Nýja árið rís flugbratt úr flatneskju daganna eins og dæmigert stapafjall frá ísöldinni skriðurunnið hið neðra en girt ókleifum hamrabeltum ofar. Í skugga fjallsins vafra nývaknaðir vesalingar tútnir af hangikjötsáti og slefandi sykurlopa síðast étnu Macintoshmolanna. Þeir nudda maraþonsjónvarpsþáttaglápsstírurnar úr augum sér og hefja augu sín til fjallanna með svardögum um nýtt líf.
Í upphafi hvers árs hefst skipuleg útivistar og fjallgöngudagskrá margra félaga og fyrirtækja og þau reyna að lokka sófakartöflurnar til sín með loforðum um að breyta þeim í tignarlega og krónhjörtumlíka fjallgöngugarpa, þríþrautarkeppendur og náttúrubörn.
Valkvíði og ákvörðunarfælni
Í þessum menningarkima gengur um þessar mundir á með linnulausum kynningarfundum með fjallalistum, leiðbeiningum, fatasýningum og endurfundum. Mismunandi stórir klasar göngumanna sveima frá einum fundi til annars og bera saman verð og dagskrá en yfir vötnunum svífur þykkt ský af valkvíða og ákvörðunarfælni.
Við höfum fórnað einhverju af okkar náttúrulega eðli fyrir þægindi og munað og á leiðinni að látlausri vellíðan höfum við orðið viðskila við hina einföldu lífsgæði sem aldrei hafa tapað gildi sínu.
Að öllu skopi slepptu þá blundar líklega í hjörtum allra löngunin til þess að vera úti að leika sér í snjósköflum, renna sér á rassinum niður brekkur æpandi og skrækjandi eða gangandi í hljóðri andakt um snævihlaðna skóga eða blásna og frosna mela.
Við eigum í hugskoti okkar drauminn um að halda til fjalla og koma blóðinu á hreyfingu, takast á við sjálf okkur og veturinn í hópi glaðra félaga. Við sjáum okkur í draumi sitjandi með rjóðar kinnar í víðsýnum fjallasal með heitt kakó í bollanum, heimabakað rúgbrauð með kæfu og finnum gleðina sem þýtur í blóðinu þegar tindurinn er sigraður.
Þótt náttúran sofi undir sköflunum þá kallar hún á okkur og við heyrum það gegnum kliðinn frá sjónvarpinu, áhyggjunum af vinnunni, fjármálunum, börnunum, framtíðinni og skuldbindingunum.
Þessi rödd kallar á okkur því þótt við höfum komið okkur vel fyrir í mjúkum stólum inni í upphituðum húsum, sofandi á heilsudýnum, akandi í bílum með sírennandi afþreyingu og upplýsingar í eyrum og augum þá er þetta ekki okkar náttúrulega umhverfi.
Við komum ekki niður úr trjánum fyrir þetta. Við höfum fórnað einhverju af okkar náttúrulega eðli fyrir þægindi og munað og á leiðinni að látlausri vellíðan höfum við orðið viðskila við hina einföldu lífsgæði sem aldrei hafa tapað gildi sínu.
Náttúran hið eina rétta heimkynni mannsins
Um leið og við stígum út út bílnum og höldum til fjalla með vindinn í hárinu, frostið nartandi í kinnarnar eða sólina sem strýkur okkur og rigninguna sem slær okkur utan undir þá finnum við hvernig eitthvað verður rétt á ný. Brotið sem vantaði í heildarmyndina dettur allt í einu á sinn rétta stað og í vitund okkur kviknar á skilningarvitum sem sofa á malbikinu. Við finnum aftur í eðli okkar dýrið sem við erum öll undir merkjafatnaðinum og aukakílóunum og allt í einu verður auðvelt að hugsa og sjá vandamál hversdagsins í öðru ljósi. Þetta gerist allt vegna þess að náttúran er hið eina rétta heimkynni mannsins og þar og einungis þar er hann eins og hann á að sér að vera.
Það er nefnilega ekki hægt að sýnast í erfiðum fjallgöngum. Náttúran kallar fram okkar rétta eðli og skaphöfn og sýnir okkur í veikleika og styrkleika og opnar þannig leiðina að hjarta okkar.
Náttúran býr yfir græðandi og styrkjandi eiginleikum sem enginn tækjasalur í líkamsrækt getur líkt eftir. Sá sem gengur vasklega eftir snæviþöktum stíg með svalan vind á kinn í stefnu á tindinn á fátt sameiginlegt með þeim sem puðar á skíðavél eða hlaupabretti með útvarp í eyrunum og sjónvarp fyrir augum, nema hugsanlega það að þeir brenna kannski sama fjölda hitaeininga á hverri klukkustund.
Um þennan lækningamátt náttúrunnar hafa menn lengi vitað eins og eftirfarandi erindi ber vitni um:
„Þegar lundin þín er hrelld
þessum hlýddu orðum.
Gakktu með sjó og sittu við eld
svo kvað völvan forðum.“
Guðmundur Einarsson frá Miðdal sem var frumkvöðull í fjallamennsku og náttúrudýrkun á Íslandi kunni einnig vel að koma orðum að upplifun sinni. Í bók sinni Fjallamennska sem kom út 1946 segir Guðmundur í skemmtilegri grein sem heitir Líkamsmennt og fjallaferðir: „Fjallgöngumaðurinn eignast víðsýni og bjartsýni í tvennum skilningi. Hann ber höfuð sitt hátt og frjálsmannlega, brjóstið verður hvelft og gangurinn öruggur. Stúlkurnar fá auk þessa eitthvað af frjálsleik hindarinnar, og fjarlægðir vaxa þeim ekki í augum.“ Guðmundur segir líka þegar fjallað er um öryggi í fjallgöngum: „Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum.“
Ég hef stjórnað gönguhópum Ferðafélags Íslands í fimm ár samfleytt og veit að Guðmundur hafði rétt fyrir sér. Ég hef séð fólk stælast og vaxa með þeim verkefnum sem það setur sér. Ég hef séð það léttast og styrkjast, eignast fjöldann af nýjum vinum og stundum finna ástina. Það er nefnilega ekki hægt að sýnast í erfiðum fjallgöngum. Náttúran kallar fram okkar rétta eðli og skaphöfn og sýnir okkur í veikleika og styrkleika og opnar þannig leiðina að hjarta okkar.