Ingibjörg Elsa Björnsdóttir stendur fyrir söfnun fyrir útgáfu ljóðabókarinnar Ópus fyrir ömmu á Karolina Fund. Bókin er rómantísk ljóðabók og er tileinkuð ömmu Ingibjargar.
Segðu okkur frá verkefninu þínu Ópus fyrir ömmu. Hvað drífur þig áfram til þess að skrifa og hvenær fórstu að skrifa ljóð?
„Ópus fyrir ömmu er rómantísk ljóðabók sem brýst út úr póstmódernisma og pósthúmanisma inn í 21. aldar rómantík. Ég er orðin leið á póstmódernisma, tel pósthúmanisma hreinlega ekki ganga upp og tel þessi fræði öll vera komin í fræðilegt og andlegt öngstræti. Því er leitað til rómantísku stefnunnar um innblástur og nýtt upphaf.
Það er eitthvað innan í mér sjálfri, einhver skondin sköpunar- og tjáningarþörf sem krefst þess að ég skrifi ljóð. Ég skrifa reyndar líka smásögur, en ég mun aldrei skrifa skáldsögu. Ég er meistari hins knappa forms.
Ég fæ oft innblástur úr tónlist þegar ég skrifa. Þá fer flæðið af stað og ég kemst í gír. Mína fyrri ljóðabók, Rökkursónötuna, skrifaði ég á þremur dögum samfleytt, af því að ég var hrædd um að missa innblásturinn. Ég skrifaði hana á þremur dögum en hafði hugsað í 40 ár.
Tékkneska tónskáldið Janacek hóf ekki að semja tónverk fyrr en seint á lífsleiðinni. Hann er mín fyrirmynd. Ég byrjaði ekki að skrifa að ráði fyrr en upp úr fertugu. Ég var svo lengi að ná fullum þroska. Núna er ég farin að leika mér að formi og tungumálinu og ég skrifa tilbrigði við form og leik mér að orðum og formum. Ljóð mín eru ekki formlaus, þau hafa ákveðna hrynjandi og ákveðna byggingu.
Ég fór að skrifa ljóð sem barn, en þau urðu ekki góð fyrr en um fertugt. Móðir mín segir að ég hafi á barnsaldri staðið út á svölum í Breiðholtinu og farið með frumsaminn ljóðabálk til sólarinnar sem var að setjast yfir Seljahverfið. Mér er því algjörlega nauðsynlegt að tjá mig bæði í ljóðum og smásögum. Smásögur hef ég mikið skrifað á Rithringnum og hefur Rithringurinn hjálpað mér mikið."
Ópus merkir verk
Nafnið Ópus fyrir ömmu. Hvaðan kemur það?
„Ópus merkir verk. Langamma mín Ingibjörg Brynjólfsdóttir, dóttir Brynjólfs Jónssonar sem var prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum, er mér mjög hugstæð persóna. Hún giftist langafa mínum Magnúsi Bjarnarsyni, presti og prófasti á Prestbakka á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þannig flutti hún frá Vestmannaeyjum upp á land að Prestbakka. Hún var sterkur karakter, hafði góða kímnigáfu og hefur verið mjög skemmtileg og lifandi manneskja. Bókin er skrifuð henni til heiðurs."
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir , höfundur Ópus fyrir ömmu.
Hvert er svo framhaldið? Stefnir þú á að gefa út fleiri bækur?
„Ég er í doktorsnámi og hef verið að grufla í þýðingum og skriftum með náminu. Ég ætla mér að verða doktor í tæknilegri lýsandi þýðingafræði og verða algjör sérfræðingur í vélþýðingum og sjálfvirkum þýðingakerfum.
Það er ágætt að skrifa ljóð með slíku. Ég verð að vísu að passa að láta ekki stílinn úr þýðingunum og þýðingavélunum smitast yfir í ljóðin, þ.e. tæknilegu þýðingatextarnir eru mjög skýrslukenndir á köflum og ég vil helst ekki skrifa ljóð sem eru eins og skýrslur.
Hugmyndafræðilega legg ég áherslu á endurreisn rómantíkurinnar, upphafningu sjálfsins, hið háleita, hrikalega og fagra, og snilligáfuna í sjálfri mér. Einnig leyfi ég mér að trúa á æðri mátt. Fyrirmyndir mínar eru t.d. Blake, Wordsworth, Tennyson en svo verð ég að viðurkenna að ég er haldin taumlausri aðdáun á T.S. Eliot.
Ég mun örugglega halda áfram að skrifa á meðan ég lifi. Ég verð fimmtug eftir eitt ár, þannig að ég verð að vera afkastamikil og nýta tímann vel ef ég ætla að skilja eitthvað eftir mig í þessu lífi. Þegar aldurinn færist yfir fer maður að skilja hve tíminn er verðmætur og hversu mikil sóun er að eyða honum í vitleysu."
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.