Í dag eru ellefu dagar síðan Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra. Hanna Birna er fyrsta konan sem segir af sér ráðherraembætti enda er það ekki mjög algengt hér á landi. Flestir sem ná sér í svona ráðherrastóla sitja á þeim eins og varðhundar á gulli. Voff!
Það er eftirsjá í Hönnu Birnu. Hún var fyrst kvenna til að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum og framganga hennar var öðrum konum innblástur til að sækjast eftir áhrifum. Hönnu Birnu voru hins vegar mislagðar hendur við val á aðstoðarmanni og í atburðarás lekamálsins svokallaða en ef ég sé fleiri stafi um það mál á netinu æli ég pínu lítið.
Alltaf eitthvað að þeim...
Eftir að Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra hafa margir velt því fyrir sér hver muni taka hennar stað í ráðuneytinu. Í ljósi fyrirheita formanns Sjálfstæðisflokksins um jöfn hlutföll karla og kvenna í ríkisstjórninni verður að gera ráð fyrir að hann geri tillögu um konu í embættið. Venju samkvæmt byrja menn þá að æmta og skræmta með yfirlýsingum að það beri að velja hæfasta einstaklinginn – rétt eins og þetta tvennt geti ekki farið saman.
„Það er því ekki nóg að vera jafn hæf, jafn dugleg og jafn klár og strákarnir. Við verðum helst að hafa reynslu af því starfi sem við sækjumst eftir.“
Það er eins og sönnunarbyrðin hvíli á konum frekar en körlum í svona aðstæðum. Alltaf þegar kona kemur til greina eða þegar einhver hvetur til þess að kona verði skipuð í tiltekið embætti eða starf, þá byrjar kórinn, karlakórinn sem er þó kynjablandaður. Það er alltaf eitthvað að þegar kona á í hlut; of ung, of gömul, of miklar skoðanir, of reynslulítil, of þetta, of hitt...
Ekki sömu kröfur gerðar til karla og kvenna
Staðreyndin er sú að konur fá sjaldnast stöðuhækkun nema þær hafi áður áorkað einhverju sambærilegu eða sýnt og sannað að þær geti valdið starfinu. Slíkar kröfur eru ekki gerðar til karla.
Sheryl Sandberg segir í bók sinni Lean in, og vitnar þar í skýrslu frá McKinsey (2011), að karlar fái stöðuhækkun vegna þess sem þeir gætu gert en konur vegna þess sem þær hafa nú þegar afrekað. Þar hittir hún naglann á höfuðið, eins og í raun í flestu sem hún hamrar á í bókinni. Það er því ekki nóg að vera jafn hæf, jafn dugleg og jafn klár og strákarnir. Við verðum helst að hafa reynslu af því starfi sem við sækjumst eftir.
„Ok, þú vilt sumsé komast hærra upp stigann? Hefurðu komið þar áður? Nú, ok, nei, þá er það ekki hægt, sorrý.“ Eðlilegt⸮
Fleiri konur, takk
Okkur vantar fleiri fyrirmyndir fyrir ungar konur sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Ungar konur sem verða fyrir þungu höggi þegar þær átta sig á því að glerþakið er ekki aðeins raunverulegt heldur nánast óbrjótanlegt í fyrstu atrennu.
Okkur vantar fleiri konur til þess að stjórna samfélaginu vegna þess að ég held í raun og veru að það verði betra ef við höfum fleiri konur í bílstjórasætunum – hvort sem það er í ráðuneytum, stórfyrirtækjum eða bara í fleiri Toyota bifreiðum á Miklubrautinni.
Halló Bjarni!
Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að gera tillögu um nýjan innanríkisráðherra. Þegar hann bar sigurorð af Hönnu Birnu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins lagði hann þunga áherslu á það að hann væri af kynslóð sem liti á konur og karla sem jafningja. Síðar gekk hann lengra og lofaði jöfnum kynjahlutföllum í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins.
Jæja, Bjarni. Var eitthvað að marka þetta eða voru þetta bara orðin tóm?