Sífellt fleiri á besta aldri meta Ísland núna þannig að eina vitið sé að beina öllum kröftum sínum að sér og sínu en vera andlega og likamlega fjarstaddur umræðuna, átökin og leiðindin í samfélaginu. Leiðarval landsstjórnarinnar skipti engu máli því hún ráði ekki við neitt. „Ég hef gefist upp á Íslandi“ heyrist uns atkvæði eru greidd með fótunum og fjölskyldur eða fyrirtæki flytja til annarra landa. Nú hefur það líka gerst að kominn er í ljós svo um munar hljómgrunnur fyrir því að leggja niður sjálfstætt ríki Íslendinga og ganga frekar í Noreg. Fylkisflokkurinn segist hafa þúsund manns á skrá, sem er sennilega fleiri sálir en tveir til þrír af sex núverandi flokkum með fulltrúa á Alþingi hafa á sínum skrám.
Orð Jóns Helgasonar
Frekar en að ræða í löngu máli hvað sé húmor og hvað alvara skulum við nota orð skáldsins Jóns Helgasonar, sem sagði í ljóði þegar dró til illra tíma í Danmörku árið 1940: – „hugur mun særast uns tómlætið gerist hans brynja.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_09_04/50[/embed]
Versti hluti hrunsins var án efa samfélagslega taugaáfallið, óvissan, óttinn, reiðin. Nú, sex árum síðar, finnst flestum mjög óskýrt hver útkoman er eftir öll átökin. Hið eina augljósa að biðin eftir næsta góðæri sé í algleymi – en hver vann? Fyrstu vikur og mánuði eftir bankahrunið vildu allir bretta upp ermar og gera gagn, leggja af mörkum til nýs og betri tíma en hugur særðist uns tómlætið gerðist hans brynja. Tómlætisbrynjan er mannleg viðbrögð við óbærilegu ástandi í stríði allra gegn öllum þar sem allt er leyfilegt. Forstjóri fjármálaeftirlits er dæmdur fyrir að leka bankaleyndargögnun um þingmann. Aðstoðarmaður ráðherra ákærður fyrir að leka gögnum um hælisleitenda. Heildarmyndin er himinhrópandi. Neðanjarðarbardagakerfi opnast upp í smáríkinu þar sem allt skyldi vera uppi á borðum. Það er barist úti um allt með öllum tiltækum óhreinum ráðum. Allir eru sárir og samfélagssárin verða djúp og langvarandi.
Höfuðborgarsvæði og landsbyggð
Húsasmíðameistarar fara létt með að telja efnhagskreppuárin sem leiddu af hruninu og þau eru orðin fleiri en þekkst hefur frá stríðslokum nú þegar rofar til hjá þeim, meðal annars vegna hótelbygginga. Eitt og annað á Íslandi var í sama blóma og fyrr hvað sem hruni leið: Munurinn á höfuðborgarsvæði og landsbyggð var þannig sláandi. Eftir að fjármálakerfið hafði unnið sinn mikla skaða hélt raunhagkerfið uppi atvinnu í landinu með ærnu erfiði og aðhaldi en fær ekki lof fyrir. Hvernig sköpum við meiri verðmæti, aukum framleiðni og tryggjum lífskjör? Raunhagkerfið þarf raunsanna stefnu um ábyrga hagstjórn og forgangsröðun. Í staðinn hrósum við okkur af náttúruöflum og þökkum fiskgengd og eldgosum heppni okkar og ný auðsáhrif. Góðæri er ekki hagstjórnarhugtak heldur orð um veður.
Tómlætisbrynjan skapar minnstu kjörsókn sögunnar hér á landi, umboðsþurrð við gerð kjarasamninga, ríkisstjórn með minnsta mælda traust, borgarstjórn sem lýsir þann óstjórntækan sem fer með forsætisráðuneytið, svo ekki sé minnst á upplausn samskipta dómsmálaráðherra, lögreglu og ákæruvalds. Á Íslandi varð hrunið að samfélagskrísu sem sér ekki fyrir endann á.
En sá veruleiki hrunsins sem tómlætisbrynjan hindrar að sé ræddur öðruvísi en í hálfkæringi er hársbreiddin sem var frá því haustdagana 2008 að Ísland steyptist í gjaldþrot og endaði sögu sína sem sjálfstætt ríki. Það er of háskalegt og yfirþyrmandi að engu hafi munað að allt væri búið – til að hægt hafi verið að meta af skynsamlegu viti og yfirsýn. Enn sex árum síðar virðist enginn vilja sjá að orsakanna var að leita í veikleikum Íslands sem ríkis. Veikleikum sem rista dýpra en nokkur stjórnmálaflokkur, einstakar stofnanir eða einstaklingar, veikleikum sem eru sameiginlegt vandamál okkar allra. Ræðum það í djúpri alvöru en ekki hálfkæringi.
Sjálf get ég lýst óhugnaðinum sem það var það dimma haust 2008 að sitja á ráðherrafundum, heyra samtöl og meðtaka ásakanir á hendur Íslandi um að vera „failed state“, þar með hættulegt öðrum og kennt um ófarir miklu fleiri en sjálfs sín. Ég hef oftar en ég hef nokkra tölu á heyrt og þurft að svara spurningum – ekki síst frá frændunum frægu á Norðurlöndum – um það hvort Ísland yfirleitt eigi mannauð til að halda uppi Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, ríkisstjórn og alvöru hagstjórn ríkis.
Tómlætisbrynjan
Ísland bjargaði lífi sínu haustið 2008 naumlega en þarf nauðsynlega á því að halda að sýna bæði inn á við og út á við að það eigi nýjan leik. Það var undraverður árangur fyrri kynslóða að svo fámennt ríki yrði stofnaðili allra helstu alþjóðastofnana nútímans og tækist að byggja upp efnahagslegt sjálfstæði. Tómlætisbrynja fólksins nú er versta ógnin sem steðjar að Íslandi, hún afsiðar og breytir félagslífi í landinu í bardagavöll þar sem drullan er æðst en drengskapurinn lægstur. Það er hins vegar betra að orða hugmyndina um að leggja Ísland niður sem ríki en missa tökin í meðvitundarleysi meðan réttarríki, þinghelgi, frelsi fjölmiðla eða lífeyrissjóðakerfi molna niður. Að orða slíka hugmynd voru landráð til skamms tíma en af því að landráðabrigsl eru krabbamein íslenskrar þjóðfélagsumræðu og eyða alltaf heilbrigðu lífi hvar sem þau kvikna er það skref til góðs að kveða niður brigsl sem aðferð. Þá fyrst er hægt að ræða veikleika Íslands á hlutlægan hátt, af hverju þeir stafi og hvernig breytingar í heiminum ógni eða styrki stöðu landsins. Eðlilegt lýðræðisástand er samkeppni hugmynda um sterkara Ísland.
Einar Benediktsson var ástríðufullur og bjartsýnn raunsæismaður um Ísland og sagði um sjálfstæðisviðleitni landsins í stuttum formála 1913: „Ef til vill mun hvergi jafn smáum hóp ætlað svo mikið að vinna.“ Og hann hafði hárrétt fyrir sér. Öld síðar er Ísland, eitt fámennasta fullvalda ríki heims, nýbúið að lifa naumlega af „near-death experience“ eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn orðar á ensku kjarna þess sem gerðist.
Nú er tímabært að spyrja samviskuspurninga: Af hverju ættirðu að láta þig eitthvað varða annað en þína eigin einkahagsmuni? Er til eitthvert reikningsdæmi sem sýnir að það borgi sig fyrir þig? Til er afstaða sem felst í því skýra gróðadæmi að sækjast eftir samfélagslegri ábyrgðarstöðu til að beita henni í þágu eigin hagsmuna. Þetta er þó ekki hægt að gera fyrir opnum tjöldum, telst óheiðarlegt og er í mörgum tilvikum ólöglegt og jafnvel refsivert. Hvaða líkur eru á slíkum málagjöldum og hvaða líkur eru á hinu að þér takist að fara óáreittur og glaður þínu fram og græða vel? Sumum finnst síðasta spurningin ætluð siðblindingjum en öðrum hún vera sjálfsögð. Hvað borgar sig á okkar tímum? Sé næst spurt hverju geturðu tapað verður svarið: Landinu þínu.