Í gær, fimmtudaginn 30. desember greindust 1.601 með COVID-19 smit, þar af voru 44 sem greindust sem landamærasmit. Alls voru 731 í sóttkví. Þetta er langmesti fjöldi sem nokkru sinni hefur greinst með smit hérlendis. Þetta er í fyrsta sinn sem fleiri en þúsund smit greinast á einum degi.
Sem stendur eru 7.585 í einangrun og 6.424 í sóttkví, en ákveðið var í gær að stytta einangrunartímann úr tíu dögum í sjö og heimila svokallaða vinnustaðasóttkví. Samanlagt eru því rúmlega 14 þúsund manns í sóttkví eða einangrun yfir áramótin. Það eru rúmlega tvöfalt fleiri en fyrir viku síðan, en á aðfangadag jóla voru 6.781 í sóttkví eða einangrun.
20 liggja á sjúkrahúsi með COVID-19 þar af sex á gjörgæslu og fimm þeirra eru í öndunarvél. Alls eru 172 starfsmenn Landspítala í einangrun sem stendur.
Fyrsta tilfellið af kórónuveirunni var staðfest hér á landi 28. febrúar árið 2020. Síðan þá eru liðnir 22 mánuðir og frá þeim tíma hafa 27.059 smit greinst.
að afbrigði hefur dreifst á leifturhraða um veröld víða, um nokkuð takmarkalaus samfélög manna ólíkt því sem gerðist í delta-bylgjunni, höfum við ekki enn fengið staðfestingu á því hversu skaðlegt það er.
Það sem vísindamenn hafa þó sagt er að jafnvel þótt ómíkron valdi almennt mildari sjúkdómseinkennum en delta gæti sú bylgja sem nú rís sligað heilbrigðiskerfi af þeirri einföldu ástæðu að þegar gríðarlega margir smitast samtímis mun fjölga í hópi þeirra sem þurfa sjúkrahúsinnlögn – hvort sem veiran kallast ómíkron eða delta.
Arnar Pálsson erfðafræðingur sagði við Kjarnann skömmu fyrir jól að fjölgunargeta ómíkron sé meiri en delta, annarra afbrigða og upprunalegu gerðar veirunnar. „Það þýðir að með tíð og tíma verður ómíkron allsráðandi í öllum stofnum, það er að segja á öllum svæðum þar sem veiran geisar.“