Jákvæðasta frétt ársins í íslensku efnahagslífi fór ekki hátt þegar hún birtist núna á dögunum. Hún var um „kúgaða millistéttaraulann“ eins og hann kallaði sig, manninn sem lýsti erfiðri skuldastöðu sinni á einlægan og opinskáan hátt í blaðagrein fyrir nokkrum árum. Hann er risinn upp úr ösku- og skuldastónni og búinn að auglýsa húsið sitt til sölu á Smartlandinu fyrir 85 milljónir. Spurning hvort kaupandinn gæti jafnvel tekið við keflinu af honum, keypt eignina á lánum og svo í næstu kreppu skrifað grein um að fólk í hans sporum sé skilið eftir bjargarlaust.
Vatnaskil?
En mér finnst þetta gott mál, án þess að ég viti neitt um hvaða ástæður búa að baki eða hvernig staðan er að öðru leyti hjá honum. En væri það ekki til að setja ákveðinn punkt við kreppuna ef maðurinn sem súmmeraði upp skuldavanda millistéttarinnar, og fékk alla þjóðina til að halda með sér, næði að gera upp sínar skuldir og eiga kannski smá afgang?
Það áhugaverðasta er að þessi færsla úr skuldafangelsi eftirhrunsáranna og yfir í birtuna sem stafar af útbólgnu fasteignaverði haftabólunnar er að gerast hjá nokkuð stórum hópi. Margir þeirra sem voru hvað verst settir eftir hrun hafa horft upp á fasteignirnar sínar hækka hratt í verði síðan, sérstaklega ef þær eru miðsvæðis í Reykjavík. Þetta er engu úrræði banka eða stjórnvalda að þakka heldur er þetta einfaldlega þróunin sem hefur átt sér stað á fasteignamarkaðnum.
Breytt viðhorf
En það voru ekki síst lýsingar manna eins og „millistéttaraulans“ sem mynduðu á sínum tíma jarðveginn fyrir framsókn Leiðréttingarinnar með stóru L-i og allra 150 milljarðanna sem er verið að henda á bálið núna á næstu árum. Leiðréttingin kemur til framkvæmda á sama tíma og hækkun fasteignaverðs er að laga til eigið fé margra í fasteignum sínum. En það skiptir ekki máli, það virðist vera orðið of seint að breyta um kúrs og til marks um pólitískt veiklyndi, enda varð til ákveðið móment á sínum tíma og við ákváðum einhvern veginn öll að fara all-in í stemninguna og finnast eðlilegt og sjálfsagt að hjálpa þeim sem urðu illa úti í hruninu.
Ölvaður í augnablikinu
Ég veit ekki af hverju en þróun mála hjá „kúgaða millistéttaraulanum“ minnti mig á stöðu mála hjá Reyni Traustasyni og DV. Kannski ekki augljós tenging og eiginlega með öfugum formerkjum því það hefur nú frekar verið að halla undan fæti hjá Reyni upp á síðkastið. En það er þetta með að fara all-in í stemninguna og verða ölvaður í augnablikinu eins og fólk gerði í skuldamálunum. Reynir Traustason hefur svolítið verið að gera þetta með DV á undanförnum árum. Þó það viðurkenni það kannski ekki allir opinberlega þá vildi fólk, í reiðinni eftir hrunið, lesa fréttir af alls konar skrautlegum viðskiptafléttum úr viðskiptalífinu og sjá höfuðpaurana engjast á forsíðunni dögum saman. DV hefur tekið þetta hlutverk að sér í nafni þess að tryggja gegnsæi í viðskiptalífinu og vera sá fjölmiðill sem þorir að segja frá.
Þess vegna var eitthvað svo mannlegt við það að þegar ritstjórinn var sjálfur kominn með bakið upp við vegginn þá reyndi hann að bjarga sér fyrir horn – rétt eins og mennirnir sem DV skrifaði fréttir um. Það var tekinn smá snúningur á eignarhaldið á DV með lánveitingu og hlutafjárkaupum, eitthvað sem hefði vel getað birst á forsíðu DV ef aðrir ættu í hlut.
Eilíf aðlögun
Á endanum aðlagar fólk sig að aðstæðum og metur sína stöðu – einn daginn ertu riddari gegnsæis eða þjakaður skuldaþræll en þann næsta ertu að slá lán hjá útgerðarmanni til að reyna að bjarga málunum eða selja húsið þitt á algerlega yfirverðlögðum fasteignamarkaði. Kúrsinn breytist og það er bara gangur lífsins. En það sem er svo áhugavert er hvað við erum fljót til að drekka í okkur stemninguna nákvæmlega eins og hún er hverju sinni, nánast eins og það verði enginn morgundagur.
Það er stundum eins og við fúnkerum ekki almennilega nema hafa eitthvað til að hneykslast á, eitthvað sem er alveg að æra okkur í nokkra daga eða vikur og verður hreinlega að breytast, lagast eða hverfa til að lífið nái jafnvægi á ný í örstutta stund. Svo byrjar ballið aftur og ferlið endurtekur sig. En þegar frá líður og þessir ærandi atburðir eru rifjaðir upp er svolítið erfitt að átta sig á því hvað olli öllum látunum.
Íslenska þjóðin hefur tekið þónokkra snúninga á þessari hringekju. Við tókum uppganginn fyrir hrun svo langt að uber-mótiveraðir bankamenn og aðjúnktar við HR voru farnir að finna upp nýja frasa til að skýra íslenska yfirburðarhugarfarið og menn hentu bara fram vídeói um Kaupthinking eins og til að segja kjánahrolli í heiminum stríð á hendur. Umhverfisvernd og kolefnisjöfnun var helsta áhugamál nýríka fólksins á Íslandi, svona á milli þess sem fólk var að gera upp við sig hvort 50 Cent eða Elton myndi taka lagið í næsta stórafmæli hjá sér eða hvort það væri kannski bara skemmtilegt twist að láta þá taka dúett. Eftir bjartsýniskastið urðum við hins vegar svo pólitískt reið eftir hrunið að það hefur ekki mátt koma upp ágreiningur án þess að nýr stjórnmálaflokkur sé stofnaður í kjölfarið og hafi svo klofnað eftir hádegi. Flestir hafa sett umhverfisverndaráhugann á hilluna og afmæli eru bara í mesta lagi haldin uppi í bústað.
Jafnvægið
Hugsanlega þarf að finna eitthvað jafnvægi í þetta. Utanaðkomandi sérfræðingar myndu líklega segja að við þyrftum að temja okkur meira langlundargeð og yfirvegun, hætta að vera alveg brjáluð og krefjast breytinga á einhverju sem breytist fljótlega hvort eð er.
Spurning samt hversu skemmtileg svoleiðis þjóð er, þar sem aldrei er upphlaup og aldrei læti, enginn æstur og enginn með óraunhæfar kröfur, aldrei neinn sem stígur fram og krefst þess að þjóðfélagið breytist og komi til móts við sig helst fyrir hádegi. Sennilega myndi landflóttinn fyrst hefjast af alvöru þá.