Kastljós alheimsins hefur beinst að Rússlandi undanfarið, samhliða botnlausu falli olíuverðs og rússnesku rúblunnar. Augun beinast vitanlega helst að Vladimír Pútín, forseta Rússlands, sem hefur verið iðinn við að reyna að sýna heiminum mikilfengleika og mátt rússneska veldisins það sem af er ári. Samhliða hefur Pútín reynt að skapa hálfguðsímynd um sjálfan sig með áherslu á karlmennsku, þor, kjark og yfirburði.
Í vikunni var Pútin kosinn maður ársins í Rússlandi, fimmtánda árið í röð. Af því tilefni fannst Kjarnanum tilvalið að endurbirta uppfærðan topp fimm lista, sem birtist upphaflega í app-tímariti Kjarnans í febrúar síðastliðnum, og fjallar um fimm skrýtin uppátæki Pútíns sem ætlað var að ýta undir þessa nánast ómennsku ímynd sem maðurinn vill að fólk hafi af honum.
5. Pútín finnur fornmuni
Í ágúst 2011 ákvað Pútín að skella sér í köfun í Svartahafinu við strendur Suður-Rússlands. Þegar forsetinn var búinn að kafa niður á nokkurra metra dýpi fann hann fyrir algjöra tilviljun tvö grísk duftker frá sjöttu öld. „Fjársjóður,“ sagði blautur en skælbrosandi Pútín þegar hann steig upp úr sjónum og sýndi sjónvarpsfjölmiðlum, sem fyrir aðra tilviljun voru staddir á staðnum, gripina. Í kjölfarið fór hann að þylja upp ýmsar staðreyndir um forn-grískt leirtau.
4. Pútín grætur fyrir þjóð sína
Í Rússlandi má forsetinn bara sitja í átta ár í senn. Pútín þurfti því að fá vin sinn Dimitrí Medvedev til að halda hita á stólnum í eitt kjörtímabil á meðan hann gerði sig gjaldgengan á ný. Á meðan var Pútín forsætisráðherra og réð áfram öllu. Þegar hann tók aftur við forsetatigninni í mars 2012 hélt hann vitanlega sigurræðu á Rauða torginu í Moskvu. Það fyrsta sem vakti athygli var að húðin í andlitinu á forsetanum hafði strekkst töluvert og hann var mun sléttari en aldur hans sagði til um. Það sem vakti hins vegar mesta athygli var að forsetinn granítharði skældi með ekka á meðan á ræðunni stóð. Spunameistarar Kreml vildu þó ekki meina að karlmennið Pútín hefði bugast yfir þeirri ábyrgð sem kjósendur hans höfðu sett á herðar forsetans. Ástæða táranna, að þeirra sögn, var kaldir vindar.
3.Pútín fer í karlmannlegt sumarfrí
Í ágúst 2009, þegar Pútín var forsætisráðherra, fór hann í sumarfrí, eins og menn gera. Með í för voru að sjálfsögðu fjölmiðlar svo hægt yrði að skrásetja, og deila, athöfnun hans með þegnunum. Pútín fór ekki til Ibiza eða á lúxushótel í Mið-Austurlöndum. Hann eyddi fríinu í útilegu í Síberíu. Þar synti hann flugsund á móti straumnum í á, safnaði eldiviði,bjargaði sér í náttúrunni og spjallaði við innfædda. Og svo fór hann auðvitað á hestbak. Þetta gerði hann allt ber að ofan.
2. Júdómeistarinn Pútín
Vladimír Pútín er ekki bara gáfaður og úrræðagóður. Hnefar hans eru skráðir sem vopn. Og hann er með svarta beltið í júdó og finnst þrælskemmtilegt að skella sér í hvíta búninginn til að skella andstæðingi eða tveimur fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar. Pútín lætur það þó ekki duga. Hann er líka með svarta beltið í karate og er, að eigin sögn, margfaldur Rússlandsmeistari í rússnesku bardagalistinni sambo.
1. Pútín róar hlébarða
Í febrúar fór Pútín að skoða persneska hlébarða í ólympíuborginni Sotsjí. Með í för voru fulltrúar úr alþjóðlegu ólympíunefndinni og, að sjálfsögðu, fjölmiðlar. Þar ákvað Pútín að fara inn í búr hlébarðaunga sem heitir Grom. Pútín klappaði Grom og upplýsti fjölmiðla um leið um hversu miklar kynverur hlébarðar væru. Þeir gætu makað sig yfir 270 sinnum á viku þegar þannig lægi á þeim. Pútín lýsti aðdáun sinni á þessari eðlunarfýsn og -getu. Athyglin fór eitthvað í taugarnar á Grom, sem réðst að sögn ríkisrekinnar rússneskrar sjónvarpsstöðvar að fréttamönnum. Pútín ákvað í kjölfarið að taka hlébarðann í fangið og róa hann.