Þegar maníukast íslensku þjóðarinnar var um það bil að ná hámarki í aðdraganda hrunsins 2008 fæddist orðalagið: Ég á þetta- ég má þetta. Nú man ég ekki lengur hver var umgerð þessarar sögu – sjálfsagt átti hún að hafa gerst um borð í flugvél eins og flestar svona sögur.
Þegar nýríkir Íslendingar voru að fljúga um heiminn í einkaþotum örvita af kaupæði með troðnar töskur af ódýru lánsfé var ekkert fótboltalið of dýrt, engin snekkja nógu glæsileg og ekkert vöruhús of lítið. Fyrirbærið drukkinn Íslendingur í útlöndum hefur fyrir löngu öðlast goðsagnakenndan status og útlandið byrjar um borð í flugvélinni.
„Til þess að draga úr aðsókn var reynt að halda fundinn afsíðis fjarri leiðum strætisvagna á vinnutíma og auglýsa hann ekki.“
Hinn ölvaði Íslendingur í rúsi velgengni var lítt frábrugðinn vertíðargarpinum sem gekk berserksgang á erlendum sólarströndum með sjéniverpelann í vasanum 40 árum fyrr. Hann átti þetta og mátti þetta. Kjarni sögunnar er altsvo maðurinn sem hefur náð því nirvana auðsöfnunar og valda að hann getur gert hvað sem honum sýnist þegar honum sýnist án samráðs og samvisku.
Hann á þetta og má þetta.
Kynningarfundur sem átti ekki að fara hátt
Á dögunum voru tvær steinrunnar ríkisstofnanir, Vegagerðin og Landsnet neyddar til þess að halda einskonar kynningarfund vegna áforma sinna um að leggja uppbyggðan veg og háspennulínu yfir Sprengisand. Til þess að draga úr aðsókn var reynt að halda fundinn afsíðis fjarri leiðum strætisvagna á vinnutíma og auglýsa hann ekki.
Allt kom fyrir ekki því argir náttúruverndarmenn mættu nokkuð fjölmennir á fundinn og vildu fá svör. Hver leyfði þetta? Viljum við raunverulega skera hálendi Íslands um þvert og raða háspennumöstrum eins og keðju 30 silfurpeninga um háls Fjallkonunnar? Hvenær megum við ræða í alvöru hvað á að vernda og hverju á að fórna?
Þessar og fleiri spurningar sem einungis fjallagrasaétandi, hugleiðandi og lopapeysuklæddu náttúruverndarhjólreiðapakki getur dottið í hug að bera upp, dundu á illa undirbúnum kynningarfulltrúum og lágt settum verkfræðingum sem stóðu í rafveituheimilinu með nokkrar glærur og loftmyndir í hendinni líkt og börn með vota bleyju.
Loksins kallaði aldraður vegagerðarvegavinnuskrifstofumannsaðstoðarmaður yfir kynslóðabilið að Vegagerðin hefði allan lagalegan rétt í þessum efnum og mætti skipuleggja og hanna vegi eins og henni sýndist og einkum og sérílagi ef þjóðþrifafyrirtæki eins og Landsnet bæðu hana að gera það. Hann tinaði ofurlítið þegar hann sagði þetta og mér sýndist vera þunn dreif af flösu á kraga og herðum köflótta jakkans ættuð úr drifhvítum hárkraganum.
Við höfum ræst allt Ísland fram svo engin mýri finnst lengur og enginn fuglasöngur rýfur þögnina lengur þegar slökkt er á skurðgröfunni en mennina á vélunum vantar verkefni eins og skot.
Ekki rífa kjaft
Þeir nefnilega eiga þetta og mega þetta. Rétt eins og Framsóknarmenn eiga sveitirnar, þorpin og bændur alla og ef þú ert eitthvað að rífa kjaft þá ertu minntur á að það voru sko haldnar kosningar og nú er röðin komin að okkur. Hvert atkvæði okkar er 2.5 sinnum þyngra en þitt. Kópasker toppar Norðurmýrina hvenær sem er.
Við höfum ræst allt Ísland fram svo engin mýri finnst lengur og enginn fuglasöngur rýfur þögnina lengur þegar slökkt er á skurðgröfunni en mennina á vélunum vantar verkefni eins og skot. Það þarf að bora göng, leggja vegi og reisa háspennulínur í einum logandi hvelli. Umhverfisráðuneytið er lokað ofan í skúffu í landbúnaðarráðuneytinu og best að drífa sig og koma þessu í ferli svo þegar náttúruhipparnir með lattébollann átta sig þá verður ekki verjandi að hætta við því fresturinn til athugasemda er útrunninn og búið að setja geysilegt fé í rannsóknir og teikningar og tillögur.
Komaso.
Við eigum þetta og megum þetta.