Gnóttstaða í bandaríkjadollara; skortstaða í þýsku marki, frönskum franka og ítalskri líru.
Þannig hljóðaði fyrsta fjárfesting fyrsta vogunarsjóðs veraldarsögunnar, sem hóf starfsemi í Bretlandi hinn 1. janúar árið 1920, en fjárfestingin merkti að sjóðurinn græddi ýmist þegar bandaríkjadollarinn styrktist eða síðarnefndu myntirnar veiktust gagnvart breska pundinu.
Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi verið stofnaður fyrir hartnær öld síðan er, þegar nánar er að gáð, ótrúlegt hve svipaður hann var mörgum vogunarsjóðum nútímans. Sjóðurinn var ekki opinn almenningi, heldur voru fjárfestarnir fáir og sterkefnaðir og treystu vogunarsjóðsstjóranum vel. Hann nýtti sér lánsfé (þ.e. vogun – sem sjóðirnir sækja nafn sitt til á íslensku) til þess að fjárfesta fyrir stærri upphæðir og ná fram meiri ávöxtun en ella, og vílaði ekki fyrir sér að veðja á verðlækkun á fjármálamörkuðum frekar en verðhækkun.
Merkilegri var fjárfestingarstefnan sem slík, en með því að fjárfesta í þjóðargjaldmiðlum ríkja sitthvoru megin Atlantshafsins ætlaði sjóðsstjórinn sér að gera nokkuð sem enginn hafði áður reynt; að græða kerfisbundið á gengisbreytingum gjaldmiðla einum saman. Það þarf reyndar engan að undra að hugmyndin hafi þótt nýstárleg, enda hefðu álíka fjárfestingar verið óhugsandi áratug fyrr, þegar svo til allir gjaldmiðlar heims voru á gullfæti. Það þurfti heimsstyrjöldina fyrri til þess að riðla gullfótarskipulaginu og geta af sér flotgengi svo að fjárfestingar á borð við þessar yrðu mögulegar.
Sjóðsstjórinn Keynes!
Merkilegast af öllu var þó hver sjóðsstjórinn sjálfur var; enginn annar en John Maynard Keynes, einn þekktasti hagfræðingur sögunnar, sem dvaldi í rúminu til hádegis á hverjum morgni, las fjármálatíðindi og hringdist á við miðlara á meðan hann drakk morgunteið sitt.
Það er ef til vill svolítið erfitt að ímynda sér Keynes, hæglátan fræðimann sem stundum er útmálaður merkisberi vinstrimennsku og ríkisafskipta, í hlutverki vogunarsjóðsstjóra, sem á móti eru oft útmálaðir botnsugur óheflaðs kapitalisma. Kannski er það til marks um að hvorugur merkimiðinn eigi fyllilega rétt á sér. Í öllu falli eru ævisagnaritarar Keynes á einu máli um að rekstur vogunarsjóðsins hafi haft góð áhrif á hann frekar en hitt; spákaupmennskan gerði hann að betri hagfræðingi, og hagfræðin gerði hann að betri spákaupmanni eins og Nicholas Davenport komst að orði.
En hvað var það sem Keynes lærði af því að stýra vogunarsjóði? Hvað gera annars vogunarsjóðsstjórar og hvernig nálgast þeir hlutverk sitt? Það er spurning sem var löngum erfitt að svara nema þekkja hreinlega einn slíkan, enda halda þeir spilunum yfirleitt þétt að sér og láta lítið fyrir sér fara.
Þess vegna var viðtalsbókin Inside the House of Money eftir Íslandsvininn Steven Drobny fengur fyrir áhugamenn um starfsemi vogunarsjóða þegar hún kom út árið 2006, en þar birtust samræður höfundarins við 13 heimsþekkta og farsæla sjóðsstjóra þar sem þeir opnuðu sig upp á gátt um fjárfestingar sínar. Titill bókarinnar er því réttnefni, enda býður hún lesandanum í heimsókn inn í hús sem fæstir fá að dveljast í um ævina.
Ólík sýn
Við lestur bókarinnar kemur reyndar á óvart hve ósamstíga sjóðsstjórarnir eru um flesta yfirborðsfleti fjárfestinga. Einum fannst best að fjárfesta í hlutabréfum, öðrum í hrávöru og þeim þriðja í gjaldmiðlum. Einn fjárfesti nánast eingöngu í flóknum afleiðusamningum á borð við valrétti, á meðan annar stóð á því fastar en fótunum að valréttir væru fyrir aumingja. Einn tók aldrei ákvörðun um fjárfestingu nema heimsækja fyrst „fjárfestingarkostinn“, hvort sem hann var land eða fyrirtæki, á meðan annar vildi meina að slíkar heimsóknir væru bara til að rugla mann – það væru beinhörð gögn sem skiptu mestu máli.
Þegar bókinni vindur fram birtast hins vegar hægt og bítandi endurtekin tilbrigði við sama stef; ákveðin prinsipp sem nánast allir sjóðsstjórarnir þakka velgengni sína, þrátt fyrir að vera ósammála um framkvæmd fjárfestinga að öðru leyti. Og þegar betur er að gáð hafa þessi prinsipp þeirra í raun minnst með fjárfestingar að gera, og meira með heilbrigða skynsemi og lífssýn. Þessi prinsipp eru fólgin í því að...
...læra af mistökum sínum. Allir sjóðsstjórarnir, hver einn og einasti, eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tímann tapað stórt. Enginn þeirra ræddi hins vegar um þessar misheppnuðu fjárfestingar eins og þeir skömmuðust sín fyrir þær eða sæu eftir þeim; mistökin eru dýrmætasta eign þeirra, þau skilgreina velgengni þeirra betur en fjárfestingarnar sem heppnuðust. Ástæðan er sú að allir hafa þeir dregið af þeim lærdóm, sem þeir telja ómögulegt að öðlast til fulls án þess að brenna sig fyrst. Aðalatriðið er ekki að mistakast aldrei, heldur að gera ekki sömu mistökin tvisvar.
...taka upplýstar ákvarðanir. Sjóðsstjórarnir eru flestir víðsýnir og leita hugmynda að fjárfestingum víða. Sumir þeirra eyða miklum tíma í lestur, aðrir í ferðalög, og allir hlusta þeir með opnum hug á sjónarmið annarra. Þrátt fyrir það láta þeir ekki nægja að treysta orðrómum og skvaldri, heldur kanna öll gögn sem þeir koma höndum yfir til hlítar og fylgja öguðu ákvarðanatökuferli áður en þeir ráðast í meiriháttar fjárfestingar, þótt rannsóknaraðferðirnar kunni að vera jafnmisjafnar og þær eru margar.
...skipta um skoðun. Það hljómar kannski þversagnakennt, en sjóðsstjórarnir virðast flestir auðmjúkir gagnvart takmörkum þekkingar sinnar og getu, þrátt fyrir að hafa verulegt sjálfstraust. Þess vegna birtist sjálfstraustið ekki með þeim hætti að þeir séu alltaf sannfærðir um að hafa rétt fyrir sér, þrátt fyrir hið stífa ákvarðanatökuferli og rannsóknarvinnu, heldur þvert á móti í því að þeir óttast ekki að viðurkenna þegar þeir hafa rangt fyrir sér og skipta hratt um skoðun þegar nýjar upplýsingar birtast þeim. Þannig eru þeir fljótir að kúpla sig út úr misheppnuðum fjárfestingum og innleysa tap fljótt, í stað þess að halda fast við sinn keip og horfa á tapið vaxa. Þekkt tilvitnun í Keynes fjallar um einmitt þetta, en einhverju sinni bar andstæðingur upp á hann að skoðanir hans á hagstjórn sveifluðust eins og lauf í vindi. Keynes svaraði um hæl: „Þegar staðreyndir málsins breytast, þá endurskoða ég afstöðu mína. Hvað gerir þú, herra minn?“
...búa sig undir það versta. Ef til vill kemur á óvart hversu meðvitaðir sjóðsstjórarnir eru um áhættu miðað við þá mynd sem stundum er dregin upp af vogunarsjóðum. Þeir reiða sig ekki einu sinni á hefðbundin áhættumatslíkön, því þeir telja að þau vanmeti áhættu. Í stað þeirra spyrja þeir sig stöðugt að því hvað geti farið úrskeiðis og gera ráð fyrir að allt fari á versta veg – allt – og skipuleggja í þaula hvernig þeir gætu dregið úr högginu ef veruleg lækkun á mörkuðum skyldi raungerast. Með öðrum orðum eru þeir alltaf með plan B og C, eins og Reynir Grétarsson, forstjóri CreditInfo, lagði nýlega áherslu á í viðtali við Kjarnann. Þeir eru jafnframt nægilega agaðir til þess að fylgja varaplaninu eftir ef á þarf að halda, í stað þess að vona að allt lagist af sjálfu sér – að hlutirnir reddist.
...elska það sem þeir gera. Sjóðsstjórarnir hafa allir mismunandi hugmyndir um það hvað einkenni góðan fjárfesti – allt frá því að hann þurfi að vera flinkur í stærðfræði til þess að kunna góð skil á sagnfræði, að vera auðmjúkur, áhættumeðvitaður, að skilja sálfræði og ákvarðanatöku. Eitt sammælast þeir þó allir um; að fjárfestir sem hefur ekki áhuga á neinu öðru en peningum sé fljótur að brenna upp. Mikilvægastur er áhugi, fróðleiksfýsn og ástríða fyrir viðfangsefninu – annað skiptir minna máli.
Þótt sjóðsstjórarnir hafi sett þessi prinsipp sín í samhengi við fjárfestingar ætti að vera ljóst að þau eiga ekki einungis erindi við fjárfesta eða hagfræðinga, heldur hafa þau miklu víðari skírskotun, enda eiga þau sér samsvörun í starfsháttum fólks sem nýtur velgengni á ólíkum sviðum um víða veröld. Það þarf enginn að ganga í aðdáendaklúbb vogunarsjóða eftir lestur pistilsins en vonandi geta þó fleiri en bara Keynes grætt á því að tileinka sér það besta úr hugsunarhætti þeirra – í það minnsta endrum og eins.
Pistillinn birtist í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.