Davíð Óskar Ólafsson er einn af eigendum Mystery sem er framleiðslufyrirtækið á bak við kvikmyndina Málmhaus. Hann hefur starfað við kvikmyndagerð frá því að hann var 18 ára gamall og stofnaði Mystery með Árna Filippussyni árið 2006. Þeir hafa nú framleitt fimm íslenskar kvikmyndir frá stofnun fyrirtækisins og Málmhaus eftir Ragnar Bragason er sú fjórða í röðinni.
Núna eru þeir að hópfjármagna útgáfu á dvd útgáfu á myndinni fyrir ensku- og spænskumælandi markað. Við tókum Davíð tali.
Myndin er þroskasaga um missi og hvernig tekist er á við sorgina.
Þroskasaga um missi
Segðu mér frá Málmhaus. Hún hefur fengið frábærar viðtökur er það ekki?
„Málmhaus er þroskasaga um missi og hvernig þú kemst í gegnum sorgina. Myndin fékk frábæra dóma hérna heima. Enginn íslensk mynd hefur verið tilnefnd til eins margra Eddu verðlauna og Málmhaus eða 16 talsins og unnum við 8 af þeim. Þannig að við erum nokkuð vissir um að við gerðum mjög góða mynd."
https://www.youtube.com/watch?v=dyxhcNsjWKI
Þið eruð að vinna að því að koma myndinni til útlanda með því að fjármagna textaða DVD útgáfu á ensku og spænsku. Hafið þið fundið fyrir áhuga erlendis frá?
„Já, alveg frá því að við heimsfrumsýndum Málmhaus á Toronto kvikmyndahátíðinni höfum við fengið virkilega góð viðbrögð við henni erlendis. Við höfum fengið frábæra dóma um heim allan og höfum við selt myndina í dreyfingu til um 15 landa og þar á meðal eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Suður Ameríka. Myndin hefur einnig unnið til verðlauna erlendis þannig að það er búið að taka gríðarlega vel í hana hvert sem hún fer. Bara til þess að gefa smá hugmynd um áhugan sem er fyrir myndinni þá erum við með yfir 40.000 likes á síðunni okkar á Facebook og það hefur verið horft á trailerinn okkar yfir 228.000 sinnum á youtube. Þessar tölur held ég séu þær hæstu sem nokkur íslensk mynd hefur fengið þannig að við erum afar ánægðir með þetta og núna erum við að reyna að safna peningum til þess að geta gefið hana út fyrir aðdáendur okkar erlendis og íslendingar geta auðvitað einnig hjálpað til við að gera þetta að veruleika."
Myndin er þroskasaga um missi og hvernig tekist er á við sorgina.
Mikill niðurskurður með nýrri ríkisstjórn
Hver er staða Íslenskrar kvikmyndagerðar í dag að þínu mati?
„Staðan er ekki nægilega góð. Við höfum orðið fyrir miklum niðurskurði frá því að nýja ríkistjórnin tók við völdum og það lítur ekki út fyrir að það sé að breytast eitthvað á næstunni. Fyrir nokkrum árum stóðum við í sömu stöðu og þurftum að útskýra fyrir þáverandi ríkistjórn að kvikmyndagerð er iðnaður en ekki hobbý. Það er sorglegt því að kvikmyndagerðin sjálf sem iðnaður hefur ekki verið jafn sterkur í mörg ár og þá er ég að tala um gæði verkefnana sem koma út. Myndirnar sem eru gerðar ferðast víða og vinna til verðlauna og á síðasta ári unnu íslenskar kvikmyndir um 30 erlend verðlaun þar á meðal Norðurlandsverðlaunin sem er frábært. Það er synd að ríkistjórnin sjái sér ekki hag í að setja meiri pening í iðnað sem styrkir menningu okkar og á sama tíma er frábær landskynning og dregur ferðamenn til landsins á hverju ári."
Árni Filippusson og Davíð Óskar Ólafsson.
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.