Íslendingar vonast líklega til þess að þurfa aldrei aftur að sjá Lee Buchheit. Hann hefur tvívegis verið kallaður til þjónustu, í bæði skiptin til að hjálpa við lausn á risastórum efnahagslegum vandamálum sem gætu haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska þjóð ef illa tækist til við lausn þeirra. Í fyrra skiptið leiddi hann viðræður sem leiddu til þriðju Icesave-samninganna, sem síðar voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðustu mánuði hefur hann verið lykilmaður í því að finna lausn á því risastóra vandamáli sem erlend krónueign slitabúa fallinna banka og ýmissa annarra fjárfesta, og fjármagnshöft til að halda þeim krónum inni, er fyrir íslenska hagkerfið.
Lausn þess vandamáls var opinberuð á mánudaginn. Stærstu kröfuhafar Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans hafa samþykkt að gefa eftir mörg hundruð milljarða króna gegn því að fá að fá að klára slit á búum sínum og losa um eignir sínar.
Lítið land með risastórt vandamál
Buchheit var ráðinn ráðgjafi framkvæmdahóps um losun hafta í júlí 2014. Sá hópur heyrði undir stýrinefnd sem í sátu meðal annars Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og fulltrúar úr forsætisráðuneytinu. Buchheit segir að þegar hann kom að málinu hafi staðið til að leysa það á árinu 2014. „Það sem þurfti að gera strax var að átta sig á umfangi vandans. Hann var mun stærri en bara slitabú bankanna þriggja. Það þurfti lika að greina aflandskrónurnar og mögulegt útflæði innlendra aðila við losun hafta.
Framkvæmdahópur um losun hafta hafði unnið þorra þeirrar greiningar þegar ég kom að þessu. Erfiði hluti vandamálsins var, eins og oft vill verða, lausnin á því. Við eyddum því fyrstu vikunum í að skoða mögulegar leiðir til að takast á við vandann. Það eru takmörkuð fordæmi fyrir svona stöðu í heimssögunni.
Vandamálið á Íslandi var risastórt. Hagkerfið var lítið, fjármagnshöft höfðu verið til staðar í sex ár og um 70 prósent af þjóðarframleiðslu var fast á bak við þau höft. Og íslenska efnahagshrunið var auðvitað eitt það versta sem nokkru sinni hefur átt sér stað í heimssögunni. Samanlagt gjaldþrot föllnu bankanna var eitt stærsta gjaldþrot sem átt hefur sér stað.“
Lee Buchheit er bjartsýnn á að þeir kröfuhafar sem hafa ekki tekið þátt í viðræðunum undanfarna mánuði muni spila með og samþykkja nauðasamningstillögur í haust.
Viðræður við kröfuhafa hófust í mars
Á fyrri hluta ársins 2015, nánar tiltekið í lok febrúar og í byrjun mars, fór að komast töluverður gangur á málið. Búið var að vinna greiningar á vandanum og hvað þyrfti til svo hægt væri að losa höft. Ljóst var að kröfuhafar slitabúa föllnu bankanna myndu þurfa að gefa töluvert eftir af eignum sínum, sem raunar hafði blasað við í umtalsverðan tíma. Allt annað myndi ógna íslenskum greiðslujöfnuði þannig að íslenskt samfélag myndi bíða mikinn skaða af.
Buchheit segir að á þessum tíma hafi verið ákveðið að velja hóp kröfuhafa sem voru álitnir leiðandi, þrjá til fjóra stærstu í hverju slitabúi fyrir sig, til að taka þátt í viðræðum um lausn á vandanum. Auk þeirra tóku helstu fjármála- og lögfræðilegu ráðgjafar kröfuhafanna þátt í fundunum. „Á þessum tíma, í lok febrúar og byrjun mars, ákvað stýrinefndin að nú væri rétti tíminn til að hefja formlegt samráðsferli með nokkrum leiðandi kröfuhöfum í hverjum banka fyrir sig. Við ákváðum að við þyrftum að tala við fulltrúa kröfuhafa í þessum þremur slitabúum. Vandamálið við það er að kröfur á slitabúin ganga kaupum og sölum á markaði. Við gátum því ekki látið hluta kröfuhafana fá upplýsingar sem aðrir voru ekki með nema að þeir væru takmarkaðir á einhvern hátt.
Kröfuhafarnir sem tóku þátt í viðræðunum voru því beðnir um að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingar og beðnir um að taka ekki þátt í viðskiptum með kröfur á slitabúin á meðan að viðræðurnar áttu sér stað og þangað til að upplýsingarnar sem þeir fengu á meðan væru orðnar opinberar.
Kröfuhafarnir sem tóku þátt í viðræðunum voru því beðnir um að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingar og beðnir um að taka ekki þátt í viðskiptum með kröfur á slitabúin á meðan að viðræðurnar áttu sér stað og þangað til að upplýsingarnar sem þeir fengu á meðan væru orðnar opinberar.
Hlutverk framkvæmdahópsins í þessum viðræðum var að koma á framfæri sýn stjórnvalda á vandann og hvernig framlag kröfuhafa til lausnar á vandanum þyrfti að verða. Það leiddi til þess að kröfuhafarnir lögðu fram ýmsar tillögur um lausn sem framkvæmdahópurinn bar síðan saman við þá kríteríu sem hann hafði sett sem skilyrði að yrði að uppfylla til að hann gæti samþykkt tillögur þeirra.
Þeim niðurstöðum var síðan komið aftur til kröfuhafanna sem gerðu slikt hið sama og þannig gekk þetta fram og til baka. Á endanum þá lögðu kröfuhafarnir fram tillögu sem framkvæmdahópurinn taldi að hann gæti mælt með við stýrinefndina að yrði samþykkt.“
Varð var við leka
Mikið hefur verið rætt um að upplýsingar um framgang haftalosunarferlisins hafi lekið út til fjölmiðla og annarra undanfarna mánuði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði til að mynda að trúnaðarbrestur eftir fund í samráðsnefnd um losun hafta í desember, sem í sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, hefði leitt til þess að upplýsingagjöf hafi verið breytt þannig að flæði upplýsinga var takmarkað. Þá hefur framkvæmdahópur um losun hafta legið undir ámæli víða, meðal annars á meðal þingmanna og innan fjármálageirans, fyrir að leka upplýsingum um framgang áætlunarinnar og helsta inntak hennar, til valinna fjölmiðla.
Buchheit kannast við umræðuna um leka úr starfinu. „Lekar voru smávægilegt vandamál í fyrstu skrefunum eftir að ég kom inn, en ekki alvarlegt vandamál. Það voru engir alvarlegir lekar eftir að trúnaðaryfirlýsingarnar voru undirritaðar snemma á þessu ári. En fyrir þann tíma voru nokkrir lekar.“
Margra mánaða aðdragandi
Líkt og frægt er orðið voru tillögur kröfuhafanna ekki lagðar fram fyrr en á sunnudag og mánudagsmorgun. Þær síðustu eru sagðar hafa borist nokkrum mínútum áður en kynningarfundur stjórnvalda á áætlun sinni um losun hafta hófst í Hörpu um hádegisbil á mánudag.
Að sögn Buchheit var unnið að því alla nóttina að klára tillögurnar svo hægt yrði að leggja þær fram á þeim degi. Þær höfðu þó, líkt og áður sagði, átt sér margra mánaða aðdraganda og voru niðurstaða mikilla viðræðna milli framkvæmdahóps um losun hafta og stærstu kröfuhafa slitabúanna um hvernig þau gætu mætt skilyrðum íslenskra stjórnvalda þannig að hægt verði að slíta búunum með nauðasamningi. „Lokatillögurnar komu einungis fram fyrir hádegi á mánudag, sama dag og kynningin á haftaáætluninni fór fram. Fólk var vakandi alla nóttina að klára þetta. Ferlið hafði þá staðið yfir frá því um miðjan mars. Frá þeim tíma hafa margar hugmyndir verið settar á flot um hvernig lausnin ætti að vera. Stjórnvöld unnu samhliða að mögulegri álagningu stöðugleikaskatts vegna þess að það var engin vissa um að samkomulag myndi nást um tillögu sem uppfyllti þau skilyrði sem sett höfðu verið fram.“
Samkomulag gefur stjórnvöldum margt sem skattur gerir ekki
Hann segir að samkomulag um niðurstöðu við kröfuhafa, sem byggi á því að skilyrði stjórnvalda séu samþykkt, færi stjórnvöldum margt sem stöðugleikaskattur gæti ekki fært þeim. „Til dæmis það að slitabúin lána nýju bönkunum sínum fé til að borga niður þau lán sem ríkissjóður og Seðlabanki hafa veitt þeim. Það er mikil búbót og færir mikið magn af gjaldeyri aftur til Seðlabankans sem hann átti ekki von á árum saman.
Annað sem sameiginleg niðurstaða leiddi af sér er sú gjörð að slitabúin láta Seðlabankann hafa krónukröfur sínar á innlenda aðila. Sumar krafnanna eru á sveitafélög og stór íslensk fyrirtæki. Það að Seðlabankinn fái yfirráð yfir því gefur honum tækifæri til að hafa áhrif á hvernig efnahagskerfið muni þróast á næstu árum. Svo gera tillögur kröfuhafanna auðvitað ráð fyrir þeim möguleika að nýju bankarnir verði seldir fyrir gjaldeyri sem má nota til að greiða niður skuldir. Það hefði ekki verið hægt að fá slitabúin til að gera þessa hluti, neyða þau til að gera þetta, með einfaldri skattlagningu.
Það eru því mikil hagur fyrir stjórnvöld að leysa þetta mál með samkomulagi frekar en með skattlagningu.“
Áætlun stjórnvalda um losun hafta var kynnt í Hörpu á mánudag.
Bjartsýnn á að tillögurnar verði samþykktar
Aðspurður hvort hann hafi skynjað vilja á meðal kröfuhafa til að semja, og hvort það hafi einhvern tímann slegið í brýnu á milli þeirra á meðan á viðræðunum stóð, segir Buchheit að gera verði sér grein fyrir því að um rosalega stórar upphæðir sé að ræða og eðlilegt að upp komi aðstæður þar sem menn séu ósammála. „Ég er nokkuð viss um að margir kröfuhafanna eru ekkert sérstaklega ánægðir með að þurfa að gefa eftir svona mikla peninga. Að því sögðu þá hefur þetta gengið mjög fagmannlega fyrir sig. Ráðgjafarnir sem slitabúin réðu, bæði á Íslandi og erlendis, voru mjög fagmannlegir. Ég man ekki eftir að styggðaryrði hafi komið frá þeim á meðan að þetta ferli stóð yfir. En það var auðvitað munur á skoðunum um hvað væri viðeigandi að gera, eins og búast mátti við.“
Þótt að stærstu kröfuhafar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans hafi allir skilað tillögum sem stýrinefnd um losun hafta hefur samþykkt að uppfylli stöðugleikaskilyrðin sem þarf til að klára nauðsamninga slitabúa föllnu bankanna er enn eftir töluverð vinna við að klára málið. Slitastjórnirnar þurfa að leggja tillögurnar fyrir kröfuhafafund og þar þarf aukinn meirihluti allra kröfuhafa að samþykkja þær svo nauðasamningarnir klárist.
Buchheit er bjartsýnn á að þeir kröfuhafar sem hafa ekki tekið þátt í viðræðunum undanfarna mánuði muni spila með. „Það vinnur með Íslandi að þessir kröfuhafar eru búnir að vera fastir á Íslandi mun lengur en þeir reiknuðu nokkru sinni með.
Þeir voru því viljugir til að ræða samkomulag þegar það bauðst, meðal annars vegna þess að þeir eru orðnir nokkuð þreyttir á verunni hérna. Þetta eru vogunar- og fjárfestingarsjóðir sem vilja frelsa peningana sína reglulega til að koma þeim í aðrar áhugaverðar fjárfestingar. Þeir voru hins vegar fastir hérna vegna haftanna. Eftir sex ár þá voru þeir mjög móttækilegir fyrir lausn þegar hún bauðst.
Ég er því bjartsýnn á því að aukinn meirihluti kröfuhafa muni samþykkja tillögurnar sem munu verða lagðar fyrir þá af slitastjórnunum þegar þar að kemur. Ef aukinn meirihluti samþykkir þetta þá ætti það að girða fyrir málsóknir í kjölfar nauðasamninga.“
Enn á eftir að leysa aflandskrónuvandann svokallaða, sem verður gert í gegnum uppboð þegar líður á árið. Buchheit telur að þau muni fara fram á svipuðum tíma og slitastjórnirnar muni leggja tillögur um nauðasamning fyrir alla kröfuhafa sína, væntanlega í haust.
Gæti skilað 650 milljörðum króna
Ef kröfuhafarnir samþykkja þær tillögur sem nú liggja fyrir telur Buchheit að stórt skref hafi verið stigið í átt að fullum efnahagsbata Íslands eftir hrunið. „Ef áætlunin gengur upp munu um 650 milljarðar króna renna til ríkissjóðs. Ég veit ekki nákvæmlega hver endanlega talan verður. Það fer eftir því á hvað nýju bankarnir munu seljast, á hvað kröfurnar gegn innlendu aðilunum skila og svo framvegis. En mér finnst þetta líkleg tala.
Þessi upphæð kemur aukalega inn í ríkissjóð. Það er ekki gert ráð fyrir henni í fjárlögum eða neinu slíku og hún er á pari við árleg útgjöld ríkisins. Hversu oft í sögu lands gerist slíkt?
En ég spái því að eftir tíu ár muni viðskiptadeild Harvard háskóla vera að vinna með dæmi (e. case-study) sem heiti „Ísland frá 2008 til 2015“.
Þetta mun skapa spíral upp á við fyrir íslenskt hagkerfi. Hann mun myndast vegna þess að íslenska ríkið mun greiða um þriðjung skulda sinna, sem mun spara ykkur nokkra tugi milljarða króna í vaxtagreiðslur. Það mun þýða að lánshæfismatsfyrirtækin munu hækka lánshæfi ríkisins, og í kjölfarið íslenskra fyrirtækja, sem mun draga úr lánakostnaði. Svo mun lyfting hafta gera það að verkum að fjárfesting á Íslandi gæti aukist. Þetta vandamál, lausn á losun hafta, var síðasta stóra vandamálið sem hefti efnahagslegan bata Íslands.“
Hann segir að Ísland hafa upplifað fordæmalausa tíma frá efnahagshruni og allar stóru ákvarðanirnar sem teknar hafa verið á síðustu tæpu sjö árum hafi reynst réttar. „Þetta hefur verið áreynslumikill tími fyrir Ísland. En ég spái því að eftir tíu ár muni viðskiptadeild Harvard háskóla vera að vinna með dæmi (e. case-study) sem heiti „Ísland frá 2008 til 2015“. Ég man ekki eftir neinu landi sem varð fyrir eins miklum og víðtækum áhrifum vegna efnahagsáfallsins en hefur jafnað sig á jafn ótrúlegan hátt á svona skömmum tíma. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sársauka sem þetta ferli hefur valdið mörgum á Íslandi en endurreisnin hefur verið hraðari en flestir töldu mögulegt.“