókst streita meðal vísindafólks umtalsvert sem og áhyggjur þess af andlegri heilsu sinni og vísindamanna almennt.