Hnísur. Skugganefjur. Hnúfubakar og hnýðingar. Þetta eru meðal hvalategunda sem rak að Íslandsströndum á nýliðnu ári. Að minnsta kosti 105 dýr rak á land í 45 atburðum. Það er óvenju mikið miðað við síðustu ár að undanskildu árinu 2019 er 152 hvalrekar voru skráðir hjá Hafrannsóknarstofnun í 42 atburðum. Stórar grindhvalavöður sem syntu upp í fjörur skýra m.a. þennan mikla fjölda bæði þá og nú.
Stærsti einstaki atburðurinn í ár átti sér stað í Árneshreppi í október um 50 dýr syntu þar upp í fjöru og drápust eitt af öðru. Landhelgisgæslan var kölluð til og dró hún hræin úr fjörunni í Melavík, setti um borð í varðskipið Þór og sigldi með þau út fyrir sjávarfallsstrauma þar sem hræjunum var varpað í hafið. Við þessa umfangsmiklu aðgerð naut Gæslan liðsinnis vaskra heimamanna sem telja núorðið, í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins, færri en grindhvalina í vöðunni. Sambærilegur atburður varð síðari hluta júnímánaðar árið 2019 er svipaðan fjölda grindhvala rak á land í Löngufjörum á Snæfellsnesi. Það ár strönduðu einnig um 50 grindhvalir við Útskálakirkju í Garði. Reynt var að bjarga þeim og tókst að koma um þrjátíu þeirra aftur á haf út á lífi. Tuttugu dýr drápust.
„Ekkert er vitað með ástæður,“ segir Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, spurður um hvað valdi óvenju miklum fjölda hvalreka á árinu sem er að líða. Lengi hafi „hernaðarbrölt og olíuleit verið grunuð“ um að fæla hvali og valda skaða á heyrn þeirra. Til dæmis hafi mikill fjöldi andarnefja og annarra svínhvala árið 2019 verið tengdur við herfæfingar í norðurhöfum en það ár rak óvenju mikinn fjölda andarnefja um allt norðanvert Norður-Atlantshaf.
„En eins og gefur að skilja þá er erfitt að fá einhverjar upplýsingar frá hernaðaryfirvöldum um verkefni þeirra,“ bendir Sverrir á. Þó hafi fjölþjóðlegur hópur verið að sækjast eftir upplýsingum svo rannasaka megi þetta til hlítar.
Flestir þeirra hvala sem rak á fjörur á árinu eru af tegundum sem við flest þekkjum. Tveir hnúfubakar, tvær langreyðar, átta búrhvalir, tvær hrefnur og sömuleiðis tvær hnísur, svo dæmi séu tekin. En í yfirliti því sem Hafrannsóknarstofnun sendi Kjarnanum um skráða hvalreka frá upphafi árs og til 8. Desember er einnig að finna fágætari tegundir.
Tvær skugganefjur rak til að mynda á land. Það heyrir til tíðinda þótt fjórar slíkar hafi gert slíkt hið sama árið 2018. Skugganefjur virðast aðallega halda sig á rúmsjó og eru sjaldséðar á grunnsævi. Tegundin finnst bæði á norður- og suðurhveli jarðar og nær útbreiðsla hennar frá kaldtempruðum svæðum að miðbaug. Þær verða 5-7 metrar að lengd og aðalfæða þeirra er smokkfiskur. Skugganefja er yfirleitt ein á ferð eða í litlum hópum. Þær eru hlédrægar og virðast forðast báta. Árið 2008 sagði í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar, í tilefni af því að skugganefju hafði rekið að Hvaleyrarholti sunnan Hafnarfjarðar, að hún væri sú sjöunda af sinni tegund sem heimildir væru um að fundist hefðu í fjörum Íslands. Þar af hefðu fimm þeirra rekið á land á tólf ára tímabili.
Þá rak norðsnjáldra að landi skammt sunnan við Grenivík í vor. Það verður einnig að teljast til tíðinda því aðeins er vitað um átta önnur tilvik hér við land síðan Hafrannsóknastofnun hóf skráningu hvalreka með skipulögðum hætti um 1980. Fyrsti staðfesti fundurinn var árið 1992 við bæinn Ós í Breiðdal og síðast árið 2018, þegar tarf rak á land í Höfðavík í Vestmannaeyjum. Norðsnjáldrar halda sig mest fjarri landi djúpt á hafi úti og eru auk þess mjög styggir.
Sverrir Daníel fór á vettvang hvalrekans ásamt útibússtjóra stofnunarinnar á Akureyri, Hlyni Péturssyni, og mældu þeir hvalinn og tóku sýni til nánari rannsókna. Ekki var annað að sjá en að norðsnjáldrinn væri í góðu líkamlegu ástandi, en engar fæðuleifar fundust í maga hans og ekkert plast heldur, sem að undanförnu hefur fundist í töluverðu magni í mögum hvala af svínhvalaætt. Dánarorsök er því ókunn.
Fyrir utan grindhvalina sem strönduðu í fjörunni á Ströndum var það gríðarstór hnúfubakur sem rak á land á Garðskaga sem vakti hvað mesta athygli okkar mannanna. Þúsundir lögðu leið sína þangað til að berja hræið augum. Þetta var kvendýr, um fimmtán metrar að lengd og líklega um 30 tonn að þyngd.
Hvalir líkt og önnur dýr undirdjúpanna virða ekki mörk sem mennirnir draga – hvort sem þau kallast landhelgi eða alþjóðleg hafsvæði. Þau haga sínum ferðum eftir hefðum og náttúrulegum þáttum á borð við sjávarstrauma og hitastig. Leit að æti rekur þau áfram sem og leit að maka til æxlunar á ákveðnum árstíma sömuleiðis.
Að sögn Sverris má að einhverju leyti líklega kenna tilfærslu á farleiðum hvala milli ára um breytileika í fjölda mismunandi tegunda við Ísland. Einnig hafa verið að finnast „suðlægari“ tegundir á norðurslóðum, s.s. rákahöfrungar, „sem mann grunar að séu þá til komnir vegna hlýnunar sjávar undanfarin ár“.
Ferðamenn á fáförnum stöðum
Einnig segist hann hafa grunað að aukning í straumi ferðamanna innlendra sem erlendra sem geri sér ferð niður í fjöru „um hvippinn og hvappinn“ hafi verið skýring á stöðugri aukningu tilkynninga um hvalreka síðustu ár. „En ef árið 2021 er á pari við 2019 er ekki hægt að nota þá skýringu eina þar sem aðeins brot af fjölda ferðamanna 2021 er miðað við 2019.“
Hvalir, margir með sína risavöxnu skrokka, eru nauðsynlegur hlekkur í lífríki sjávar og viðhaldi vistkerfa þess. Í raun má segja að hvert og eitt hvalshræ sem sekkur til botns sé sjálfstætt vistkerfi. Hringrásin sem hefst með dauða hvals er nauðsynleg fjölda lífvera. Í hræjunum er mjög mikil næring og fjöldinn allur af dýrum nartar í þau, líkt og Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávar- og atferlisvistfræðingur, sagði við Kjarnann.
Hlutverk þeirra á meðan þeir lifa er svo auðvitað einnig stórt. Risastórt. Þeirra lóð vegur til að mynda þungt þegar kemur að því að binda koltvísýring sem losaður er út í andrúmsloftið. Úrgangur úr þeim, hvalakúkur, er næring fyrir plöntusvif sem aftur hefur gífurleg áhrif á loftslagið því talið er að það bindi allt að 40 prósent alls koltvísýrings í andrúmsloftinu – um fjórum sinnum meira en Amazon-frumskógurinn. Hvalir hafa því verið kallaðir lífrænir kolefnisfangarar og sá þáttur þeirra í hinni mikilvægu hringrás náttúrunnar hefur verið að koma æ betur í ljós síðustu ár.
Leiða má hins vegar líkum að því, líkt og fjallað var um í ítarlegri fréttaskýringu BBC á þessu ári, að á þeim þúsund árum sem þeir hafa verið veiddir hafi margir stofnar minnkað um 66-90 prósent. Það hefur líklega breytt miklu í lífríki sjávar og jarðarinnar allrar.