Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.

Á milli uppgangs og leiðréttingar

arni-helgason.jpg
Auglýsing

Er tilveran hér á landi röð tímabila sem einkennast af uppgangi og bjartsýni milli þess sem allt fer á hliðina og einhver hugumprúður stjórnmála­foringi er kosinn til að leiðrétta ruglið? Hvar í ferlinu erum við þá stödd núna?

Það er erfitt að segja en mig grunar að eftir efnahagslega deyfð síðustu ára, sem má kalla „eftirhrunsárin“, sé ballið að byrja aftur. Og eins og svo oft áður virðast stjórnvöld ætla að draga vagninn, bæði á vettvangi ríkisstjórnar og sveitarstjórna, í stað þess að ýta á móti. Þörf stjórnmálamanna til að mæta skammtímahagsmunum kjósenda trompar sem fyrr langtímahagsmuni samfélagsins af því að gera það ekki.

Framsóknarhringurinn að lokast


Einhverjir tugir þúsunda Íslendinga eru þessa dagana að loka Framsóknarhringnum, sem hófst árið 2003 þegar 90% lán urðu normið á íbúðalánamarkaði, með því að senda inn umsókn á leidretting.is. Þegar hrunið skall á var stór hluti þjóðarinnar búinn að leggja undir og kaupa fasteign nánast eingöngu fyrir lánsfé til þess eins að fá svo í andlitið verðbólgu- og gengisskot, launalækkun og nánast algera kulnun á markaði. Allt fram á árið 2010 hreyfðist varla fasteignamarkaðurinn, nema helst á nauðungarsölum, og vísitalan skrúfaði lánin upp hjá venjulegu fólki á meðan. Það fór aðeins að rofa til árið 2011 og síðan hefur leiðin legið upp á við, þar sem fasteignaverð hefur víðast hvar hækkað hraðar en verðlag og dimmasta tímabilið er að baki.

almennt_22_05_2014

Auglýsing

Og einmitt núna, þegar flestir hagvísar eru jákvæðir og þróunin í rétta átt – að vísu með þeim stóra fyrirvara að hagkerfið er í höftum – þá dettur leiðréttingin inn. Tuttugu þúsund manns sóttu um á fyrsta sólarhringnum, sem bendir til þess að ókeypis peningar séu ekkert að detta úr tísku. Sigmundur Davíð mætti og gaf starfsfólki Ríkisskattstjóra blómvendi, þótt það hefði auðvitað verið miklu meira spot on að mæta með pizzur í anda einfaldleikans.

Leiðrétting fuðrar upp


Lán fjölda fólks eiga eftir að lækka um nokkrar milljónir á næstu misserum, sennilega og því miður til þess eins að fuðra upp í verðbólgu fljótt aftur. Leiðréttingin þýðir að fólk á tíma­bundið meira í eignunum sínum og hefur þar af leiðandi meira veðrými og getur hvort sem er selt eða skuldsett sig aftur. Ungt fólk mun í stórum stíl nýta sér þetta til þess að stækka við sig húsnæði og þeir sem eldri eru geta nýtt þetta í hvað sem er – tekið framkvæmdalán og hresst upp á garðinn eða eldhúsið, eða bara bæði. Hvernig sem menn snúa þessu dæmi var ríkið að gefa tilteknum hópi fólks peninga. Íslendingar eru ekki að fara að breytast í sparsama Þjóðverja og leggja til hliðar. Þvert á móti sjá margir fyrir sér að þeir eigi „skilið“ eftir nokkur mögur ár að gera eitthvað gott fyrir sig.

Borgin byggir


En það er ekki bara ríkisstjórnin sem hleður eldsmat á bálið.

Milli þess sem þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýna „leiðréttingu“ ríkisstjórnarinnar tala frambjóðendur flokksins í borginni um að byggja 2.500-3.000 nýjar leigu- og búsetu­íbúðir. Bara svo að umfangið á þessu sakleysislega loforði sé sett í samhengi má nefna að heildarfjöldi íbúða í fjölbýli í Reykjavík er um 35 þúsund þannig að þetta slagar hátt í 10%. Samfylkingin ætlar því á vettvangi borgarinnar að byggja íbúðir á markaði þar sem fasteignaverð er hátt og fer hækkandi og byggingarkostnaður er verulegur. Það kostar jafnmikið að byggja hvort sem það er borgin eða einkaaðili sem borgar brúsann, en til stendur að bjóða upp á „sanngjarna“ leigu á þessum íbúðum, sem þýðir að íbúðirnar verða væntanlega leigðar á eitthvað minna en gengur og gerist á markaðnum. Með öðrum orðum á að niðurgreiða þúsundir íbúða.

Risaveðmál hins opinbera


Ef við hugsum þetta aðeins áfram þá kostar 2-3 herbergja íbúð í Reykjavík ekki undir 300 þúsund krónum á fermetrann og verðið er um 400 þúsund miðsvæðis. Kostnaðurinn við að byggja íbúð og fullgera hana er einhvers staðar þarna á milli, nær efri mörkunum. Ef dæmið á að borga sig þarf að leigja svona íbúð út fyrir 160-180 þús. á mánuði bara til að dekka fjármagnskostnað og rekstur. Ef svona íbúð er leigð út fyrir t.d. 100 þúsund á mánuði er verið að borga verulega með henni. Ef það eru 2.500-3.000 íbúðir er það orðin ansi hressileg opinber niðurgreiðsla á mánuði.

Fyrir utan svo kostnaðinn við að byggja allan þennan fjölda eigna. Ef við miðum við 25 milljónir króna á íbúð sem byggingarkostnað eru 3.000 íbúðir að kosta litla 75 milljarða króna. Ágætis opinbert veðmál á fasteignamarkaðinn það.

Rólegheitakjörtímabil


Mér heyrist þessar tillögur reyndar ekki fá mikla athygli og sama má segja um með sveitarstjórnarkosningarnar heilt yfir. Þetta kjörtímabil í sveitarstjórnum landsins hefur verið frekar rólegt og farið í að rækta garðinn og hugsa inn á við – massa niður skuldir, forðast stór útgjöld og þar með stórar ákvarðanir. Víða hefur verið unnið eftir lögmálunum um að engar fréttir séu góðar fréttir. Og þetta er auðvitað ágætt ef þú ert sveitarstjórnarmaður, enda má nýta vinnufriðinn til að heimsækja elliheimili, knúsa leikskólabörn og tína rusl. Þetta hefur bara mælst ágætlega fyrir og almennt eru framámenn í sveitarfélögum ekki að skrá sig á vinnumiðlanir þessa dagana.

Og hvað sem öllu Jóns Gnarr- og Besta flokksævintýrinu líður í Reykjavík hefur þessi rólegheitagangur einkennt borgina líka. Það er erfitt að finna dæmi um breytingar eða ákvarðanir sem þessi meirihluti tók og standa einhvern veginn upp úr, annað en að Reykvíkingar fíluðu það bara vel að hafa grínista og listamann sem borgarstjóra. Skuldir Orkuveitunnar voru vissulega endurskipulagðar og það var vel. Nokkrar götur hafa verið endurhannaðar í borginni og litu ótrúlega spennandi út í tölvuforritinu sem býr til afstöðumyndir af brosandi fólki í sól að spjalla saman og drekka kaffi (af hverju sýna svona tölvumyndir aldrei rigningu og slyddu og fólk að bölva?). Fólkið á Hofsvallagötunni var allavega ekki jafnánægt og tölvuforritið hafði spáð fyrir um.

Aðalskipulag var samþykkt en þrátt fyrir allt talið um þéttingu byggðar og hugmyndirnar um að byggja upp fyrirheitna landið í Vatnsmýrinni virtust oddvitar borgarstjórnar taka því fegins hendi þegar þeim bauðst að slá því á frest í lítil sex ár að færa flugvöllinn á meðan málið yrði skoðað í nefnd. Kannski var það skynsamlegt í samhengi hlutanna en það er samt ansi langur tími verandi með samþykkt aðalskipulag. Og á meðan flugvöllurinn er á sínum stað er þétting byggðar alltaf takmörkunum háð.

Kyrrstöðunni lokið og ballið að byrja


En hvað sem allri kyrrstöðunni á þessu kjörtímabili líður gæti það næsta orðið fjörugra. Leiðréttingarnar detta inn á næstunni og borgin verður stórtæk á byggingar- og fasteigna­markaði. Hagkerfið er í höftum þannig að þessir 120-130 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir þurfa að koma í umferð árlega leita áfram í fasteignir og hlutabréf með áframhaldandi verðhækkunum á þeim.

Einhverjir kynnu að hafa áhyggjur af því að þessar hækkanir væru orðnar óeðlilega miklar og að lögmálið um allar bólur springi á endanum eigi við hér. En hér er engin ástæða til að hafa slíkar áhyggjur enda verður ávallt til nóg af stjórnmálamönnum sem eru boðnir og búnir að leiðrétta ástandið þegar illa fer.

Pistillinn birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiPistlar
None