Myndirðu fara upp í flugvél með flugmanni sem hefði eingöngu lært sitt fag í flughermi?
Ég myndi afþakka farið því það er svo margt sem er ekki hægt að skynja og skilja nema með reynslunni. Eins og til að mynda það að vera íbúi í öðru landi en upprunalega heimalandinu.
Ég prófaði það fyrst þegar ég var barn og bjó í þrjú ár með foreldrum mínum í Englandi. Þá hætti ég að taka því sem sjálfsögðum hlut að raunveruleikinn rúmaðist allur á einum og sama staðnum. Upp frá því varð mér ljóst að ég gæti aldrei tekið fullkomið mark á raunveruleikasýn minni því þessi svokallaði raunveruleiki væri á óteljandi stöðum í óteljandi útgáfum á sama tíma. Tilfinningin olli því að mér fannst líf mitt vera lygi.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_03/58[/embed]
Vaknaði hjá dönskum eiginmanni
Um þrítugt eignuðumst við hjónin litla íbúð í Vesturbænum. Við höfðum búið í henni í tæpt ár þegar óþægileg kennd hvíslaði að líf mitt væri of takmarkað. Eitthvað svipað gerðist í hausnum á eiginmanninum, sem var alinn upp í Kaupmannahöfn, því að augnabliki síðar vorum við búin að losa okkur við íbúðina og koma okkur upp heimili í þeirri sömu borg.
Eiginmaður minn reyndist vera svo flugmæltur á dönsku að Kaupmannahafnarbúar spurðu í mesta lagi hvort hann kæmi frá Borgundarhólmi. En hann hafði hreinlega gleymt að segja mér að hann ætti til annað eintak af sjálfum sér, danskan hafði ekki skipt máli í Reykjavík. Ég var steinhissa að vera óforvarendis gift kjaftaglöðum Dana með erkidanskan húmor og æskuvini á Austurbrú.
Lífið í Kaupmannahöfn endurnýjaði á mér hausinn, þó að þetta væri bara gamla, púkalega Íslendinganýlendan Köben. Ég keypti mér gamalt hjól, hellti mér í dönskunám í dönskuskóla fyrir innflytjendur og las safarík helgarblöð að dönskum hætti. Þarna fannst mér ég græða heljarinnar helling á því að fylgjast með samfélagsumræðu á öðru tungumáli en íslensku og ensku.
Guð blessi Ísland!
Eftir þrjú ár varð lífið í Köben of danskt. Við fluttum með allt okkar hafurtask til Barcelona, þar sem við borguðum strákum frá Alsír nokkrar evrur fyrir að bera fimmtíu bókakassa upp í kytru í risi á gömlu húsi, á horninu við aðalhórugötu borgarinnar. Þeir fóru beinustu leið á barinn á eftir en við hófum þriðja lífið. Maðurinn minn reyndist vel mæltur á spænsku, hafandi búið áður á Spáni, en ég tók kúrs í spænskuskóla og stautaði mig í gegnum Hola!
Við dvöldum í tvö ár í töfrum slunginni sjóræningjaborginni. Þessi tími er skrýtinn en lærdómsríkur draumur sem tók skyndilega enda. Ég hafði flúið hitann til að geta unnið betur próförk að skáldsögu og var stödd hjá bróður mínum á Ísafirði þegar Geir Haarde bað guð að blessa Ísland. Þannig urðum við, miðaldra hjónin, strandaglópar hjá litla bróður á Vestfjörðum. Okkur tókst að losna við leiguíbúðina í Barcelona og eftir langa leit fundum við góða leiguíbúð á Drafnarstíg, á sanngjörnum kjörum.
Í tæp fimm ár hvíldum við vel í okkar Vesturbæjarlífi, enda fæddist sonur okkar. Leigusalinn ljúfi leyfði okkur að skipta á íbúðum við Þjóðverja á sumrin, sonurinn fór í leikskóla og allt var í sóma ... þangað til einn rigningardaginn að ég las enn eina leiðindafréttina um ríkisstjórnina og heimtaði að flytja aftur út, hvernig sem við færum að því. Íslenski raunveruleikinn varð yfirþyrmandi í allri sinni lygi.
Davíð Oddsson í útlöndum
Nú búum við í Berlín. Maðurinn minn talar þýsku en ég sæki skóla á morgnana, ásamt skólafélögum af fimmtán þjóðernum. Seinni hluta dagsins skrifa ég, þakklát fyrir allar hugmyndirnar sem borgin gefur mér; þessi borg sem er eilíft stefnumót ólíkra veruleika.
Þannig vinn ég bækurnar mínar, annað umhverfi þjónar betur hagsmunum ýmissa annarra höfunda. Sumir þurfa á náttúrunni að halda, aðrir á kunnuglegu umhverfi með aðgengi að góðu bókasafni en flækingur þjónar einhverjum.
Nú er ekki ætlunin að monta sig af meintum heimsborgarahætti í hrokatón, slíkt tilgerðartal er löngu úrelt. Maður getur verið sannur heimsborgari í sinni sveit jafnt sem forpokaður lúði í stórborginni. Ég hefði líka viljað dvelja í öðrum heimsálfum, hugsanlega er ég farin að sjá heiminn með of evrópskum gleraugum, þrátt fyrir fjölbreytnina í Evrópu. Og auðvitað fyrirfinnst líka alls konar vitleysisgangur í útlöndum
En þessi lífsreynsla, að takast á við áskoranir sem innflytjandi í fjórum löndum, hefur samt vakið mig til umhugsunar um hvort það hafi reynst íslenskri þjóð hættulegt hversu margir ráðamenn hennar, bæði þá og nú, hafa aldrei, eða einungis um stundarsakir, búið á erlendri grund og tekist á við annað samfélag en þeir þekkja. Ég er ekki á þeirri skoðun að það þjóni endilega hagsmunum allra að dvelja langdvölum í útlöndum en sú reynsla hlýtur að skipta máli fyrir þá sem starfa við að sjá um samskipti Íslands við umheiminn.
Reyndar eru þeir nokkrir ráðherrarnir í núverandi ríkisstjórn sem hafa farið út í nám, þó að dagleg orðræða þeirra beri ekki vott um áhuga á umheiminum. Þeir tala eins og Ísland sé heimurinn og restin af jarðkringlunni lítil eyja úti í Ballarhafi; líkt og ekkert skipti máli nema sveitir Íslands, en þó ekki náttúran því af aðförum þeirra að dæma hefur hún engan tilverurétt.
Samt má velta fyrir sér: Hvernig væri til dæmis Ísland í dag ef Davíð Oddsson hefði búið í nokkur ár í nokkrum löndum áður en hann tók við stjórnartaumunum? Hvernig hefðu utanríkismálin þróast síðasta árið ef Gunnar Bragi hefði skilið hvað hann var sjálfur að segja á erlendri grundu? Ráðamenn hafa rétt á sínum skoðunum en getum við treyst því að þeir hafi viðeigandi yfirsýn?
Sigmundur Davíð í dularfullu námi
Kannski hefði það engu breytt. Sigmundur Davíð flæktist jú í dularfullum námserindum á milli erlendra háskóla í nokkur ár en talar samt í þjóðrembingslegum klisjum. En kannski hefði það einhverju breytt, fólk er misvel til þess fallið að taka inn framandi áhrif og ég er ekki frá því að núverandi forsætisráðherra hafi fæðst viss í sinni sök, hver sem hún nú er, kannski of viss til að ljúka tilsettum prófgráðum, þó að námserindin hafi líkast til kostað skildinginn (droppátinu mér ferst að gjamma um prófgráður en á móti kemur að ég er ekki forsætisráðherra).
Það er markmiðið með starfi bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra að Ísland megi blómstra til fulls í óhjákvæmilegu samspili með umheiminum. Því er fáránlegt þegar þeir sem gegna þessum mikilvægu störfum fyrir hönd svo fámennrar þjóðar í flókinni nútímaveröld hafa enga reynslu af því að búa með fjölmennari þjóðum og kynnast því að hvaða leyti þær fúnkera öðruvísi en sú íslenska.
Ísland er svo erkiíslenskt og því finnst manni nauðsynlegt að ráðamenn séu meðvitaðir um gangverkið í öðrum löndum. Margt gott má um Ísland segja en það er líka margt í samfélagsumræðu fjölmennari landa sem sjaldnast ratar inn í umræðuna hjá 300.000 manna þjóð.
Sveinbjörg hafði nokkuð til síns máls
Kannski talar Bjarni Ben þýsku en ég þykist þó vita að þeir séu ekki margir í ríkisstjórninni sem tali að staðaldri önnur tungumál en íslensku, ensku og íslenskuskotna skandinavísku. Það gæti haft áhrif á hugmyndir ráðamanna um Evrópusambandið og um leið allan vandræðaganginn í samskiptum við fulltrúa þess.
Skortur á innsýn í gildismat annarra þjóða gæti jafnvel hafa haft áhrif á nýlegar ákvarðanir eins og þær að mismuna námsmönnum erlendis og á Íslandi, þannig að fyrrnefndir fái lægri námslán en hinir – á tímum þegar fátt er eins dýrmætt fyrir fámenna þjóð og ungt fólk að afla sér þekkingar í öðrum löndum – eða dýra hreppaflutninga á menntuðum sérfræðingum ríkisstofnunar sem bera vott um heimóttarlega lítilsvirðingu gagnvart bæði reynslu og þekkingu.
Svo ekki sé minnst á skrípatilbúninginn meintan umhverfisráðherra, nú á háskalegustu tímum í sögu mannkyns vegna yfirvofandi náttúruhamfara sem aðeins alþjóðasamfélagið getur tekist á við í öflugri samvinnu. Stjórnmálin verða alþjóðlegri með hverjum deginum sem líður, fiðrildaáhrif þeirra æ greinilegri.
Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík benti reyndar á mikilvægi þess að stjórnmálamenn kynntu sér aðra menningarheima, þó að sá málflutningur hafi verið á hæpnum forsendum. Raunveruleikinn er samspil óteljandi veruleika og það er starf stjórnmálamanna að kljást við hann. Þjóðarinnar vegna þurfa þeir að öðlast yfirsýn því við erum þjóð meðal þjóða.
Annað fólk í öðrum löndum hefur gefið mér eitthvað dýrmætt sem erfitt er að festa reiður á. Að dvelja á meðal þess og kynnast áður ókunnugum samfélögum hefur kennt mér svo margt sem ég hefði ekki getað lært nema í snertingu við það. Samlíf með öðrum er ekki hættulaust en það er engin framtíð í því að fróa sér að eilífu einn og sjálfur.