Það hefur heldur betur staðið styr í kring um DV undanfarið. Blaðið var nýlega yfirtekið og blaðamönnum og ritstjórum sagt upp. Nú hafa fyrrum ritstjóri DV og starfsmenn hafið söfnun á Karolina Fund til þess að fjármagna nýjan fjölmiðil. Verkefnið fór afar vel af stað og náði takmarki sínu á einungis 48 klukkustundum og þegar þetta er skrifað eru þau hársbreidd frá því að slá met á hópfjármögnunarsíðunni, með hæstu upphæð sem safnast hefur.
Við tókum Jón Trausta Reynisson, ritstjóra og framkvæmdastjóra Stundarinnar tali.
http://youtu.be/KYJnlVxjYA8
Persónuleg og samfélagsleg staða
Getur þú sagt okkur frá aðdraganda þess að þið ákváðuð að stofna Stundina?
„Þegar DV var yfirtekið með tilstuðlan hagsmunaaðila stóðum við frammi fyrir tvenns konar stöðu, persónulegri og samfélagslegri. Persónulega staðan var sú að við sem starfsmenn DV þurftum að ákveða hvort við vildum vinna með þessum aðilum að því að móta miðilinn eftir þeirra vilja. Þá þegar lá fyrir að forsendurnar fyrir yfirtökunni voru andstæðar okkar hugmyndum um frjálsan og óháðan fjölmiðil. Innan nokkurra daga í kjölfar yfirtökunnar voru sum okkar hætt en önnur rekin.
Samfélagslega staðan var sú að þrír stærstu vefmiðlar landsins og stærstu dagblöð landsins voru komnir undir stjórn hagsmunaaðila. Í einu fjölmiðlafélaginu var fyrrverandi forsætisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokks yfir ritstjórninni. Hjá öðru var búið að setja fyrrverandi upplýsingafulltrúa Baugs og sérstakan andstæðing rannsókna á efnahagshruninu yfir ritstjórnina. Og DV var yfirtekið af hópi sem samanstóð af manni sem vildi hefna fyrir umfjöllun um viðskipti sín, lögfræðingi sem var að reka meiðyrðamál gegn ritstjórninni og að lokum fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins sem átti sögu krosstengsla milli fjölmiðlunar og viðskiptahagsmuna, og gerði yfirlýstan „spunameistara“ sinn að ritstjóra."
Hver er tilgangur miðilsins? Hvaða hlutverki mun hann þjóna í samfélaginu?
„Tilgangur okkar með því að stofna Stundina er að bjóða upp á nýjan valkost í upplýsingagjöf, fjölmiðil sem er ekki tengdur valdablokkum og setur sér meðal annars reglur sem tryggja valddreifingu með dreifðu eignarhaldi. Önnur leið til að hámarka virkni fjölmiðilsins í þágu almennings er að hann sé sem mest fjármagnaður af almenningi, bæði með kaupum fólks á áskriftum og hlutafé. Fjölmiðill sem er fjármagnaður af almenningi fremur en sérhagsmunaöflum er í mun betri aðstöðu til að stunda rannsóknarblaðamennsku. Það hefur sýnt sig að rannsóknarblaðamennska er nauðsynleg í lýðræðisríki, en að hún er jafnframt óvinsæl hjá ýmsum sem hafa hag af því að almenningur fái takmarkaðar upplýsingar."
Vonandi eitt skref af mörgum til að gera fjölmiðla óháða
Fjáröflunin gekk ótrúlega vel. Þið náðuð takmarkinu ykkar á nákvæmlega 48 klukkustundum. Ertu með tilgátu um af hverju verkefnið ykkar fékk svona góðar undirtektir?
„Viðbrögðin sýna að margir deila með okkur þeirri samfélagslegu sýn að það skipti máli fyrir farsæld okkar allra að til séu sterkir fjölmiðlar sem eru ekki undir valdi sérhagsmunaafla. Bæði fyrir og eftir hrun hefur sýnt sig að eignarhald og vald yfir fjölmiðlum hefur áhrif á þær upplýsingar sem við fáum. Vonandi er okkar framlag bara eitt skref af mörgum í þá átt að gera fjölmiðla óháðari valdablokkum og fólk almennt meðvitaðara um að það getur haft áhrif til að auka upplýsingagjöf. Vonandi er þetta skref í átt að valdeflingu almennings. Upplýsingar eru grunnurinn að upplýstri ákvarðanatöku okkar allra, og við vitum ýmist aldrei eða of seint af því þegar mikilvægum upplýsingum hefur verið haldið frá okkur."
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.