Góðar líkur eru á því að okkur sé að takast að ná utan um þær hópsýkingar sem hafa verið í gangi innanlands undanfarnar vikur. „En við þurfum að muna að veiran er enn í samfélaginu og að við þurfum að fara áfram varlega.“
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. 28 hafa greinst með veiruna innanlands síðustu sjö daga og hafa aðeins tveir þeirra verið utan sóttkvíar. Á sama tímabili hafa fjórir greinst á landamærunum. Greindum smitum hefur farið fækkandi að undanförnu sem kann að sögn Þórólfs að skýrast af þeim aðgerðum sem gripið var til nýverið og takmarkar komu fólks hingað frá mestu áhættusvæðum.
„Ég held að við séum á nokkuð góðum stað,“ sagði Þórólfur almennt um faraldurinn. „Þetta gefur vonandi tilefni til að hægt verði að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum innanlands.“ Áætlað að næsta reglugerð um takmarkanir taki gildi í næstu viku.
„Helsta áhyggjuefni núna, eða áskorunin öllu heldur, er sú mikla aukning á fjölda feðramanna sem eru að koma til landsins og er meiri en spáð hefur verið,“ sagði Þórólfur. Skýringin á því felst helst í því að opnað var fyrir ferðalög fólks hingað til lands utan Schengen og miklum fjölda ferðamanna frá Bandaríkjunum, sem framvísa vottorðum um bólusetningu eða fyrri sýkingu. Síðustu viku hafa rúmlega 3.000 einstaklingar komið til landsins og tæplega helmingur sem kom framvísaði fyrrgreindum vottorðum.
Samkvæmt nýjustu farþegaspám er búist við enn meiri fjölgun á næstu vikum sem mun valda miklu álagi við greiningar á sýnum. Heildargetan er í dag um 3-4.000 sýni á dag. „Þetta mun kalla á einhverja breytingu á landamærum sem mun vonandi ekki koma niður á öryggi við að halda veirunni frá landinu,“ sagði Þórólfur.
Hann segir ekki hægt að segja að hjarðónæmi hafi náðst þó að bólusetningar gangi vel. Um 50 þúsund manns hér á landi eru nú fullbólusettir. Á meðan slíkt ónæmi er ekki til staðar geta enn komið upp stórir faraldrar. Til að hjarðónæmi sé náð er talað um að 60-70 prósent hóps, í þessu tilviki þjóðarinnar, þurfi að vera ónæmur.
„Þannig má í heildina segja að staðan og útlitið sé gott þessa stundina en við þurfum að gæta okkar að grunnatriðum sóttvarna.“
Hann sagði fulla ástæðu til að vera bjartsýnn um framhaldið út af bólusetningum. Þær hafi gefist vel. „Ég hef fulla trú á að við getum horft björtum augum á framtíðina. Hvort að við getum farið á böll eða skemmt okkur ærlega eða á stórar hátíðir í sumar eða haust skal ég svo sem ekki segja en ég tel fulla ástæðu til að vera bjartsýnn á að við séum svona hægt og bítandi að sigla út úr þessu. En svo þurfum við líka að vera viðbúin því að eitthvað annað geti komið upp og þá þurfum við bara að bregðast við því.“