Það er nýr höfðingi í dalnum. Hann heitir ekki Facebook heldur Snapchat. Þessi „nýi“ samfélagsmiðill er um það bil að breyta því hvernig unglingar hegða samfélagsmiðlanotkunn sinni með nýstárlegri tækni til að segja sögur.
Snapchat setti allt á annan endan í heimi samfélagsmiðla þegar forsvarsmenn fyrirtækisins höfnuðu þriggja milljarða dala tilboði frá Facebook 14. nóvember í fyrra. Næsta dag bauð Google fjóra milljarða dollara en því tilboði var einnig hafnað. En hversu kúl eru nýju krakkarnir í blokkinni? Geta þeir bara sagt nei þegar töffararnir bjóða þeim út að leika?
http://www.youtube.com/watch?v=kKSr6h5-fCU
Fjöldi notenda á Snapchat hefur rokið upp undanfarin misseri. Flestir notendur eru á aldrinum 18 til 25 ára og yngri notendur eru gríðarlega virkir. Hátt í helmingur ungmenna á aldrinum 12 til 24 ára í Bandaríkjunum hefur notað Snapchat, samkvæmt rannsókn stjórnmálastofnunnar Harvard-háskóla. Virkni fellur síðan eftir því sem aldurinn er hærri, samkvæmt rannsókninni.
Tól fyrir nektarmyndir?
Fyrr í þessum mánuði bárust fregnir af því að tölvuþrjótar hefðu komist yfir þúsundir nektarmynda sem sendar voru í gegnum Snapchat. Nektarmyndirnar, sem flestar voru af ungum stúlkum á Norðurlöndum, höfðu verið vistaðar í hliðarforriti frá þriðja aðila svo öryggisveggir Snapchat voru í raun ekki brotnir. En spurningin sem situr eftir er hvort appið sé einfaldlega bara tól fyrir ungmenni til að senda klámfengnar myndir sín á milli?
Aðeins 1,6 prósent svarenda sögðust nota Snapchat aðallega til kynboða, en 14,2 prósent sögðust hafa notað appið til að senda skilaboð í persónulegri kantinum.
Í rannsókn sem gerð var við háskóla í Washington og Seattle var hegðun á Snapchat rannsökuð. Gengið var út frá því að appið væri aðallega notað í kynboð (e. sexting - ensk samsuða af „texting“ og „sex“), þar sem ögrandi myndum væri varpað á milli notenda.
Niðurstöðurnar voru hins vegar á allt annan veg. Aðeins 1,6 prósent svarenda sögðust nota Snapchat aðallega til kynboða, en 14,2 prósent sögðust hafa notað appið til að senda skilaboð í persónulegri kantinum. Meirihluti, eða tæplega 60 prósent, sögðust nota Snapchat til að senda grín eða skemmtisögur.
Á myndbandinu hér að ofan má sjá videóbloggarann Casey Neistat fjalla um Snapchat-væðingu snjallsímakynslóðarinnar í Bandaríkjunum.