Simon May er gestaprófessor í heimspeki við King‘s College London sem gaf út bókina Love – A History árið 2011 þar sem farið er yfir sögulega þróun vestrænna hugmynda um ást. Segja má að ástin sé eitt þeirra fyrirbæra sem menning okkar hverfist um. Ósjaldan heyrum við hvernig það að finna ástina hafi verið mesta gæfa manneskju og lífshlaup hennar er gjarnan skoðað í ljósi ástríkis og ástvina. Ástin er sígilt viðfangsefni allra þeirra listgreina sem fundnar hafa verið upp og svo virðist sem sá brunnur verði seint þurrausinn. Hana er að finna í einni eða annarri mynd í ótal kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, við verðum hennar vör í óperum jafnt sem dægurlögum, virðum hana fyrir okkur í málverkum og lesum um hana í bensínstöðvareifurum og í stjörnuspárdálkum dagblaðanna.
Nú á dögum álíta margir ástina vera það eina sem sé hafið yfir ófullkomleika hversdagslegs lífs og ólíkasta fólk getur sameinast undir merkjum hennar. Þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði um lögmæti hjónabands samkynhneigðra töluðu margir um að ástin hefði sigrað og leitarmerkið #LoveWins sást víða á samfélagsmiðlum. Í bókinni freistar Simon þess að útskýra hvers vegna samtíminn sé jafn upptekinn af ástinni og raun ber vitni og hvers vegna við elskum yfir höfuð.
Ástin býður okkur það sama og Guð gerði forðum
Simon May. Myndin er fengin af heimasíðu King's College.
Nietzsche kvartaði sáran undan því árið 1888 að tvö þúsund ár hefðu liðið án þess að nýr guð hefði komið fram á sjónarsviðið en Simon May heldur því fram að mannleg ást hafi þegar á þeim tíma verið tekin í guðatölu. Mannlegri ást er nú falið í hendur það hlutverk sem guðdómurinn gegndi áður: að vera hinsta uppspretta tilgangs, hamingju og lífsgilda andspænis erfiðleikum og missi. Hvers vegna er ástin svona miðlæg í vestrænni menningu?
„Vegna þess að mannleg ást var grundvölluð á ríkjandi einkennum gamla guðsins sem við höfum nú glatað. Eitt af því sem Guð gerði fyrir okkur áður fyrr var að veita okkur lausn undan þjáningu, þannig að ef við værum ekki verðlaunuð fyrir að hafa umborið hana þá væri hún á einhvern hátt ekki tilgangslaus; máttur einhvers annars vægi þyngra en þjáningin og það væri máttur kærleikans.“
Hann segir að Nietzsche hafi réttilega bent á að dauði Guðs – þegar trúin á algóðan Guð sem sáluhjálp okkar velti á verður sífellt ótrúverðugari innan vestrænna samfélaga – sé sá atburður sem valdi straumhvörfum í nútímasögu okkar. Samt sem áður týnist Guð hvorki né verður kastað svo auðveldlega fyrir róða. Eitthvað verður að koma í hans stað og því nægir ekki aðeins að bjóða upp á sæti æðstu gilda heldur verður það einnig að líkja eftir hegðun Guðs.
Margir staðgenglar Guðs hafa sigið fram á sjónarsviðið en flestir þeirra: kapítalismi, kommúnismi, tækni, vísindi og frelsi – sem enn þann dag í dag er nokkurs konar hálfguð í utanríkisstefnu Bandaríkjanna – hafa ekki staðist væntingar. Ég held að ástin geti veitt sömu fyrirheit og Guð gerði forðum.
„Margir staðgenglar Guðs hafa sigið fram á sjónarsviðið en flestir þeirra: kapítalismi, kommúnismi, tækni, vísindi og frelsi – sem enn þann dag í dag er nokkurs konar hálfguð í utanríkisstefnu Bandaríkjanna – hafa ekki staðist væntingar. Ég held að ástin geti veitt sömu fyrirheit og Guð gerði forðum.“
Sagði einhver Gamla testamentið?
Í bókinni beinir Simon sjónum sínum að grunnstoðum vestrænna hugmynda um ást, sem hann segir vera aðallega að finna í Gamla testamentinu og í heimspeki Platóns. Eftir því sem lesendum verður ágengt í bókinni koma áhrif Platóns æ betur í ljós en verkum hans má finna hugmyndir um að ástin kvikni af fegurð, að hún geri okkur heil og að hún sé upphaf ferðalagsins frá jarðneskri þrá til andlegrar visku sem yfirstígi tíma, rúm og þjáningu – uppför frá hinu jarðneska og takmarkaða til hins guðdómlega og ótakmarkaða. Breski heimspekingurinn Alfred Whitehead sagði eitt sinn að helsta einkenni vestrænnar heimspeki væri að hún væri eftirmáli við hugmyndir Platóns. Má segja að Platón sé jafnvel enn áhrifameiri en Ritningin?
„Ef vestræn hugmyndasaga um ást er eftirmáli einhvers er hún eftirmáli Gamla testamentisins, en þar er að finna boðorð sem taka nánast saman í tveimur setningum þá sérstöðu sem sem ástin hefur í hinu vestræna ímyndunarafli. Fyrra boðorðið segir okkur að við eigum að tengjast Guði í gegn um ást: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Það segir okkur ekki að elska hann að mestu heldur af öllu. Það er strangt boðorð sem skilgreinir grunnafstöðu manneskjunnar til hinnar æðstu veru sem samkvæmt skilgreiningu sinni er mikilvægari en allt annað.“
Hvað sem því líður er samfélagið sem þú skalt elska mun umfangsmeira en nokkuð sem við finnum í grískri heimspeki, sem er grundvallast mun meira á vali.
Simon leggur áherslu á að þetta stangist á við almenna orðræðu sem skilgreinir helgirit Gyðinga gjarnan út frá auga fyrir auga, tönn fyrir tönn og lýsir Nýja testamentinu sem guðspjalli kærleikans. Eins fjallar Gamla testamentið um ást á hátt sem á hátt sem hvorki Platón né nokkur annar grískur hugsuður gerir.
„Þegar Jesús er spurður hvert mikilvægasta boðorðið sé vitnar hann í Gamla testamentið og færa má rök fyrir því að þetta sé grunnur samtímakenninga í siðfræði, meira að segja í veraldlegri siðfræði: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Þetta boðorð kveður á vissan hátt um almennan kærleika, vegna þess að náunginn getur verið hver sem er, að minnsta kosti hver sem er innan samfélagsins. Miklar guðfræðilegar vangaveltur eiga sér stað um það hverja hugtakið náunginn eigi við hérna. Á það við um allar manneskjur í krafti þess að vera skapaðar í mynd Guðs eða einungis þá sem eru í sama samfélagi? Hvað sem því líður er samfélagið sem þú skalt elska mun umfangsmeira en nokkuð sem við finnum í grískri heimspeki, sem er grundvallast mun meira á vali.“
Bók Simon May, Love: A history. Hann vinnur að framhald.
Ást milli vina
Við eigum aðrar heimildir frá hinni grísk-rómversku fornöld sem nálgast ástina á veraldlegri hátt og hefja hana ekki á guðdómlegan stall. Þar má nefna vináttu-ást Aristótelesar og ljóðlist Lúkretíusar og Óvíðs sem beina sjónum sínum að lystisemdum kynferðislegs samneytis. Aristóteles hafnar því að ást geti verið skilyrðislaus og Lúkretíus sér hana ekki sem hinn mikla frelsara. Standa þessar stefnur og straumar í menningarsögu okkar einfaldlega í almyrkva Platóns og Biblíunnar?
„Nei, ég held ekki að um almyrkva sé að ræða þrátt fyrir mikilvægi þeirra. Maður eins og Lúkretíus myndi sjá ást sem þá leið sem við veljum til þess að upphefja þá sem við löðumst að kynferðislega. Við erum að tala um skáld sem var uppi nokkurn veginn á tímum Júlíusar Caesars og tuttugu öldum síðar eru uppi þróunarsálfræðingar sem leggja fram svipaðar hugmyndir með því að segja að ást sé tilhneiging sem þróunin valdi til þess að upphefja heppilegan maka fyrir undaneldi þannig að báðir aðilar séu nógu lengi saman til þess að geta og ala upp næstu kynslóð.“
Útkoman í dag er sú að vináttu hættir til að vera álitin annars flokks ást eða veik útgáfa í samanburði við rómantíska ást eða nýjustu gerð ástar sem hefur verið smíðuð, sem er ástin til barnsins.
Hann segir kenningar um ást sem sverji sig í ætt við efnishyggju hafi verið áhrifamiklar annað slagið í gegn um söguna og séu það nú á okkar dögum en það sama sé ekki hægt að segja um hugmyndir Aristótelesar vegna áhrifa Kristninnar.
„Hugmyndir um sértæka ást sem æðstu birtingarmynd ástar hafa óneitanlega dvínað. Vináttuást, þar sem vinir verða annað sjálf hvors annars, var æðsta birtingarmynd ástarinnar fyrir Aristótelesi. Sjá má ummerki hennar hjá Montaigne í frönsku endurreisninni en Kristnin veitti vináttuástinni þung högg vegna þess hversu úrvalsmiðuð hún er; hún er ólík náungakærleikanum sem gerir ekki upp á milli fólks. Fólk áttar sig ekki á því að menning þeirra er kristin, rétt eins og Nietzsche benti gjarnan á: Við áttum okkur ekki á því að við erum strengjabrúður menningar sem við teljum okkur hafa afneitað sem trúleysingjar en erum samt enn algerlega maríneruð í. Útkoman í dag er sú að vináttu hættir til að vera álitin annars flokks ást eða veik útgáfa í samanburði við rómantíska ást eða nýjustu gerð ástar sem hefur verið smíðuð, sem er ástin til barnsins.“
Ástríða, tryggð og afbrýðisemi
Í bókinni er að finna kafla um trúbadora Suður-Frakklands á miðöldum sem ortu um fágaða ástríðu sem þeir nefndu fin amour og innihélt hún í senn kunnuglega og framandi blöndu hugmynda um riddaramennsku, tryggð, þjónustu, rétta gerð afbrýðisemi og aðdáunar úr fjarlægð. Eins er lögð áhersla á að ást riddarans til lafðinnar þurfi að yfirstíga hindranir til þess að vera ósvikin eða óuppfyllt á einhvern hátt til þess að halda skerpu sinni. Höfðu trúbadorarnir mikil áhrif á seinni tíma skáld og hugsuði?
„Tvímælalaust. Sumir sjá uppruna allrar rómantískrar ástar í skáldskap trúbadoranna en ég veit ekki hvort ég sé algerlega sammála því og hvort ekki sé hægt að halda því fram að ást Parísar og Helenu í Illíonskviðu Hómers hafi ekki verið rómantísk. Hvað sem því líður hafa áhrif þeirra verið óhemju mikil hvað varðar hugmyndir okkar um tryggð, það að yfirstíga hindranir og annað sem er einkennandi fyrir hirðástina. Þar má nefna hugmyndina um að karlmaðurinn, jafnvel þótt hann sé æðsti stjórnmálaleiðtoginn og langt um hærra settur samfélagslega en lafðin, verði að lénsmanni hennar í ástinni og hafi engan rétt til þess að eigna sér hana,“ segir Simon.
Þar má nefna hugmyndina um að karlmaðurinn, jafnvel þótt hann sé æðsti stjórnmálaleiðtoginn og langt um hærra settur samfélagslega en lafðin, verði að lénsmanni hennar í ástinni og hafi engan rétt til þess að eigna sér hana.
Þar sem talið berst að rómantískri ást er rétt að beina sjónum okkar að þeim hugsuði lagði á vissan hátt grunninn að hugmyndum rómantískra hugsuða um ást: Jean-Jacques Rousseau. Í ritum sínum fjallaði Rousseau um það að öðlast og uppgötva sitt sanna sjálf með því að elska og lagði ríka áherslu á hegðun og skapgerðareinkenni sem við í dag tengjum við það að vera rómantísk, eins og einlægni, ástríðu, innsæi og sjálfsprottna hvatvísi. Sló hann tóninn fyrir rómantíska hugsuði sem á eftir honum koma?
„Við eigum Rousseau afar mikið að þakka hvað varðar hugmyndina um að við finnum okkar sanna sjálf í ástinni og að hún endurspegli ekki aðeins hver við erum heldur leggi rækt við sjálfsmynd okkar. Það er svo algengt að heyra enduróm þess í daglegu tali og við sjáum einhvern halda slíku fram í hvaða tímariti sem er: Þegar ég hitti hana eða hann uppgötvaði ég sjálfa(n) mig!“
Hvítþveginn kærleikur
Kristin trú álítur kærleikann vera hina æðstu dygð og mælistiku og eftir að hafa farið í sunnudagsmessu fá kirkjugestir það á tilfinninguna að kærleikur Guðs sé allt um lykjandi og frelsandi afl sem umberi allt og sé aðgengilegur öllum sem leita hans. Samt sem áður heldur Simon því fram að kærleikur Guðs eins og honum er lýst í Biblíunni sé hvorki altækur né skilyrðislaus og hafi, líkt og mannleg ást, ákveðna innbyggða ósanngirni.
„Það er morgunljóst að kærleikur Guðs er að einhverju leyti skilyrtur. Jesús lýsir hugmyndinni um helvíti á skýrari hátt en nokkur önnur persóna í Biblíunni í dæmisögunni um sauðina og hafrana og segir okkur að þeir sem ekki þóknist Guði verið fordæmdir að eilífu. Guð getur á þann hátt ekki verið sagður elska þá lengur og því skilyrðist kærleikur hans af verðleikum.“
Eftir upplýsinguna þurftu trúarbrögðin að finna finna leið til að vera aðlaðandi og við sitjum uppi með þessa miklu notalegri sögu um að Guð muni fyrirgefa allt og öllum, að minnsta kosti ef fyrirgefningar er beðist.
Hann bendir á að kærleikur Guðs sé einnig skilyrtur á annan hátt með hugmyndum um náð Guðs og guðdómlega forsjá sem finna megi í verkum Ágústínusar, Kalvíns og Lúthers. Þannig séu sumum ætlað að hljóta sáluhjálp en öðrum ekki á hátt sem mannfólkinu er ekki ætlað að skilja. „Þetta er eitthvað sem nútíminn hvítþvoði úr frásögn sinni; allar þessar óþægilegu sögur um helvíti, eilífa fordæmingu, tilviljanakennda náð og forsjón. Eftir upplýsinguna þurftu trúarbrögðin að finna finna leið til að vera aðlaðandi og við sitjum uppi með þessa miklu notalegri sögu um að Guð muni fyrirgefa allt og öllum, að minnsta kosti ef fyrirgefningar er beðist.“
Geta allir elskað fyrirvaralaust?
Við minnkandi áhrif kirkjunnar fóru fleiri hugsuðir að endurnýja hugmyndir sínar um ást og fjallar bókin sérstaklega um rómantíska þýska ljóðskáldið og heimspekigininn Friedrich Schlegel í því samhengi. Schlegel sá þá holdlegu nautn sem felst í kynferðislegu samneyti fólks sem heilagasta kraftaverk náttúrunnar áleit mannlega ást þannig guðdómlega. En Simon varar við því að slíta kærleika almættisins úr trúarlegu samhengi sínu og álíta mannlega ást guðdómlega eða að byggja hana á því hvernig Guð er sagður elska mannkynið.
„Mannleg ást getur ekki byggt á guðdómlegum kærleika vegna þess að við erum ekki guðir, við erum ekki ótakmarkaðar verur sem búa yfir yfirnáttúrulegum mætti. Það er réttara að snúa þessu við – og hér eiga trúarbrögðin afar mikilvægu hlutverki að gegna – vegna þess að þannig er lögð rík áhersla á hugmyndina um umhyggjusemi og þolinmæði, á það að bíða og opna sjálfan sig fyrir hinum. Ef við reynum að sölsa undir okkur mátt sem við getum samkvæmt skilgreiningu ekki búið yfir, erum við að kalla yfir okkur ófarir. Þetta fyrirbæri kölluðu Forn-Grikkir ofdramb og er umfjöllunarefni ótal goðsagna. Ég held að mannleg ást hafi fallið fyrir þessari freistingu.“
Ég held að það sé stórt vandamál nú á dögum að fólk virðist halda að allir geti elskað fyrirvaralaust á ósvikinn og ástríðufullan hátt.
Til samanburðar bendir hann á að Marteinn Lúther hafi einnig haldið því fram að manneskjur gætu gerst guðdómlegar, en aðeins í gegn um kærleika Guðs og að því hafi fylgt ofuráhersla á auðmýkt. Þannig hafi Lúther talið að fólk gæti veitt kærleika Guðs farveg en ekki búið yfir honum sjálft.
„Hugmyndum rómantísku skáldanna fylgir mikil hætta vegna þess að þær byrja að lýðvæða það sem áður var talið meðal allra sjaldgæfustu hæfileika. Ég held að það sé stórt vandamál nú á dögum að fólk virðist halda að allir geti elskað fyrirvaralaust á ósvikinn og ástríðufullan hátt. Ef einhverjum bregst bogalistin er það útskýrt með því að viðkomandi sé heftur eða þá að gripið er til einhvers konar sjúkdómsgreiningar í stað þess að líta á það sem hæfileika sem þarf að rækta.“
Litli uppreisnarhópurinn
Innan heimspekisögunnar er afburða hugsuði að finna sem gerðu sitt allra besta til þess að veita hinni háleitu mynd sem heimspeki Platóns og kristnin draga upp af ást viðnám. Hér má nefna til leiks Schopenhauer, Nietzsche, Freud og Proust sem Simon kallar lítinn uppreisnarhóp í sögu vestrænna hugmynda um ást. Schopenhauer segir ástríðufulla þrá eftir annarri manneskju vera drifna áfram af þrá eftir kynlífi sem að sé leið lífsviljans til að tryggja afkomu tegundarinnar. Nietzsche segir óeigingjarnan kærleika sem kviknar út frá vorkunn vera í raun grimma og hefnigjarna kröfu þess að hinn hætti umsvifalaust að þjást vegna þess að ásýnd hins þjáða sé óbærileg. Freud og Proust halda því fram hver á sinn hátt að ástgirninni verði aldrei fullnægt og að hún feli í sér eyðileggingarmátt.
Þegar við freistum þess að útskýra hvað sé á seyði í brotnum samböndum grípum við til hugtaka Freuds en á heildina litið er Freud algjörlega andsnúinn trúarbrögðum og hvers konar hugmyndum um frelsun
Hafa þessir uppreisnarseggir náð að gera hugmyndir Vesturlandabúa allsgáðari? „Hugmyndir Schopenhauers um ást hafa tvær hliðar. Önnur þeirra er sú sem þú nefndir en hann hefur einnig hugmynd um ást sem samúð og að þessu leyti er hann algerlega kristinn, þrátt fyrir að hann sé guðlaus; þetta er endurtekning á greinarmuninum á eros og agape. Eros einkennist af eigingjarnri þrá en agape er óeigingjarn, hreinn og gefandi kærleikur. Það sýnir okkur hvernig sjálf-yfirlýstur guðleysingi, einn hinna fyrstu mikilsvirtu guðlausu heimspekinga, heldur að hann sé að koma sér undan gömlu hugtökum trúarbragðanna en viðheldur þeim í raun í nýjum orðaforða.“
Hann segir að á heildina litið hafi vestræn menning ekki tekið þá mynd sem efnishyggjan dregur upp af ást upp á sína arma þrátt fyrir að hugsuðir eins og Freud hafi verið áhrifamiklir. „Sumar hugmynda hans hafa augljóslega fengið mikla útbreiðslu og má þar nefna ómeðvitaða frávarps-samsömun og hina geysilegu áherslu á upplifanir í barnæsku sem eiga að móta okkur sem elskhuga seinna á lífsleiðinni. En þessir þættir í hugsun Freuds hafa verið felldir inn í hina Kristnu mynd af ást sem skilyrðislausa og frelsandi sem síðan hefur verið gerð veraldleg. Þegar við freistum þess að útskýra hvað sé á seyði í brotnum samböndum grípum við til hugtaka Freuds en á heildina litið er Freud algjörlega andsnúinn trúarbrögðum og hvers konar hugmyndum um frelsun.“
Í leit að samastað í veröldinni
Simon telur enga hinna hefðbundnu skýringa á ástæðunni fyrir því að við elskum vera nógu nákvæma. Ein af mörgum radda Platóns segir að ástin kvikni af því sem er fagurt og að hún sé þráin eftir því að hafa fegurðina varanlega á valdi sínu. Jafnvel þótt við sjáum fegurð í því sem við elskum útskýri það ekki hvers vegna við elskum þær tilteknu manneskjur eða fyrirbæri sem við elskum til að byrja með auk þess sem við elskum langt um færri fyrirbæri en okkur þykja fögur. Það sama eigi við um kenningu Aristótelesar um að ást sé svar við því að skynja áþekkar dygðir í annarri manneskju, þar sem við elskum alls ekki allar þær manneskjur sem við tengjumst á þann hátt. Hann heldur því einnig fram að seinni tíma kenningar sem útskýri ást með tilliti til eðlisþátta mannsins og byggi til dæmis á kynferðislegri þrá dugi skammt.
Ein ástæða þess að ótal sambönd enda illa er sú að fólk heldur að kynferðisleg girnd leiði sjálfkrafa til ástar en það á augljóslega aðeins við í sumum tilfellum.
„Ein ástæða þess að ótal sambönd enda illa er sú að fólk heldur að kynferðisleg girnd leiði sjálfkrafa til ástar en það á augljóslega aðeins við í sumum tilfellum. Tilgáta mín er sú að við elskum einmitt þær örfáu manneskjur – það geta einnig verið listaverk, hlutir eða hugmyndafræði – sem vekja með okkur það sem ég kalla fyrirheit um verufræðilega festu. Hugmyndin um verufræðilega festu gengur út á það að við höfum svo að segja fundið okkur heimkynni í veröldinni; samastað eða pólstjörnu sem gefur okkur stefnu í lífinu. Ég legg ríka áherslu á að þetta eru aðeins fyrirheit en ekki fullnusta sem við finnum. Eina leiðin til að komast að því hvort fyrirheitið reynist satt er með því að eiga í sambandi við viðkomandi ástvin.“
Hann segir að þegar einhver verður fyrirheitsins var, feli það í sér hrifningu sem komi af stað og viðhaldi leit að djúpstæðu sambandi við viðfangið vegna þess að það staðfesti eða finni samhljóm í því sem við teljum vera okkar innsta kjarna. Þetta komi í ljós þegar við veltum því fyrir okkur hvers vegna trúað fólk elski Guð.
Ég held að enn um sinn muni fólk áfram hafa þörf fyrir og leggja traust sitt á ást sem hin æðstu frelsandi gæði. Sú tíð gæti runnið upp að sú þörf verði ekki lengur fyrir hendi og ástinni verði steypt af stóli.
„Ef við skoðum Guð Biblíunnar, bæði í Gamla og Nýja testamentinu, finnum við guð sem refsar, hefnir sín og fordæmir synduga að eilífu og spurningin er: hvers vegna elskum við slíkan guð? Við elskum Guð ekki á platónskum grundvelli, vegna þess að hann sé fagur. Við elskum Guð ekki á aristótelískum grundvelli, vegna þess að hann búi yfir svipuðum dygðum og við sjálf. Við elskum Guð heldur ekki vegna þess að hann sé góður eða sagður vera góður. Ef við elskum Guð er það nákvæmlega vegna þess að hann gegnir hlutverki verufræðilegrar festu. Ef við erum innan trúarkerfisins er Guð er æðsta uppspretta veru okkar og sú vera sem við getum við getum hagað lífi okkar algerlega í samræmi við.“
En ætli áhrif trúar okkar á mátt ástarinnar muni dvína þegar fram líði stundir? Ef við snúum aftur að ummælum Nietzsches í upphafi – er eitthvað á sjóndeildarhringnum sem er líklegt til þess að velta ástinni úr sessi sem hinum mikla bjargvætti, þess sem gefur lífi okkar gildi og tilgang?
„Ég trúi því statt og stöðugt og hef getið þess oft, að kenningu eða trú er ekki kastað fyrir róða vegna þess að hún hafi verið afsönnuð. Hún er gefin upp á bátinn vegna þess að hennar gerist ekki lengur þörf. Ég held að enn um sinn muni fólk áfram hafa þörf fyrir og leggja traust sitt á ást sem hin æðstu frelsandi gæði. Sú tíð gæti runnið upp að sú þörf verði ekki lengur fyrir hendi og ástinni verði steypt af stóli. En við erum ekki enn komin að þeim tímapunkti,“ segir Simon að lokum.