Þrátt fyrir að Samfylkingunni hafi gengið mjög vel í Reykjavík í síðustu kosningum þá verður ekki það sama sagt um árangur hennar á landsvísu. Og í síðustu þingkosningum beið flokkurinn afhroð. Að mati margra, bæði innan og utan flokksins er hann að upplifa leiðtoga- og jafnvel hugmyndafræðilega krísu. Það er því stíft horft til Dags B. Eggertssonar með það fyrir augum að hann gefi færi á sér sem næsti leiðtogi Samfylkingarinnar. Er hann farinn að hugleiða að taka það skref?
„Nei. Ég er mjög ánægður með árangur flokksins hér í Reykjavík og hann hefði gjarnan mátt vera meiri annarstaðar á landinu. Ég held að jafnaðarstefnan eigi mjög mikið erindi og það er klárt verk að vinna innan flokksins. Það er þörf á uppbyggingarstarfi. Ég er alveg sammála því. En ég held að nýverandi forysta og þingflokkur Samfylkingarinnar eigi að ráðast í það. Og ég skal glaður styðja þau í því en ég er augljóslega ekki á leiðinni í landsmálin. Ég er nýorðinn borgarstjóri og hef mín verk að vinna hér.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/20[/embed]
Aðspurður hvort það komi til greina að færa sig yfir í landsmálin einhver tímann segist Dagur ekki sjá það fyrir sér í fyrirsjáanlegri framtíð. „Það hefur svo sem oft komið upp á árum áður. En þegar ég hef farið í gegnum þetta með sjálfum mér þá hafa þessi verkefni í borginni alltaf verið það stór og mikilvæg og spennandi í mínum huga að þau hafa togað meira. Ég held að borgarmálin séu svolítið vanmetin stærð í pólitík. Mér finnst skrýtið að heyra það að það sé einhvern veginn sjálfsagt að menn fari í sveitarstjórnarmál en fari síðan á þing og í landsmál. Í Danmörku t.d. er til dæmis býsna algengt að fyrrum þingmenn og ráðherrar fari í sveitastjórnarmálin og spreyti sig á þeim. Borgarstjórinn í Kaupmannahöfn var ráðherra. Og borgarstjórar í mörgum stærri borgum hafa einnig komið úr röðum þingmanna.
Mikilvægi borga er að aukast. Bæði vegna þess að þær stækka og straumurinn leggur þangað en líka vegna þess að þar er hið efnahagslega afl. Þar skapast fjölbreytrni í störfum sem nýjar kynslóðir kalla eftir. Þar ræðst samkeppnishæfni milli þjóða þannig að pólitík á þessari öld verður að stórum hluta borgarpólitík.“
Hvað er fyrirsjáanleg framtíð?
„Ég hef lært það er gott að vera með fimm ára plan og að maður eigi ekki að fulllyrða neitt um mál sem eru lengra en tíu ár fram í tímann.“
Er þá hvorki á fimm ára né tíu ára planinu að fara í landsmálin?
„Nei.“
Ítarlegt viðtal við Dag B. Eggertsson, nýjan borgarstjóra Reykjavíkur, er í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann í heild sinni hér.