Hlutfall formlegs eignarhalds banka og skilanefnda á fyrirtækjum hefur vissulega lækkað skarpt á undanförnum árum, en það er samt sem áður enn mjög hátt. Bankar eiga níu prósent af hlutafé 120 stærstu fyrirtækja landsins og skilanefndir fimm prósent.
Í skoðun Samkeppniseftirlitsins á ráðandi stöðu banka í stærri fyrirtækjum, en með því er átt við beint eignarhald að viðbættum fyrirtækjum sem eru með neikvætt virði hlutafjár, versnar þessi staða enn. Bankar ráða yfir 25 prósent 120 stærstu fyrirtækja landsins samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins. Þegar einvörðungu er horft til innlends þjónustugeira eru tögl og haldir banka enn meiri. Þeir ráða yfir 39 prósent fyrirtækja innan hans.
Lífeyrissjóðirnir orðnir allt of fyrirferðamiklir
Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins er líka staðfest sú tilfinning sem margir hafa; íslenskir lífeyrissjóðir eru orðnir óþægilega stórir eigendur í íslensku atvinnulífi. Beina eignaraðild sjóðanna er hægt að sjá í opinberum skjölum. Óbein eign þeirra, sem er til að mynda í gegnum allskyns fjárfestinga- eða skuldabréfasjóði sem reknir eru af eignarstýringafyrirtækjum banka eða öðrum fjármálafyrirtækjum, eru ógagnsærri. Á hluthafalistum stórra íslenskra fyrirtækja eru sjóðir í eigu fyrirtækja eins og Stefnis (sem Arion banki á), Landsbréfa (sem Landsbankinn á), Íslandssjóða (í eigu Íslandsbanka), Júpiter, Auðar Capital, MP Banka og ýmissa annarra safnreikninga á meðal 20 stærstu hluthafa flestra skráðra fyrirtækja.
Í viðtali við Kjarnann í dag, sem birt er annars staðar í þessari útgáfu, segir Hreggviður Jónsson, for maður Viðskipta ráðs, að lífeyrissjóðir eigi allt að helming skráðra hlutabréfa á Íslandi, bæði beint og óbeint í gegnum hlutdeildar eign í sjóðum.