Kvikmyndin Vonarstræti í leikstjórn Baldvin Z. hefur rækilega slegið í gegn hér á landi. Gagnrýnendur hafa keppst við að ausa myndina lofi frá því að hún var frumsýnd á dögunum og bíóþyrstir hafa flykkst í þúsundatali í kvikmyndahús til að berja myndina augum. Heiðurinn að handritinu eiga þeir Baldvin Z. og Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus.
Baldvin á að baki farsælan feril sem leikstjóri og handritshöfundur, en handritið að Vonarstræti er fyrsta kvikmyndahandritið sem Birgir Örn skrifar.
Dreymdi um svona viðtökur sem krakki
Eins og áður segir hafa viðbrögð gagnrýnenda við Vonarstræti verið ævintýri líkust. Á forsýningu myndarinnar ætluðu til að mynda fagnaðarlátunum aldrei að linna, þegar myndinni lauk.
"Þetta er ógeðslega góð æfing í æðruleysi. Auðvitað er maður geðveikt glaður og þakklátur, þó það sé klisja að segja það, en þetta opnar svo margar dyr fyrir manni. Þetta er fyrsta handritið sem ég kem að og nú gæti svo farið að ég geti lifað af því sem ég elska að gera. Maður dreymir um svona viðbrögð þegar maður er krakki. Þegar ég var ungur var ég rosalega duglegur að semja lag eða plötu, sannfærður um að hún væri svo ógeðslega fokking góð, að ég var eiginlega búinn að taka við Íslensku tónlistarverðlaununum í huganum, áður en platan kom út. Maður var kannski svolítið hrokafullur, en ég hætti því fyrir nokkrum árum. Þegar þessi hugsun skaut aftur upp kollinum í hausnum á mér við gerð myndarinnar, ýtti ég henni jafnóðum út, því ég vissi hvað hún getur verið skemmandi. Þú verður fyrst og fremst að einbeita þér að því að sinna listaverkinu, en ekki rúnka þínu eigin egói."
Þetta er örstutt brot úr ítarlega og einlægu viðtali Kjarnans við Bigga í Maus um velgengni Vonarstrætis, fortíðina og framtíðina. Lestu það allt í nýjustu útgáfu Kjarnans hér.