Þessi færsla er úr eldra greinasafni Kjarnans og gæti þess vegna birst furðulega.
sdg.lei_.r.tting_.jpg
Auglýsing

Loks hafa skuldaniðurfellingar verið kynntar. Hið gleðilega við þessa mestu tilfærslu á eignum til afmarkaðs hóps í samfélaginu, sem í skruminu er aldrei nefndur annað en „heimilin“, er að umfangið er á endanum mun minna en var lofað þegar Framsóknarflokkurinn keypti kosningarnar. Í mars á þessu ári, röskum mánuði fyrir kosningar, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefnilega að skuldaniðurfellingarnar, sem í skruminu eru nefndar „leiðrétting á forsendubrest“, myndu kosta 240 milljarða króna. Hann endurtók þessa möntru síðan nokkrum sinnum í kjölfarið. Niðurstaðan er þriðjungur þeirrar upphæðar, 80 milljarðar króna. Skaðinn er því minni en upphaflega var lagt upp með, og er það vel.

Hið ömurlega við þessa tilfærslu er að hún er öll á kostnað ríkisins og á henni hvílir ríkisábyrgð. Það að setja sérstakan skatt á þrotabú, og troða sér þannig fremst í kröfuröð, er stjórnvaldsaðgerð sem skilar ríkissjóði miklum tekjum. Þaðan verður þessum greiðslum dreift út. Það er því enginn vafi á því lengur að ríkissjóður er að borga brúsann. Ef hin sérstaka skattlagning stenst ekki lög eða stjórnarskrá, sem vonandi verður ekki niðurstaðan, afleiðingar þess myndu valda enn meiri ömurleika, þá lendir kostnaðurinn af fullum þunga á skattgreiðendum. Þeir sem fá ekkert greiða þá fyrir niðurfærslu hinna sem fá með hærri sköttum og minni þjónustu. Ef skattarnir innheimtast er skjalfest að ríkið ætlar að færa afmörkuðum hópi fullt af peningum. Þá vaknar sú spurning hvort það standist yfir höfuð jafnræðisákvæði stjórnarskráarinnar.

Allir tapa


Nú skulum við fara yfir nokkrar staðreyndir. Tæplega helmingur fjölskyldna í landinu, eða 47 prósent þeirra, skuldar ekkert vegna húsnæðis. 27 prósent þeirra búa í leiguhúsnæði. Þetta fólk fær ekkert gefins. Þess utan er hluti þeirra sem eftir standa með óverðtryggð lán eða tóku þau eftir árið 2010. Enginn þessara hópa er innan mengisins sem kallast „heimilin í landinu“ en voru samt fórnarlömb þess sem ríkisstjórnin skilgreinir sem forsendubrest.

Eitthvað segir manni að enginn eigi eftir að vera sáttur við þá niðurstöðu sem kynnt var í gær, nema Framsóknarflokkurinn og klappstýrur hennar í netheimum og fjölmiðlum. Þær eru þegar byrjaðar að reyna að selja þá hugmynd að Sigmundur Davíð sé Braveheart okkar Íslendinga. En þeir sem hafa beðið stórfelldra niðurfellinga verða ugglaust fyrir vonbrigðum með að þeir fái ekki nógu mikið. Þeir sem fá ekkert verða fyrir vonbrigðum vegna þess að ríkissjóður er að eyða peningum sem gætu farið í að greiða sameiginlegar skuldir okkar allra í að greiða niður skuldir sumra. Og Sjálfstæðisflokkurinn verður fyrir vonbrigðum vegna þess að þessi flokkur sem kallar sig hægriflokk, og reynir á tyllidögum að selja sig sem holdgerving frjálslyndis, einkaréttarins og einstaklingsframtaksins, var rétt í þessu að kvitta upp á stærstu sósíalísku aðgerð íslenskrar efnahagssögu. Óbragðið í munni þeirra innan raða flokksins sem hafa einhverja hugsjón í pólitík hlýtur að vera rosalega sterkt.

Auglýsing

Málið verður líka erfitt fyrir stjórnarandstöðuna. Sérstaklega vegna þess að framkvæmdin er útvötnuð og kemur ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Viðbrögð hennar munu taka mið af því að fullt af kjósendunum sem hún er að reyna að ná til eru að velta fyrir sér spurningunni „hvað fæ ég?“. Ef viðbrögð hennar yrðu strax hörð gæti það komið pólitískt í bakið á henni síðar meir. Auk þess eru margir í stjórnarandstöðuliðinu einfaldlega ekkert á móti skuldarniðurfellingum sumra.

Til að láta „leiðréttinguna“ líta betur út, til að toga upp heildarupphæðina í auglýsingunni, var það kynnt sem hluti af niðurfærslunni að öllum Íslendingum yrði gert kleift að eyða séreignarsparnaðinum sínum í steypu frekar en takmarkaða fjárfestingarmöguleika fjármagnshafta-heftra lífeyrissjóða. Þetta er fín hugmynd og gott að gefa fólki meira frelsi til að ávaxta sparnað sinn. En þetta er ekki niðurfærsla. Skattleysið sem fylgir þessari aðgerð þýðir nefnilega að ríkið er að taka lán í áður ákveðnum framtíðartekjum sínum. Ríkið borgar því viðbótina. Og ríkið... það erum við.

Stærsta kosningaloforðið hefur verið svikið


Framsókn hefur því svikið kosningaloforð kosningaloforðanna, og er það vel. Niðurfærslurnar eru mun lægri en lofað var þegar flokkurinn þurfti að kaupa sig til valda og útfærslan þynnri en gefið var í skyn. Það er hins vegar verið að taka stórkostlega áhættu með íslenskan efnahag og samfélag. Reyndar kynnti Sigurður Hannesson, formaður skuldaniðurfellingarhópsins, alls kyns niðurstöður í Hörpunni sem bentu til þess að skuldaniðurfellingarnar myndu hafa nítró-áhrif á í íslenskt efnahagslíf. Verðbólga myndi ekki hækka, þetta myndi ekki hafa nein áhrif á viðskiptajöfnuð, kaupmáttur myndi aukast, atvinnuleysi dragast saman. Og svo framvegis. Það vantaði bara að við myndum örugglega öll skíta gulli í beinu framhaldi.

Miðað við fréttir í aðdraganda aðgerðatilkynningarinnar var hins vegar ekki ákveðið hvaða leið ætti að fara fyrr en snemma á föstudagsmorgun. Drög að tillögum voru ekki kynnt fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrr en skömmu fyrir það og þingflokkarnir fengu ekki að sjá þau fyrr en korteri fyrir kynningarfund. Samt var búið að greina áhrif aðgerðanna í ræmur. Það má vel velta því fyrir sér hvort  macro-greiningin sem kynnt var sé umfangsmesta „pantaða“ áreiðanleikakönnun sem við höfum nokkru sinni séð.

Það er því full ástæða til að bíða frekari greininga annarra á þessum áhrifum.

Sjálfstraustið sem leitt getur okkur til glötunar


En nú þegar útvatnaðar, og ríkistryggðar, útfærslur á stærsta kosningavíxli Íslandssögunnar liggja fyrir er tímabært að taka stöðuna. Hún er svona: Við völd á Íslandi er hópur sem er með ógurlegt sjálfstraust. Til einföldunar má kalla þennan hóp mennina með blysin, enda eiga þeir það flestir sameiginlegt að hafa farið í fræga blysför að Bessastöðum til að mótmæla Icesave á sínum tíma. Í því máli hvatti hópurinn til þess að íslenskt samfélag færi í gríðarlega stórt veðmál. Tæki risavaxna áhættu. Leggði allt undir á rauðan í rúllettu.

Og hann vann veðmálið. Reyndar er vert að taka það fram að það var einn maður, Ólafur Ragnar Grímsson, sem synjaði ákvörðun mikils meirihluta þings og sendi Icesave-málið dómstólaleiðina. Hann breytti líka stjórnskipun landsins einsamall og án umboðs í leiðinni, en það er önnur saga. Þegar EFTA-dómstóllinn sýknaði Ísland af kröfum í málinu var síðan einn af dómurunum Páll Hreinsson. Um afstöðu hans til Icesave-málsins má lesa í ítarlegu máli í Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem hann skrifaði með öðrum. Í kjölfarið má velta fyrir sér hver áhrif hans á niðurstöðuna voru. Það er auðvelt að ætla að þau hafi verið mikil. Og niðurstaðan var gleðileg og sparaði Íslendingum töluvert fé.

En þeir sem nutu góðs af þessari niðurstöðu voru mennirnir með blysin. Þeir nýttu sér hana í pólitískum tilgangi. Þeir sögðu: „Við unnum Icesave. Við getum allt.“ Á baki Icesave-mýtunar telja þeir sig geta tekið gríðarlega áhættu með íslenskt samfélag. Lagt mikið undir í veðmálum með slökum stuðlum. Þeir eru sannfærðir um að geta alltaf unnið þessi veðmál. Og skuldaniðurfellingar og tæp skattlagning eigna vondu kröfuhafanna eru slík veðmál.

Og þeir vilja alls ekki vera gagnrýndir fyrir þessar áherslur. Ef einhverjir eru þeim ósammála er sú orðræða slæm vegna þess að hún hræðir heimilin. Þeir sem eru ósammála, hafa aðrar skoðanir en „þá réttu“, eru að ljúga. Hvatir þeirra eru annarlegar. Þeir eru örugglega að vinna fyrir óvininn. Þessi pistill er líkast til ein af þeim lygum sem hinn ítrekað misskilni forsætisráðherra hefur oftsinnis varað við. Hann er hættulegur og þið ættuð helst ekki að lesa hann.

Mennirnir með blysin ráða nefnilega Íslandi. Vonandi kveikja þeir ekki í landinu á meðan.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiPistlar
None