Rannsókn á því hvort FL Group hafi í raun greitt þrjá af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons, félag í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, notaði til að greiða fyrir danska flugfélagið Sterling í mars 2005 er lokið hjá embætti sérstaks saksóknara. Niðurstöður hennar liggja nú hjá saksóknara innan embættisins, sem mun taka ákvörðun um hvort ákært verður eða ekki. Samkvæmt heimildum Kjarnans verður sú ákvörðun tekin innan mánaðar.
Málið hefur verið til rannsóknar frá því haustið 2008 hjá ýmsum embættum. Viðskipti FL Group, Fons og Sunds ehf. sem áttu sér stað með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum á árunum 2005 til 2008 eru ein þekktustu meintu sýndarviðskipti sem framkvæmd voru á árunum fyrir hrun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars að þau séu „einhver umdeildustu viðskipti Hannesar [Smárasonar, fyrrverandi forstjóra og stjórnarformanns FL Group] og raunar alls þessa tímabils“.
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hóf að rannsaka þessi viðskipti árið 2008 að eigin frumkvæði. Undir voru grunsemdir um meint auðgunarbrot og brot á ákvæðum hlutafélagalaga um bann við lánveitingum á borð við þá sem FL Group var grunað um að hafa veitt Fons.
Hinn 11. nóvember 2008 gerðu starfsmenn skattrannsóknarstjóra síðan ítarlega húsleit í höfuðstöðvum FL Group, sem þá hafði tekið upp nafnið Stoðir. Þar var lagt hald á ýmiss konar bókhaldsgögn og skjöl sem tengdust ætluðum sýndarviðskiptum með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum og aragrúi tölvupóstsamskipta afritaður.
Hluti þessara gagna var sendur áfram til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í lok árs 2009. Um er að ræða hundruð blaðsíðna af trúnaðargögnum.
Þau má lesa í umfjöllun nýjustu útgáfu Kjarnans um málið.