Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur enn á ný hvatt kínversk stjórnvöld til að deila rauntímagögnum um stöðu á faraldri COVID-19 í landinu. Stofnunin segir slíka gagnamiðlun nauðsynlega svo að önnur ríki geti brugðist við með réttar upplýsingar að vopni. Eftir að svokallaðri „núll-covid“ stefnu og meðfylgjandi hörðum aðgerðum var hætt fyrir nokkrum vikum hefur kórónuveiran tekist á flug í þessu fjölmenna landi. Óttast er að heilbrigðiskerfið ráði alls ekki við þann fjölda sem mun veikjast alvarlega. Mörg lönd hafa þegar sett kínverskum ferðamönnum skilyrði. Þannig gætu þeir þurft að gangast undir PCR-próf við komu til þessara ríkja og þurft að sæta einangrun eða sóttkví.
„WHO hefur aftur beðið um að fá reglulega rauntímagögn á stöðu faraldursins, m.a. um raðgreiningu sýna, um innlagnir á sjúkrahús, á gjörgæsludeildir og dauðsföll,“ sagði í tilkynningu stofnunarinnar í gær eftir að forsvarsmenn hennar höfðu átt fund með kínverskum yfirvöldum. Á fundinum var ítrekað hversu mikilvægt væri að gögnum sem þessum yrði deilt svo að hægt væri að meta hættu, innan sem utan Kína.
Áhyggjur hafa vaknað utan Kína vegna stórrar bylgju sem þar gengur nú yfir eftir að losað var um takmarkanir til að framfylgja hinni ströngu „núll-covid“ stefnu. Kínverjar hafa birt ákveðna tölfræði en samkvæmt henni hafa aðeins fáir greinst með COVID-19 og skráð dauðsföll einnig verið fá. Hins vegar eru vísbendingar um og fréttir hafa verið fluttar af því að sjúkrahús og líkhús séu sum hver yfirfull.
Xi Jinping, forseti Kína, hvatti þjóð sína í sjónvarpsávarpi til að standa saman er nýr kafli í baráttunni gegn faraldri COVID væri hafinn. Hann sagði að Kínverjar hefðu nú þegar komist yfir fordæmalausa erfiðleika í baráttu sinni og að stefnan væri að bregðast við ástandinu þegar þörf reynist á því. Hann sagði heilbrigðisstarfsfólk og aðra leggja mikið á sig en bætti við að „dögun“ væri framundan – þ.e. að endirinn á faraldrinum nálgaðist.
Fordæmalaus mótmæli
Núll-Covid stefnan var afnumin fyrir um þremur vikum. Það var gert í kjölfar þess að fordæmalaus mótmæli brutust út í landinu vegna takmarkana. Fólk taldi aðgerðirnar hefta frelsi sitt og líf. Þetta eru mestu mótmæli sem orðið hafa í Kína lengi og þau langmestu sem orðið hafa í tíu ára valdatíð Xi.
WHO óttast ekki aðeins að gögnum um raunverulegt umfang faraldursins verði deilt heldur einnig að örvunarbólusetningar séu allt of sjaldgæfar meðal kínversks almennings. Því gæti bylgjan sú sem nú gengur yfir kostað fjölda mannslífa.
Þegar veira fær að ganga um óhindrað, og hefur marga næma líkama til að hreiðra um sig í, eins og gera má ráð fyrir að sé staðan í Kína, eykst hættan á því að ný afbrigði verði til. Hins vegar er ómögulegt að segja hverjir eiginleikar þeirra gætu orðið. Þau gætu orðið skæðari en þau gætu líka orðið mildari.
Fyrir þremur árum, næstum því upp á dag, greindist ný kórónuveira í fyrsta sinn í Kína. Hún fékk síðar nafnið SARS-CoV-2 og sjúkdómurinn sem hún veldur heitið COVID-19. Upptökin eru rakin til kínversku borgarinnar Wuhan.
Síðan þá hafa yfir 6,6 milljónir manna, svo staðfest sé, látist vegna sjúkdómsins. WHO telur hins vegar að andlátin séu mun fleiri.