Þetta var í upphafi alls, þegar lífið var að byrja. Ég rölti niður Laugaveginn ásamt skrifsystur minni, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, og við vorum ungskáld með hausinn fullan af óskrifuðum bókum. Skammt frá bókabúð Máls og menningar sáum við þáverandi forleggjara okkar: Snæbjörn Arngrímsson hjá Bjarti og Halldór Guðmundsson hjá Mál og menningu. Þeir virtust voðalega fullorðins að rabba um sín forleggjaramál þegar við potuðum í þá með hugmynd sem við héldum virkilega að enginn hefði fengið áður og spurðum hvort við gætum blásið til vorútgáfu. Okkur langaði að róta upp í þunglamalegum hefðum jólabókaflóðsins með því að gefa út bók í byrjun sumars.
Já, endilega, gerið það, stelpur! Eitthvað svoleiðis sögðu þeir og flýttu sér svo að stinga aftur saman nefjum en við náttúrlega tókum þessu eins og heilagri herkvaðningu og flýttum okkur heim til að skrifa vorbók.
Mín vorbók fæddist andvana, nokkrar ruglingslegar smásögur sem ég hætti ekki á að sýna nokkrum manni. En Guðrún Eva var staðfastari en ég og skrifaði snilldarbókina Albúm sem Bjartur gaf út, að mig minnir að vori, í bókaflokknum Neon.
Hið árlega gjaldþrot
Þessi upprifjun er í sjálfu sér ekki merkileg en hún minnir mig á hvernig íslensk bókaútgáfa hefur verið drifin áfram af hugsjón í bland við hugsunarleysi. Oftar en einu sinni hef ég unnið sjö daga vikunnar í meira en ár að bók til að komast að því stuttu fyrir prentun að það sé nýbúið að redda viðkomandi forlagi – sem hafi vegið salt á bjargbrún gjaldþrots allt árið á undan og því engu munað að ársvinna hefði strandað á harða diskinum. Rithöfundarnir máttu bara ekki komast að því, þeir yrðu að halda sig við skilafrestinn – ef þetta skyldi nú reddast.
Bókaútgáfa á Íslandi er slík ævintýramennska að hún hefur verið knúin áfram af adrenalínfíklum með rassvasabókhald. Hún er hálfgerð sjómennska. Tarnavinna og endalaus áhætta. Stundum eru átök á milli rithöfunda og forleggjara, svipað og útgerðarmanna og sjómanna, en samstaða þegar á þarf að halda. Sem er oft. Því ef það hefði ekki verið samstaða og þögult samkomulag um að láta ævintýrin gerast upp á von og óvon, þá væri íslensk menning ólíkt fátækari.
Sögur af okkur sjálfum
Staðreyndin er sú að rithöfundar á Íslandi eru ekki bara mikilvægir út af öflugri útgáfu í öðrum löndum, atvinnusköpun í heimalandinu og öðrum veraldlegum þáttum sem ríkisstjórnin virðist loka augunum fyrir.
Íslenskir rithöfundar reyna á þanþol íslenskunnar á hverjum einasta degi; vinda upp á málið, skoða það, pota í það og gæða það nýju orðum. Þetta tungumál sem gæti orðið útdautt eftir hundrað ár.
En þeir gera líka fleira. Þeir vinna með veruleikann og alla hans hliðarveruleika. Fanga hið óræða jafnt sem fjarlægar en mikilvægar hugmyndir. Uppgötva nýjar stefnur og strauma. Lesa í nútímamenninguna, fortíðina og stundum meira að segja framtíðina. Búa til tónlist úr orðum, vinna með minni þjóðar og biðla til fólks að elska sögurnar af því sjálfu. Skrifa bækur handa börnum sem spretta upp úr veruleika þeirra og þau geta speglað sig í. Og samt er líka nóg að segja: Þeir skrifa eins og fuglarnir syngja.
Þannig gæða rithöfundar veruleikann kannski fleiri litum en maður áttar sig á í fljótu bragði. Litum sem vætla inn í þjóðarsálina með lestri bóka og já, vikulegum heimsóknum á bókasafnið. Landinn les hafsjó af íslenskum bókum í gegnum bókasöfnin þó að stjórnvöld hafi gefið skít í þá staðreynd með því að lækka bókasafnssjóð höfunda um helming.
Bókaheimurinn í öllum sínum myndum
Ég vildi óska þess að núverandi ráðamenn myndu þekkja bókaheiminn á Íslandi á sama hátt og ég þekki hann. Að þeir hefðu unnið með mér hér í denn á stóra bókamarkaðnum og kynnst veðurbörðum bókaútgefendum héðan og þaðan sem minna á trillukarla og eiga það sameiginlegt með þeim að vera týndir í ástríðu lífs síns. Hættulegri en stórkostlegri ástríðu.
Ég vildi óska að þeir þekktu starfsfólkið í bókabúðunum sem margt hvert veit allt um bækurnar sem það er að selja en líka missérvitra fastakúnnana og hvað þessi gagnrýnandi hafi nú sagt við hinn gagnrýnandann eftir síðustu bókakynningu.
Ég vildi óska að þeir þekktu alla ástríðufullu þýðendurna, sem minna á viðkvæma hljóðfæraleikara í eilífri vinnu sinni með hljóminn í hverri setningu, en fá ekki allir næga æfingu því það verður sífellt strembnara fyrir bókaútgefendur að gefa út þýðingar.
Ég vildi óska að þeir þekktu fólkið í prentsmiðjunum sem sér það sem aðrir sjá ekki af því það skilur bók á allt annan hátt en allir aðrir.
Ég vildi óska að þeir kæmu á jólafagnað rithöfundasambandsins þar sem ungir menn dást að verkum aldraðra kvenna og gagnkvæmt því þar eiga allir og allar hugmyndir heima.
Ég vildi að þeir spjölluðu við útgefendur sem hafa oftar en einu sinni misst allt sitt bara til að geta gefið út næstu bók.
Ég vildi óska að þeir þekktu allt óeigingjarna fólkið á forlögunum sem vinnur alla daga ársins að því að búa til bækur og er, í sannleika sagt, einstök veröld sem lýtur sínum eigin lögmálum.
Og ég vona að þeir lesi allskonar bækur eftir íslenska samtímahöfunda því ef þeir gera það er séns að þeir græði meira en á nokkrum hlutabréfakaupum.
Ég vona að menntamálaráðherra og aðrir ráðherrar skilji hversu mikið er í húfi og hversu lítið þarf til að eyðileggja bókaheiminn í núverandi mynd. Aðeins nokkrar prósentur.
Til hvers? Eða, er kannski nær að spyrja: Af hverju?
Höfundur er rithöfundur.