Alls segjast 63 prósent landsmanna að þeir treysti núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur illa til að selja eftirstandandi 42,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka. Einungis 16 prósent segjast treysta henni vel til þess og 21 prósent segjast treysta henni í meðallagi. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Maskína hefur látið gera. Könnunin var gerð daganna 18. til 22. nóvember og var því gerð eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluferli á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka kom út í byrjun síðustu viku.
Í sömu könnun var einnig spurt hversu fylgjandi eða andvígt fólk væri gagnvart því að Alþingi setti á fót rannsóknarnefnd til að skoða söluna á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Þar kom í ljós að 61 prósent svarenda er fylgjandi því að setja upp rannsóknarnefnd en einungis tólf prósent eru á móti því. Alls 27 prósent sögðust ekki hafa skoðun á málinu.
Sjálfstæðismenn skera sig einir úr
Þegar afstaða fólks til þess hversu vel það treysta ríkisstjórninni til að selja banka er flokkuð niður á stjórnmálaskoðanir kemur í ljós að það eru einungis kjósendur eins flokks sem treysta henni að meirihluta vel fyrir að selja restina af Íslandsbanka. Það eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, flokks Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Alls segjast 58,9 prósent þeirra treysta ríkisstjórninni vel til að selja eftirstandandi hlut í bankanum.
Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka eru upp til hópa á því að ríkisstjórninni sé ekki treystandi fyrir frekari bankasölu.
Svipuð staða er uppi þegar kemur að áhuga um að setja á fót rannsóknarnefnd Alþingis. Kjósendur Sjálfstæðisflokks skera sig úr hópnum en 36,8 prósent þeirra eru andvígir því að setja á fót slíka nefnd en 26,4 prósent fylgjandi. Kjósendur allra annarra flokka eru frekar fylgjandi því en andvígir að setja á laggirnar rannsóknarnefnd til að rannsaka bankasöluna.
Þar á meðal eru kjósendur Vinstri grænna en alls 73,4 prósent þeirra vilja að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar og einungis 7,8 prósent þeirra eru á móti því. Á meðal kjósenda Framsóknarflokksins er staðan þannig að 61,5 prósent eru fylgjandi rannsóknarnefnd en 8,8 prósent á móti.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir sölu
Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í byrjun september var gert ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur fyrir 75,8 milljarða króna á næsta ári. Það var gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni og að sú ákvörðun verði ekki endurskoðuð á meðan að Ríkisendurskoðun og FME rannsökuðu það sem átti sér stað í mars.
Kjarninn greindi frá því fyrr í október að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og að yfirlýsingin stæði þar af leiðandi áfram. Katrín staðfestir að ekkert hafi breyst í þeim efnum í samtali við Kjarnann í byrjun nóvember.
Þar sagði hún einnig að engin áform væru uppi um að selja hlut í Landsbankanum en heimild er til þess að selja allt að 30 prósent hlut í honum í fjárlagafrumvarpinu. Bjarni sagði í viðtali við Dagmál á mbl.is í ágúst að hann vildi ekki bara vilja losa ríkið úr eignarhluta í Íslandsbanka heldur líka selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir, þótt hann væri þeirrar skoðunar að ríkið geti vel farið þar með ráðandi hlut.
Þriðji ráðherrann sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er Lilja D. Alfreðsdóttir. Í svari hennar við fyrirspurn á Alþingi í síðasta mánuði sagði að stefna Framsóknarflokksins væri að Landsbankinn verði áfram í eigu ríkisins og að flokkurinn sé til í að skoða hugmyndir þess efnis að bankinn verði samfélagsbanki.
Áfelli Ríkisendurskoðunar
Síðan þá hefur skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluferlið í mars verið birt. Að mati stofnunarinnar voru annmarkar söluferlisins fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Þar segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, verið hægt að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir, en útboðið var lokað með tilboðsfyrirkomulagi og einungis 207 fengu að kaupa hlut í því, samtals fyrir 52,65 milljarða króna.
Bankasýslan hefur hafnað nánast allri gagnrýni sem sett hefur verið fram á hana og sagt að skýrslan afhjúpi takmarkaða þekkingu Ríkisendurskoðunar á viðfangsefninu.
Talið er að Fjármálaeftirlitið muni opinbera niðurstöður rannsóknar sinnar á söluferlinu í janúar.