Páskarnir eru kærkomið frí eftir langan vetur, fyrsta ferðahelgi ársins, tækifæri fyrir fjölskylduna til þess að fara saman í bústaðinn, hvíla sig þar og treysta böndin. Þeir eru í augum nútímamannsins miklu hedónískari skemmtun og slökun en hinir grafalvarlegu páskar fyrri tíðar.
Hugsið ykkur páska án internets, án útvarps nema Rásar eitt og án sjónvarps nema RÚV. Bætið því svo í blönduna að allar skemmtanir eru bannaðar og skemmtistaðir lokaðir, öll kvikmyndahús og verslanir eru lokuð, veitingastaðir sömuleiðis og mannfagnaðir engir í boði aðrir en messur og hugsanlega langdregnir hátíðatónleikar. Á dagskrá útvarps og sjónvarps eru alvöruþrungnar úttektir og umfjallanir um dauða og pínu Jesú Krists milli þess sem heil tónverk sem hæfa tilefninu eru flutt í fullri lengd.
Þetta voru seigdrepandi, langdregnir og umfram allt ofboðslega leiðinlegir páskar og aðferðin við að fagna þeim hefur áreiðanlega gert fleiri fráhverfa trúarbrögðum en öll biskupsmál seinni tíma samanlagt.
Páskarnir í dag eru hátíð páskaeggsins, dýrðaróður til stjórnlauss súkkulaðiáts, og eggið er eins konar miðpunktur eða háaltari í þeirri dýrkun.
Við höfum löngu gleymt því hvað gerðist á skírdag og hvers vegna föstudagurinn er svona óbærilega langur en í hugum okkar allra er páskaeggið skýrasta táknmynd þessarar hátíðar. Páskaeggið er orðið að eins konar hlutgervingi fyrir hátíðina og hinir svokölluðu málshættir sem það inniheldur nálgast óðum stöðu véfréttar eða spádóms. Opnun páskaeggsins og lestur málsháttarins verður hápunktur hátíðar sem við vitum ekki lengur hvers vegna er hátíð.
Þetta er örstutt brot úr umfjöllun Páls Ásgeirs. Lestu hana í heild sinni í Kjarnanum hér.