Nokkrar staðreyndir vegna fullyrðinga, sem settar eru fram í nýrri vefstiklu 365 miðla, um að 365 kosti okkur ekki skattfé. sjá hér.
Á árunum fyrir hrun náði 365 undir sig stórum hluta íslensks fjölmiðlamarkaðs. Fjármagnið sem notað var til að kaupa þær eignir kom ekki úr vasa eigendanna heldur var nánast allt tekið af láni. Í krafti þeirrar stöðu er fyrirtækið gímald á auglýsingamarkaði. Í nóvember 2008 skuldaði félagið sex milljarða króna og 1,5 milljarður var á gjalddaga 5. nóvember 2008. Stjórn félagsins ákvað að selja alla fjölmiðlana út úr félaginu til Rauðsólar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á 1,5 milljarð króna. Auk þess myndu hluti skulda fylgja með. Enginn annar fékk að bjóða. Reyndar var verðmiðanum breytt eftir á þegar ljóst var að Jón Ásgeir gat ekki skrapað saman meira en 1.350 milljónum króna.
Þorri þeirra peninga sem notaðir voru til að kaupa fjölmiðlana út, 810 milljónir króna, kom frá Högum, sem Jón Ásgeir stýrði þá enn, en kröfuhafar tóku skömmu síðar yfir. Engar viðskiptalegar forsendur voru fyrir þvi að Hagar lánuðu þessa upphæð. Helmingur var endurgreiddur eftir dúk og disk en hinn helmingurinn var greiddur sem auglýsingainneign hjá 365 miðlum. Síðast þegar af heyrðist voru Hagar enn að draga á þá inneign, mörgum árum síðar. Stærstu eigendur Haga í dag eru lífeyrissjóðir landsins.
Nafni gamla 365 var breytt í Íslensk afþreying og félagið sett í þrot. Kröfur í búið voru 4,2 milljarðar króna. Undir 500 milljónir fengust upp í þær, 3,7 milljarðar króna töpuðust. Á meðal þeirra sem töpuðu voru eigendur skuldabréfaflokks (að mestu lífeyrssjóðir) og ríkisbankinn Landsbanki Íslands.
Landsbanki Íslands var raunar lykilleikandi í því að Rauðsól fékk að kaupa 365. Bankinn samþykkti að hluti lána hans yrði færður yfir til Rauðsólar Jóns Ásgeirs og bankinn endurfjármagnaði auk þess lánin. Aldrei hefur verið skýrt af hverju þetta var gert, né af hverju öðrum var ekki gert kleift að bjóða í fjölmiðla 365 þegar þeir voru seldir á milli.
Fréttablaðinu, dagblaði 365, er dreift frítt í 90 þúsund eintökum daglega. Sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu bera 40-45 milljóna króna kostnað vegna urðunar á dagblaða- og tímaritapappír á ári. Uppistaða þess kostnaðar er vegna Fréttablaðsins. Auk þess borgar fólk sérstaklega fyrir bláar tunnur sem eru að langstærstu leyti fylltar af Fréttablaðinu. Könnun um viðhorf borgarbúa til flokkun úrgangs og endurvinnslu, sem var birt í mars 2014, sýnir að hlutfall þeirra sem annað hvort myndu afþakka fjölpóst eða væru til í það er 66,2 prósent. Tveir af hverjum þremur vilja þetta ekki. Samt neyðast þeir til að borga fyrir þetta með sköttunum sínum.
Þegar ofangreint er skoðað er bæði skakkt, og raunar óþolandi, að fréttastofa 365 telji í lagi að auglýsa í nýrri stiklu að hún vinni sína vinnu „án þess að kosta ykkur skattfé.“ Þetta fyrirtæki hefur kostað okkur almenning fullt af fé. Það hefur kostað lífeyrissjóðina fé, ríkisbankann Landsbankann fullt af fé og auk þess er starfsemi þess niðurgreidd með útsvarinu okkar um tugi milljóna króna á ári.