Áhersla síðasta meirihluta í borgarstjórn á fjölbreyttari samgöngumöguleika, hjólreiðar og almenningssamgöngur, fór varla framhjá neinum. Og fór gríðarlega í taugarnar á mörgum aðdáendum einkabílsins.
Að sögn Dags B Eggertssonar borgarstjóra, sem er í ítarlegu einkaviðtali við nýjasta Kjarnann, verður haldið hratt áfram á sömu braut. „Við erum nýbúin að gera greiningu í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem sýnir okkur fram á það að ef velgengni Strætó BS heldur áfram – farþegum þar fjölgaði um 33 prosent á síðasta kjörtímabili – þurfum við einfaldlega afkastameiri almenningssamgöngur, sérstaklega á þessum stóru og hröðu stofnleiðum. Þarna eru ýmsir valkostir og mismunandi leiðir sem borgir hafa farið í þessu. Annars vegar er það sem hefur verið kallað léttlestir á hjólum – hraðvagnar sem líkja eftir lestum og hafa forgang í umferðinni og komast hratt á milli staða – og svo hins vegar léttlestarkerfi sem sumar borgir hafa verið að velja. Það er þó nokkuð dýrara en laðar að fleiri farþega. Þetta er mál sem ég vil að við tökum af skarið með á allra næstu misserum.“
Dagur telur það vel koma til greina að ákvörðun um slíkt risaskref í almenningssamgöngum Reykvíkinga verði tekin á þessu kjörtímabili. „Við erum að vinna að svæðisskipulagi með hinum sveitarfélögunum. Það er nokkuð góð samstaða að hugsa í þessa átt. Mér fyndist það mjög spennandi. Ákvörðun er hins vegar eitt en skipulag og framkvæmd annað. Það er oft sagt að eftir að ákvörðun hefur verið tekin taki 7-10 ár að koma svona afkastameira samgöngukerfi á koppinn.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/20[/embed]
Húsnæðismarkaðurinn er þensluhvetjandi
Stærsta kosningaloforð Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga var að byggja 2.500-3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir í höfuðborginni. Ekki eru allir á þeirri skoðun að hið opinbera eigi að koma að slíkum framkvæmdum. Auk þess virðist vera að skapast mikið þensluástand í íslenska hagkerfinu vegna stórframkvæmda og það er ekki beint eftir hagfræðibókinni að auka opinberar framkvæmdir á slíkum tímum. Það gæti virkað sem olía á eld.
Dagur segir stöðuna á húsnæðismarkaði í Reykjavík hins vegar vera þensluhvetjandi í sjálfri sér. „Það að fasteignaverð sé að fara upp fer inn í verðbólguna og eykur þenslu. Hins vegar þarf auðvitað líka að læra af sögunni og horfa á heildina þegar verið er að horfa á framkvæmdir, en ég held að það hljóti að vera breið samstaða um það að húsnæðismálin hafi þar forgang umfram margt, ef ekki flest, annað.
Það er ekki sama hvernig þetta er gert og við höfum verið að skoða fordæmi erlendis. Reykjavíkurborg er mjög stór landeigandi og þarf að koma að málum á einn eða annan hátt með lóðaúthlutunum. Valkostirnir eru því kannski þeir að lóðum undir leiguíbúðir sé úthlutað án mikilla skilyrða í þeirri von að þar rísi leiguíbúðir, eða að lóðirnar séu lagðar inn í félög sem eigið fé gegn því, eða sem trygging fyrir því, að leiguíbúðir rísi og að þetta verði leigufélög til langs tíma. Við erum að horfa á síðari leiðina. Rannsóknarskýrslan um Íbúðalánasjóð geymir mörg dæmi um að fyrri leiðin hafi verið farin. Það áttu að verða til leigufélög með íbúðir á viðráðanlegu verði en það gerðist ekki heldur lenti í braski á brask ofan þar sem leigjendur sátu eftir með sárt ennið. Við erum búin að draga lærdóm af þeirri sögu til að tryggja að þetta verði langtímaleigufélög og að íbúðirnar verði á viðráðanlegu verði.“
Þetta er örstutt brot úr viðtalinu við Dag. Lestu það í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.