21 einstaklingur, að meðaltali, leitar á bráðamóttöku Landspítalans ár hvert vegna flugeldaslysa, þar af helmingur á nýársdag og fjórðungur á fyrstu klukkustund hvers nýs árs. Enginn hefur látið lífið vegna flugeldaáverka en að minnsta kosti 13 hafa orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna flugeldaáverka frá árinu 2010.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Hjalta Más Björnssonar, yfirlæknis á bráðamóttöku Landspítalans, og Björns Vilhelms Ólafssonar læknanema í desemberblaði Læknablaðsins þar sem fjallað er um rannsókn þeirra á flugeldaslysum á höfuðborgarsvæðinu frá 2010-2022.
Um er að ræða fyrstu heildstæðu rannsókn á flugeldaslysum hér á landi. Flugeldar voru fyrst sprengdir í Kína fyrir um 2000 árum en elstu heimildir um flugeldanotkun á Íslandi eru frá Kópavogsfundinum árið 1662 þegar einveldisskuldbindingin var undirrituð. Sala flugelda hófst hér á landi um aldamótin 1900.
Karlmenn þrír af hverjum fjórum sem slasast vegna flugelda
„Þrátt fyrir að flugeldar séu almennt taldir fólki til skemmtunar fylgja skuggahliðar notkun þeirra. Hefur slysatíðni verið allmikil, helst brunasár og einnig nokkuð um alvarlega augnáverka,“ segir í rannsókninni og telja höfundar slys vegna flugeldanotkunar umtalsvert vandamál á Íslandi.
248 manns leituðu á bráðamóttöku Landspítala frá desember 2010 til janúar 2022 vegna flugeldaslysa.
Yngsti einstaklingurinn sem leitaði á bráðamóttöku vegna flugeldaáverka var 9 mánaða og sá elsti 79 ára en meðalaldur þeirra sem urðu fyrir áverkum vegna flugeldaslysa var 26 ár. Tæplega þrír af hverjum fjórum sem slasast vegna flugelda, eða 73 prósent, eru karlkyns.
Banna ætti börnum á leikskólaaldri að nota stjörnuljós
Áberandi er að börn voru tæpur helmingur slasaðra. Alls slösuðust 114 börn, eða 46 prósent slasaðra, þar af 12 á leikskólaaldri. Höfundar segja sláandi var hversu mörg börn slösuðust við flugeldanotkun hér á landi en hlutfallið er hærra en í erlendum rannsóknum þar sem hlutfallið var almennt á bilinu -15-42 prósent.
Af þeim 114 börnum sem slösuðust við notkun flugelda voru 42 sögð undir eftirliti fullorðinna þegar slysið varð, eins og lög kveða á um. Börn sem skráð voru án eftirlits voru alls 28 talsins en í 44 tilfellum lágu gögn ekki fyrir. Árlega slasast að meðaltali eitt barn á leikskólaaldri, þar af rúmur helmingur vegna stjörnuljósa.
„Stjörnuljós líta út fyrir að vera saklaus ljósadýrð en þau brenna skært og ná yfir 1000°C hita. Mestur skaði hlýst þó þegar kviknar í klæðum fólks og geta stjörnuljós þá valdið alvarlegum áverkum. Ekki fundust slík tilvik í þessari rannsókn en fræða þarf foreldra betur um hættuna sem stafar af stjörnuljósum og banna leikskólabörnum að nota þau,“ segja höfundar.
Fjórðungur flugeldaslysa á fyrsta klukkutíma nýs árs
Skráning á notkun áfengis og annarra fíkniefna var mjög ófullkomin en 10 einstaklingar voru sagðir undir áhrifum áfengis og einn sagður allsgáður en skráningu vantaði hjá 237 manns. Enginn var sagður undir áhrifum annarra efna.
Ef tímasetning flugeldaslysanna er skoðuð sést að alls urðu 28 prósent slysa utan leyfilegs skottíma flugelda. Slysin dreifðust ekki jafnt á árið, 81 prósent slysanna urðu í janúar og 10 prósent í desember á meðan 9 prósent dreifðust á hina 10 mánuðina. Við nánari skoðun á áramótunum kemur í ljós að 129, eða 52 prósent slysa, urðu 1. janúar og þar af 59, eða 24 prósent, á fyrsta klukkutíma ársins.
Flest slys vegna raketta
Rakettur ollu flestum slysum, eða 23 prósent, og þar á eftir skottertur, 17 prósent. Þriðja algengasta orsökin voru blys, 14 prósent, og þar af tvö neyðarblys sem notuð voru til skemmtunar. Átta slys urðu vegna stjörnuljósa, öll hjá börnum 9 ára og yngri.
Í 39 prósent tilvika voru vísbendingar um að galli í flugeldi hefði átt þátt í eða orsakað slys og í þriðjungi tilvika virðast einstaklingar ekki hafa meðhöndlað flugelda með réttum hætti.
Flestir áverkanna voru minniháttar, brunasár og skurðir. Helstu áverkar sem fundust voru brunar, sár, brot, mar, hljóðhimnurof og aðskotahlutur í auga. Í heildina voru þessir áverkar 382 talsins. Algengustu áverkarnir voru brunasár, en 157 einstaklingar hlutu bruna. Dreifing bruna var ójöfn eftir líkamssvæðum og lang algengast var að brenna á höndunum.
19 gengist undir skurðaðgerð vegna flugeldaslysa
22 voru lagðir inn á Landspítalann vegna flugeldaslysa á tímabilinu og lágu samtals inni í 91 dag, frá einum degi upp í 33 daga hver. 19 gengust undir skurðaðgerð vegna áverkanna. Af þeim 248 sem leituðu á bráðamóttöku vegna flugeldaslysa frá 2010-2022 hafa að minnsta kosti 13 hlotið varanlegt heilsutjón vegna flugeldaáverka, eða um einn einstaklingur á hverju ári að meðaltali. Ekki er tilgreint nánar um hvers eðlis heilsutjónið er, annað en að það sé varanlegt.
Að mati Hjalta og Björns þarf að efla forvarnarstarf gegn flugeldaslysum, einkum með áherslu á rétta meðhöndlun þeirra og notkun öryggisgleraugna. „Sérstaklega þarf að huga að forvörnum barna og ættu börn á leikskólaaldri ekki að nota stjörnuljós né aðra flugelda,“ ítreka þeir í rannsókninni.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til að setja skorður, eða að minnsta kosti íhuga það, á flugeldanotkun að mati höfunda.
„Þó flugeldar séu fallegir fylgir þeim mikil slysatíðni og álag á bráðamóttökuna og því er vert að íhuga að setja frekari skorður við innflutningi, sölu og notkun þeirra,“ segir í samantekt rannsóknarinnar.