„Eins og þú veist þá eru peningar ekki fastur mælikvarði heldur breytilegur,“ sagði Breki Karlsson við Helga Seljan í upphafi sjötta þáttar af Ferð til fjár, sem jafnframt var sá síðasti í seríunni. Þættirnir voru á dagskrá RÚV og eru nú aðgengilegir hér. Helgi vildi vita hvers vegna hann borgaði sífellt af lánum sem aldrei virtust lækka. „Ég held við þurfum að ræða aðeins um vöffin þrjú, vexti, verðtryggingu og verðbólgu,“ sagði Breki.
Í þættinum fengu nokkrur háskólanemar að spreyta sig á að svara spurningunni: „Hvað er verðbólga“. Árangurinn var misjafn. En hvað er verðbólga?
Verðbólga er hækkun almenns verðlags yfir tíma. Þegar talað er um að verðbólga sé fimm prósent þá þýðir það yfirleitt að verð á allri vöru og þjónustu hafi að meðaltali hækkað um fimm prósent á síðastliðnum tólf mánuðum.
Það er Hagstofa Íslands sem mælir mánaðarlega hver verðbólgan er í landinu. Verðbólga á Íslandi hefur sögulega verið afar há í samanburði við önnur vesturlönd. Mikil hækkun verðlags hefur í för með sér að sífellt minna fæst fyrir hverja krónu, eins og kom fram þegar þeir Breki og Helgi fjölluðu um það hvernig verðbólgan hefur étið sælgætispokann.
Tengt efni:
Bogi útskýrir vísitölu neysluverðs.
Lága verðbólgan á Íslandi ein sú hæsta í Evrópu.
Sykur og sérfræðingar hafa hækkað mest.